Halldór Eiríksson arkitekt hjá Tark er einn af þeim sem hönnuðu nýju glæsibygginguna við Reykjavíkurhöfn. Reiturinn kallast Austurhöfn og komust íbúðirnar í fréttir í síðustu viku þegar formleg sala á þeim hófst. Halldór segir að þetta séu ekki dýrustu íbúðir í Reykjavík en þegar gæði og verð sé borið saman sé fólk að fá mikið fyrir peningana sína.
Íbúðirnar við Austurhöfn eru sjarmerandi og er hugsað út í hvert smáatriði við hönnun þeirra. Til dæmis er hægt að taka lyftuna beint inn í hverja íbúð og með hverju herbergi fylgir salerni sem mörgum þykir kostur.
Við Halldór hittumst í sýningaríbúðinni sem er um 170 fm að stærð. Mikið er lagt í dagrými og hægt er að loka herbergisgang af. Í sýningaríbúðinni eru innréttingar úr hnotu og segir Halldór að eldhúsið líti frekar út eins og bókastofa en eldhús. Hann segir að í íbúðunum við Austurhöfn sé ekki verið að hámarka herbergjafjölda heldur snúist þessar íbúðir um gæðaupplifun.
„Það var markmið að fá yfirbragð þar sem fólk finnur að það sé komið í verulega gott hreiður,“ segir Halldór.