Sumarið er tími drykkja enda þarf líkaminn talsvert meiri vökva í hita þegar við svitnum meira. Gos-, ávaxta- og mjólkurdrykkjaframleiðendur hafa því séð sér hag í því að setja á markað nýjar tegundir í gegnum tíðina hérlendis. Sumir þessara drykkja hafa varla lifað sumarið meðan aðrir hafa átt nokkurra ára lífdaga og aðrir endað varanlega í hillunum.
Smartland fletti í gegnum gamlar drykkjarauglýsingar og skoðaði ýmis drykkjarundur sem voru sum hver „eins-smells-undur“.
RC-Cola fékkst um þriggja ára skeið á Íslandi, frá 1988-1991. Auglýsing úr Morgunblaðinu 1988.
Sól gosdrykkjaframleiðandinn markaðssetti frumlega gosdrykki á sínum tíma. Límó var einn og Sól-Cola annar. Þá var súkkulaðigosdrykkurinn Súkkó til um afar stutt skeið.
Soda Stream er mest notað til að búa til sódavatn í dag en bragðefnum var mikið blandað saman við á fyrstu árum tækisins. Auglýsing frá 1984.
Sopi var vinsæll hjá yngstu kynslóðinni í kringum 1980 og fram eftir 9. áratugnum, ávaxtadrykkur unninn úr mysu.
Jógi var til með epla- og jarðarberjabragði og var mjólkurdrykkur, vinsæll á sama tíma og Sopi.
Topkvick er kakódrykkur sem fólk man líklega ekki eftir sé það yngra en 35 ára en drykkurinn var seldur á árunum 1971-1979 í íslenskum verslunum.