Guðlaug Ágústa Halldórsdóttir, Gulla, hefur búið í sama húsinu síðan 1988. Hún þekkti húsið vel áður en hún eignaðist það, því amma hennar og afi áttu húsið. Hún er gestur Heimilislífs að þessu sinni.
Gulla er textílhönnuður sem hefur komið víða við á starfsferli sínum. Hún rak um tíma textílverslunina Mámímó og hefur rekið vinsæla veitingastaði. Árið 2016 ákvað hún að breyta til. Þá hafði hún selt enn einn veitingastaðinn og fékk sér vinnu á fasteignasölu. Í framhaldinu lærði hún að vera fasteignasali og starfar á fasteignasölunni Bæ. Það er þó aldrei langt í sköpunina og í dag er hún með vinnustofu heima hjá sér, en kertastjakar hennar, sem hún setur saman úr gömlum kristal, hafa notið vinsælda.
„Ég er fagurkeri og er mikið fyrir list og handverk. Ég er samt þessi afslappaða týpa. Það má gera allt heima hjá mér. Ég er ekki stressuð yfir neinu og það má nota allt,“ segir Gulla.
Í dag býr hún ein í húsinu og segir að það sé alls ekki of stórt fyrir sig eina. Þegar hún fær góðar hugmyndir hrindir hún þeim strax í framkvæmd og getur ekki hætt fyrr en verkinu er lokið. Heimilið er því síbreytilegt þótt hún sé ekki alltaf að skipta um eldhúsinnréttingu.