„Tilfinningin að vera kominn heim er æðisleg. Þetta var í sjálfu sér skyndiákvörðun, en þær eru yfirleitt þær bestu. Maður er jú ekki tré og tiltölulega auðvelt að flytja mann á milli landa,“ segir Böðvar Þór Eggertsson, eða Böddi á Solid eins og hann var jafnan kallaður. Böddi er fluttur heim frá Svíþjóð eftir sex ára búsetu þar.
Böddi segir að fjölskyldan hafi togað hann heim. Sara elsta dóttir hans hefur verið búsett á Íslandi allan tímann og þau söknuðu hennar. Svo eru yngri dæturnar, Birta og Tanja sem eru 11 og 10 ára, orðnar mjög sænskar og því ekki úr vegi að flytja heim.
„Íslendingurinn í manni er sterkur og einhvern veginn tími til að koma heim. Sex ár er flottur tími í öðru landi og komum við heim reynslunni ríkari. Það var samt æði að búa í Svíþjóð. Við vorum fyrstu fjögur og hálfa árið í Malmö og eitt og hálft ár í Höllviken, sem er mjög fallegur strandbær suður af Malmö. Að sjálfsögðu á ég eftir að sakna vina minna sem ég eignaðist þarna, samstarfsmannanna og kúnnanna,“ segir Böddi.
Böddi hefur unnið við hárgreiðslu allan tímann í Svíþjóð og kemur tvíefldur til baka á Solid hár þar sem hann starfaði áður en hann hélt utan.
„Ég held ótrauður áfram og kem með nýjar árherslur og jákvæðni að vopni. Mér var reyndar boðið að koma á aðrar stofur en ég vildi koma aftur til gömlu samstarfsfélaga minna og vina til margra ára. Samstarfsfólk mitt á Solid hefur unnið með mér allan minn feril,“ segir hann og hlær.
Böddi á mörg áhugamál fyrir utan vinnuna sína og segir hann það alveg koma til greina að gera eitthvað annað með.
„Ég var mikið á jeppum á fjöllum fyrir nokkrum árum og fannst það mjög skemmtilegt. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér í meiraprófið og fari að vinna við að keyra túrista í bland við hárgreiðslustörfin,“ segir hann.
Hann hefur ekki bara unun af því að ferðast um fjöll og firnindi heldur hefur hann býsna gaman af líkamsrækt. Nú er hann til dæmis að æfa fyrir fitness-keppni og ganga æfingar vel.
„Ég hef gaman af því að reyna á sjálfan mig og finna hvað ég get og hvert ég kemst með sjálfan mig. Ég er vanur að setja alltaf 100% fókus á allt sem ég tek mér fyrir hendur nú til dags. Nú er stefnan að taka þátt í fitness-keppni í haust, það er að segja ef ég verð tilbúinn,“ segir hann og hlær og bætir við:
„Planið er að við keppum saman, ég og Sara dóttir mín. Við erum að æfa saman fyrir keppnina og það er gaman. Þetta er okkar sameiginlega áhugamál en við erum bæði mikið áhugafólk um að rækta líkamann. Ég æfi fimm til sex sinnum í viku og reyni að vera ekki lengur en einn og hálfan tíma í senn. Reglulegur svefn og hvíld skiptir jafnmiklu máli og æfingin sjálf auk þess sem mataræði vegur þyngst af öllu í þessu,“ segir Böddi.
Böddi segir að líkamsræktin geri kraftaverk fyrir hann.
„Þetta heldur manni ungum lengur en ég er að verða 48 ára og er í mínu besta formi,“ segir hann.
Þegar ég spyr hann um sumarið segir hann að það leggist ákaflega vel í hann. Hann sé að hluta til að hefja nýtt líf með breyttum áherslum. „Núna ætla ég að gefa mér meiri tíma með börnunum mínum og elska sjálfan mig í botn,“ segir hann og hlær.