Sara Pálsdóttir: Að losna við óttann

Sara Pálsdóttir lögmaður og dáleiðari.
Sara Pálsdóttir lögmaður og dáleiðari.

„Þegar við erum óttaslegin erum við aðskilin frá kærleikanum. Óttinn er rót kvíða, hræðslu og áhyggja. Þetta veldur okkur svo aftur streitu og vanlíðan. Óttinn rænir okkur lífsgæðum. Óttinn er kröftugt stýriafl inn í líf okkar. Óttinn skipar okkur fyrir og við hlýðum: hafðu áhyggjur af heilsufari þínu, hafðu áhyggjur af því að ástvinir þínir eða þú sjálfur deyir, hafðu áhyggjur af því að þú eigir ekki næga peninga, hafðu áhyggjur af börnunum þínum, o.s.frv,“ segir Sara Pálsdóttir dáleiðari og lögfræðingur í sínum nýjasta pistli: 

Óttinn er ekki meðfæddur. Hvítvoðungar og lítil börn hræðast ekkert, vaða áfram óttalaus og áhyggjulaus. Nei, óttinn er forritaður í okkur, í undirmeðvitund okkar, þegar við erum að alast upp. Við fáum kvíðaforrit í undirmeðvitundina sem segir okkur að við séum hvergi óhult. Slíkt forrit getur valdið almennri kvíðaröskun. Við fáum forrit inn í undirmeðvitundina um að hætta sé á ferð við ákveðnar aðstæður, t.d. að hundar séu hættulegir, að hættulegt sé að fljúga, að maturinn okkar geri okkur veik, sýklahræðslu o.s.frv. Sé ekkert að gert heldur forritið í undirmeðvitundinni áfram að spila út ævina.

Ef foreldrar okkar lifðu í ótta eru allar líkur á að við gerum hið sama. Við lærum frá foreldrum að heimurinn sé hættulegur og að við þurfum sífellt að vera á varðbergi.

Fólk glímir við ótta eða hræðslu við allt mögulegt. Í flestum tilvikum er um ástæðulausan og órökstuddan ótta að ræða. Langmestur meirihluti þeirra áhyggja sem við höfum, rætist aldrei. Við erum að eyða tíma og orku í að óttast eitthvað eða hafa áhyggjur af einhverju sem við annaðhvort höfum enga stjórn á, eða þá einhverju sem aldrei verður.

Hvað er ótti?

Óttinn er neikvæð tilfinning. Tilfinningar eru ekki ekkert, þær eru, eins og allt annað, orka. Neikvæð orka fylgir neikvæðum tilfinningum eins og ótta og eru slíkar tilfinningar hugsaðar eingöngu til skamms tíma. Til að bjarga okkur frá hættunni. Að lifa í ótta er það sama og að lifa í streitu. Við finnum fyrir ótta, þá förum við að hugsa óttatengdar hugsanir sem á móti vekja enn meiri ótta, o.s.frv. Þetta getur orðið að vítahring. Líf okkar er spegill af hugsunum okkar og tilfinningum. Þegar við lifum í ótta, löðum við að okkur meira af því sem við óttumst. Vanlíðan og veikindi geta gert vart við sig, lífsgæðin eru minni fyrir vikið.

Þegar við upplifum óttatilfinningu sterkt, getur orkan sem myndast við tilfinninguna fest inni í líkama okkar. Tilfinningin getur verið misstór, allt frá því að vera eins og mandarína upp í stóra melónu. Tilfinningin getur fest hvar sem er í líkamanum, en oft velur undirmeðvitundin stað sem er veikur fyrir, t.d. gömul meiðsl. Talað er um að gömul meiðsl „taki sig upp að nýju“, jafnvel þótt meiðslin séu löngu gróin. Óttinn sest þó mjög oft í bringu. Neikvæða orkan sem fylgir tilfinningunni hamlar svo eðlilegu jafnvægi líkamans og skapar ójafnvægi og stíflur. Sá líkamshluti sem orkan hefur tekið sér bólfestu í er alltaf að finna fyrir óttanum, 24/7, 365 daga á ári. Það má segja að hluti okkar sé alltaf óttasleginn, þegar svona háttar til, og getur það m.a. skapað kvíðaröskun og aðra kvilla hjá fólki.

Mjög algengt er að fólk sem glímir við kvíða sé bæði með ótta (kvíða/hræðslu) forrit í undirmeðvitundinni og ótta (kvíða/hræðslu) tilfinningu fasta í líkamanum. Þetta tvennt ýtir svo hvert undir annað og magnar upp óttann og býr þar að auki til streitu í lífi viðkomandi.

Sé þetta ástand við lýði mjög lengi getur þetta skapað enn fleiri heilsufarsleg vandræði síðar meir.

Mikilvægt er að hreinsa út þessar neikvæðu tilfinningar til að eðlilegt og heilbrigt jafnvægi og orkuflæði komist á í líkama okkar. Brýnt er að losa sig við óttann til að geta lifað heilbrigðu og áhyggjulausu lífi. 

En hvernig gerum við það?

Hugleiðsla með þann eindregna tilgang að hreinsa út neikvæðar tilfinningar virkar mjög vel. Auðvelt er að finna slíkar hugleiðslur á youtube. Margir geta átt von á að upplifa þessar neikvæðu tilfinningar í hugleiðslunni þegar þær fjara út, grátur er t.d. algengur. En það er hreinsandi, heilbrigður grátur og viðkomandi líður betur á eftir. Önnur aðferð er að fara í dáleiðslu og fá aðstoð til að hreinsa þessa neikvæðu orku út. Slík aðferð er afar áhrifarík og skjótvirk en þá höfum við beinan aðgang að undirmeðvitundinni þar sem allar upplýsingar um okkur liggja. Þá er einnig hægt að læra vöðvaprófun (muscle testing) og fá þannig svör frá undirmeðvitund okkar, til að komast að því hvaða neikvæðu tilfinningar eru til staðar og síðan hreinsa þær út.

Það er líka hægt að endurforrita undirmeðvitundina og losa sig við eða breyta kvíða- eða óttaforriti. Þar er dáleiðslan einkum áhrifaríkust og skjótvirkust en þú getur gert þetta sjálf/ur heima. Tvisvar á sólarhring standa dyrnar að undirmeðvitundinni þinni opnar, þ.e. rétt áður en þú sofnar og rétt eftir að þú vaknar eða losar svefn. Þá er heilinn í svokölluðu dáleiðsluástandi sem þýðir að undirmeðvitundin er afar móttækileg fyrir upplýsingum. Þú getur útbúið hljóðupptöku af því forriti sem þú vilt fá í undirmeðvitundina og spilað hana á þessum tíma dags. Lykillinn er endurtekning, þannig lærir undirmeðvitundin.

Það er óþarfi að lifa í ótta. Losaðu þig við óttann og stígðu inn í heilbrigðari, hamingjuríkari og kraftmeiri framtíð.

Hægt er að lesa meira um undirmeðvitundina, kvíða og tilfinningar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda