Tinna Gunnarsdóttir hönnuður er gestur í þættinum Heimilislíf en ný sería fór í loftið í dag. Tinna og eiginmaður hennar, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson myndlistarmaður, voru búsett erlendis og hún að klára meistaranám þegar faðir hennar, Gunnar Magnússon heitinn, hafði samband við dóttur sína. Hann stakk upp á því að hún og Sigtryggur myndu festa kaup á húsi í félagi við hann sjálfan þar sem Gunnar gæti verið með vinnustofu í kjallaranum en hann var virtur húsgagnahönnuður. Fyrr á árinu hóf FÓLK Reykjavík framleiðslu á húsgögnum Gunnars heitins.
Húsið var ekkert venjulegt hús heldur sjálf Englaborg Jóns Engilbergs listmálara. Tinna og Sigtryggur hafa búið í húsinu síðan 1998 og hefur það tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Þau hafa þó farið varlega í endurbætur og hafa alltaf borið virðingu fyrir Englaborginni og öllum þeim töfrum sem hún býr yfir.