Anna Þórunn Hauksdóttir vöruhönnuður býr ásamt fjölskyldu sinni á fallegu heimili í Hafnarfirði. Hún rekur fyrirtækið Anna Thorunn sem framleiðir fallega hluti sem hafa vakið athygli.
Anna Þórunn var lengi í ballett og ætlaði að verða dansari en svo breyttust plönin. Hún var lengi að finna hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór. Eftir að hafa lært skartgripahönnun og smíði í smá tíma á Ítalíu flutti hún heim fór í Iðnskólann og endaði svo á að fara í vöruhönnun í Listaháskóla Íslands.
Á heimili Önnu Þórunnar eru margir fallegir hlutir. Í borðstofunni er til dæmis stórt borðstofuborð sem eiginmaður hennar smíðaði. Borðið var einu sinni viðarlitað en fyrir um tíu árum lökkuðu þau borðið svart. Hún elskar gamla hluti og finnst gaman að gefa þeim nýtt líf eins og sést á heimili hennar.