c

Pistlar:

19. apríl 2024 kl. 11:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Grettistak í menntun lækna

Það verður að telja augljóst að Íslendingar ættu að drífa sig í því að heiðra sérstaklega Runólf Oddsson, ræðismann Slóvakíu á Íslandi. Segja má að Runólfur hafi lyft grettistaki við að mennta íslenska heilbrigðisstarfsmenn undanfarinn áratug og þannig bjargað íslenska heilbrigðiskerfinu frá miklum hörmungum. Augljóslega stefndi í óefni með menntun lækna hér á landi áður en námsmenn fóru að leita til útlanda, fyrst Ungverjalands en nú að mestu Slóvakíu að frumkvæði Runólfs en einnig Danmörku. Fyrir vikið hefur bráðum vanda verið afstýrt.læknar

Um þetta mátti lesa í Morgunblaðinu í gær en um þessar mundir eru hvorki fleiri né færri en 225 íslenskir læknanemar í Jessenius-læknaskólanum, en hann er staðsettur í Martin, níundu stærstu borg Slóvakíu. Þessi samskipti eru að frumkvæði Runólfs. Skólinn, sem er hluti af Comenius-háskólanum í Bratislava, hefur löngum þótt fremsta læknadeild Slóvakíu og er jafnan talinn með bestu læknaskólum í Mið-Evrópu segir í frétt Morgunblaðsins. Hér hefur áður í pistlum verið bent á þetta einstaka framtak og mikilvægi skólans í Slóvakíu við menntun íslenskra lækna. Það var því eðlilegt að íslensku forsetahjónin heimsóttu Íslendingana í Jessenius-skólanum ásamt Willum Þór Willumssyni heilbrigðisráðherra í október 2022 og fengu góðar móttökur.

Einokun HÍ skapaði neyðarástand

Líklega ríkti neyðarástand á læknamarkaði ef Háskóli Íslands hefði áfram haldið einokunaraðstöðu sinni við að útskrifa lækna. Eins og flestir muna þá var læknadeild HÍ sú eina sem bauð upp á læknisfræðinám hér á landi og sárafáir reyndu lengst af að freista gæfunnar erlendis. Fjöldatakmarkanir (numerus clausus) einkenndu læknadeildina og þess voru dæmi að nemendur með fyrstu einkunn yrðu að hverfa frá námi. Þessi undarlegheit náðu einnig til tannlæknadeildarinnar. Röksemdirnar fyrir þessu voru að ekki væri hægt að tryggja fleiri læknanemum kennslu á spítölunum. Í tilviki tannlækna virtust kennslustólar vera takmörkunin, eins undarlegt og það er. Þannig var það skortur á aðstöðu og tækjum sem kom í veg fyrir eðlilega þróun í fjölda lækna hér á landi, miklu frekar en skortur á þekkingu því grunnnámið hérlendis var að flestra mati ágætt. Allt var þetta heldur nöturlegt í ljósi þess að mikið af afbragðsnámsfólki hafði áhuga á að læra til læknis en varð frá að hverfa. Nú getur þetta fólk þó leitað til útlanda og ekki hægt annað en að dáðst að áhuga þess og elju. Um leið geta landsmenn verið þakklátir því læknaskortur er viðvarandi vandamál hér sem víða annars staðar.lænar2

Örlagaríkur bíltúr hjá Runólfi

Það er merkilegt til þess að hugsa að fyrir tólf árum þegar öllum var augljóst að Íslendingar menntuðu allt of fáa lækna og stefndi í óefni vildi svo til að Runólfur ákvað að keyra um Slóvakíu endanna á milli, frá Kosice í austurhluta landsins til höfuðborgarinnar Bratislava í vestri, en Martin er þar nánast mitt á milli. Runólfur áði þar og gaf sig á tal við þáverandi umsjónarmann námsins, dr. Albert Stransky. Í kjölfarið ákvað Runólfur að kynna skólann fyrir nokkrum Íslendingum sem þreyttu inntökuprófið hér á landi og héldu svo utan til náms.

Í Morgunblaðinu er haft eftir Halasovu segir að frá þeim tíma hafi sífellt fjölgað í hópi Íslendinga við skólann, og nú sé svo komið að fleiri Íslendingar en Norðmenn komi þar á hverju ári til þess að nema læknisfræði. Janik bætir við að mikil reynsla sé í Jessenius af því að taka á móti erlendum stúdentum til náms, en byrjað var að kenna á ensku í skólanum árið 1991. Hann segir að hin síðari ár hafi verið sérstaklega sóst eftir því að fá nemendur frá norðurhluta Evrópu, sem hafi reynst dugmiklir námsmenn og áhugasamir um læknisfræðina. Halasova segir aðspurð að Íslendingarnir sem stundað hafi nám við skólann hafi jafnan verið í hópi fremstu nemenda og standist þar allan samanburð við nemendur frá mun fjölmennari ríkjum.

Tæplega 100 læknar þegar útskrifast

Námið við Jessenius-læknaskóla tekur sex ár og hafa 98 Íslendingar nú þegar útskrifast með próf frá skólanum. Þar af völdu rúmlega 20 að taka fyrri þrjú árin í Slóvakíu og seinni þrjú í Danmörku og útskrifst þá frá Danmörku. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að þau Erika Halasova, prófessor við skólann og ræðismaður Íslands í Martin, og dr. Martin Janik, aðstoðarrektor alþjóðatengsla í háskólanum og prófessor í réttarmeinafræði, voru bæði stödd hér á landi í vikunni, en þau voru meðal annars að kynna námið í Jessenius-skólanum fyrir íslenskum framhaldsskólanemum.

Jessenius-læknadeildin var formlega stofnuð árið 1969 sem hluti af Comenius-háskólanum í Bratislava, elsta háskóla Slóvakíu. Almenna læknisfræðinámið tekur sex ár, og lýkur með MUDr.-gráðu, sem viðurkennd er í öllum ríkjum ESB. Nemendur þreyta inntökupróf í líffræði og efnafræði á netinu til þess að komast í skólann. Fyrstu tvö ár námsins eru í fræðilegum grunni læknisfræðinnar og næstu tvö eru undirbúningur fyrir klínískt nám, sem fer fram síðustu tvö námsárin. Er þá einnig boðið upp á ýmis valfög innan læknisfræðinnar. Skólagjöldin eru nú rúmlega 1,6 milljón á ári (10.900 evrur) á ári og eru gjaldgeng til námslána.