Bylting? eftir Björn Jón Bragason er strax farin að valda titringi. Hér er kaflinn úr bókinni sem Jón Baldvin Hannibalsson segir að sé ósannur:
Vestur í Washington komu Íslendingar einnig að lokuðum dyrum, en Bandaríkjamenn höfðu gert gjaldmiðlaskiptasamninga við seðlabanka allra Norðurlandanna, að Íslandi undanskildu. Raunar höfðu slíkir samningar verið gerðir við flest ríki Evrópu. Í þessu sambandi er athyglisvert að Sviss og Svíþjóð voru í þeim hópi, en þau ríki eru ekki bandalagsríki Bandaríkjanna, líkt og Ísland. Árni M. Mathiesen furðar sig á þessu fálæti vestan hafs: „Ég hef oft velt því fyrir mér hvað hafi valdið þessari afstöðubreytingu hjá þeim, við höfðum alla tíð frá stríðslokum staðið þétt saman, Íslendingar og Bandaríkjamenn, en nú var eins og allt í einu og án sýnilegrar skýringar hefðu þeir snúið blaðinu við, eða öllu heldur snúið við okkur baki.“
Sú skýring hefur gjarnan verið nefnd að Bandaríkjamenn hafi ekki lengur talið sig hafa hagsmuni að verja á Norður-Atlantshafi, enda hafði varnarliðið verið kvatt heim tveimur árum fyrr. Svo virðist sem Bandaríkjamenn hafi ekki lengur talið Ísland vera innan áhrifasvæðis Monroe-kenningarinnar þegar hér var komið sögu. Íslendingar höfðu lengi þótt „ódiplómatískir“ í samskiptum við Bandaríkjamenn. Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1973–1977, nefndi framferði Íslendinga „harðstjórn dvergsins“ eða „Tyranny of the Tiny“. Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, telur Íslendinga hafa klúðrað samskiptum við Bandaríkin, sér í lagi með því sem hann kallar „fráleitar kröfur um lágmarksfjölda orustuþotna á Keflavíkurflugvelli“. Þrjóska Íslendinga hafi öðrum þræði orðið til þess að Bandaríkjamenn skelltu í lás. Hægt hefði verið að semja um þessi mál, að mati Guðna. Fleiri ráðherrar þessa tíma taka í sama streng í samtölum við höfund. Samstaða hafi verið um þessi mál innan ríkisstjórnarinnar en eftir á sjái menn að ekki hafi verið rétt að málum staðið gagnvart Bandaríkjamönnum.
Fleira hefur orðið til að veikja diplómatísk samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Höfundur hefur heimildir fyrir því að íslenska utanríkisráðuneytinu hafi ítrekað borist kvartanir vegna ósæmilegs háttalags fyrrverandi sendiherra Íslands í Washington, Jóns Baldvins Hannibalssonar. Steininn hafi tekið úr er hann fleygði starfsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins í sundlaug við sendiherrabústað Íslands í Washington. Raunar mun það hafa gerst oftar að hann hafi fleygt háttsettum gestum í laugina. Einn heimildarmanna höfundar sat kveðjumálsverð Jóns Baldvins í sendiherrabústaðnum í Washington er hann lét af embætti. Við hlið heimildarmannsins sat þarlend kona, virtur ritstjóri tímarits og mikill Íslandsvinur. Hún lofaði Ísland í hástert í eyru sessunautar síns. Kveðjuræða Jóns Baldvins í þessu hófi mun hafa verið samfelldur óhróður um Bandaríkin og svo fór að konan stóð upp og mælti: „Ég sit ekki undir þessu,“ og gekk á dyr.