Kolfinna Von Arnardóttir, eiginkona Björns Inga Hrafnssonar, segir að Aron Einar Gunnarsson og Kristbjörg Jónasdóttir hafi fengið upplýsingar um hvert peningar þeirra fóru og það valdi henni miklum særindum að málið hafi ratað í nýútkomna bók Arons Einars, Aron - Sagan mín, sem gefin er út af Fullu tungli, útgáfu Björns Braga Arnarssonar.
Smartland greindi frá því í morgun að vinslit hafi orðið milli Arons Einars og Kristbjargar annars vegar og Björns Inga Hrafnssonar og Kolfinnu Vonar hins vegar vegna gjaldþrots JÖR sem þau fyrrnefndu lögðu peninga í.
„Lífið er mikill skóli. Sumt tekst vel og annað illa og það er okkar að vinna út úr því í framhaldinu með sem bestum og sanngjörnustum hætti. Ég les að Aron Einar Gunnarsson segi í nýrri bók að fjárfesting hans í félagi sem ég stýri hafi leitt til vinslita. Það finnst mér mjög miður að sjá og eins hvernig hann kýs að segja frá málinu. Staðreyndin er sú að Aron Einar fjárfesti fyrir fimmtán milljónir í einkahlutafélagi sem við vorum að byggja upp. Tíu milljónir af því fóru til JÖR og fimm milljónir vegna kaupa á tískuhátíðinni RFF. Því miður gekk rekstur JÖR ekki upp og félagið fór í þrot og þar með töpuðum við miklum fjármunum. Bæði félagið okkar og við persónulega sem höfðum lagt fjármuni í það,“ segir Kolfinna Von á Facebook-síðu sinni.
Kolfinna Von segir að hún og Björn Ingi hafi reynt að koma til móts við þau.
„Mér varð snemma ljóst að sú staðreynd færi mjög illa í vinahjón mín Aron Einar og Kristbjörgu eiginkonu hans og hef reynt allt til að koma til móts við þau vegna þessa.
Það er gömul saga og ný að deilur um peninga geta farið illa með vináttusambönd og þetta er því miður dæmi um það. Það er ekki rétt að aldrei hafi fengist svör um það í hvað peningarnir fóru. Þeir fóru í þessi tvö verkefni og lögmaður þeirra hjóna fékk að sjá skrifleg gögn um það. Hins vegar hefur komið mér illilega á óvart sú harka sem kom upp í málinu og það særir mig mjög. Ég er ung kona og það er erfitt að verjast í slíku máli þar sem eru miklar tilfinningar,“ segir hún jafnframt.
Kolfinna Von segir að hún sé miður sín yfir því að hafa misst bestu vinkonu sína.
„Um er að ræða eina af mínu bestu vinkonum og eiginmann hennar og það er sárt að deilur um peninga valdi vinslitum. Það er eiginlega þyngra en tárum taki. En sumt í lífinu tekst vel til og annað ekki og maður verður að reyna að læra af þeim mistökum sem eru gerð,“ segir Kolfinna Von.