Ragna Sif Þórsdóttir er gestur Heimilislífs að þessu sinni. Hún býr í afar fallegu húsi í Kópavogi sem hún og maður hennar keyptu tilbúið til innréttinga. Ragna Sif vissi að hún vildi dökka liti og vildi helst kaupa sem minnst nýtt inn á heimilið. Hún er safnari sem elskar að finna verðmæti á nytjamörkuðum og gefa gömlum hlutum nýjan tilgang.
Ragna Sif lærði grafíska hönnun og tískuhönnun erlendis en þegar hún flutti til Íslands eftir nám var hún beðin um að hanna íbúðir að innan fyrir verktaka í bænum. Það verkefni vatt upp á sig og í dag er hún önnum kafin við að fegra mannabústaði og fyrirtæki. Hún hannaði einn nýjasta og svalasta stað bæjarins að innan. Hann heitir Kramber og er fyrir framan Kramhúsið við Bergstaðastræti.
Arndís Kristjánsdóttir og Lísa Kristjánsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur reka staðinn og þurftu að fá Rögnu til liðs við sig til þess að fullkomna verkið. Ragna fór ótalferðir í Góða hirðinn og á aðra nytjamarkaði til þess að finna gamlar innréttingar sem hún lét smíða upp úr.
Útkoman er ævintýraleg!