Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýsköpunarráðherra er gestur hlaðvarpsþáttarins Snæbjörn talar við fólk þessa vikuna. Í þættinum opnar hún hjarta sitt og rifjar upp nokkur atvik sem hafa haft áhrif á líf hennar. Þar á meðal þegar kærasti hennar til þriggja ára lét lífið í slysi í á Grundartanga eftir að þau hættu saman. Hún segir að hún hafi þurft að leita sér hjálpar til þess að komast í gegnum erfiðar tilfinningar eftir andlát hans.
„Fyrstu árin í háskólanum var ég mjög lítið að djamma. Áður en ég byrjaði í háskólanum kynntist ég strák sem hét Óskar Stefánsson. Hann var frá Akureyri en var búinn að búa í Danmörku í einhver sjö ár. Hann var átta árum eldri en ég og þar sem ég bjó á Akranesi var ég ekkert að fara í vísindaferðir því mig langaði bara frekar að vera með honum. Svo flytjum við í bæinn í nóvember 2008, í stúdentaíbúð í Grafarholti,“ segir Þórdís Kolbrún. Hún rifjar upp námið við Háskólann í Reykjavík og segir að það hafi verið gefandi en á þessum árum byrjaði hún í stjórn SUS.
„Ég var með Óskari sem ég nefndi áðan í þrjú ár. Svo hættum við saman, alveg í góðu en bjuggum saman eftir að við hættum saman og þetta var allt smá skrýtið. En vorum allan tímann vinir en þetta var samt mjög sárt. Í lok júní 2010, hann vann uppi á Grundartanga, varð hann fyrir sprengingu og dó,“ segir hún og bætir við:
„Við vorum hætt saman og ég var búin að kveðja hann því ég vissi að ég yrði ekki fullorðin með honum. Ég var þó vitaskuld ekki búin að kveðja hann þannig að hann mætti bara deyja. Ef maður telur upp atvik sem hafa haft meiriháttar áhrif á mann þá var það þetta.“
Hún segir að í kjölfar andláts Óskars hafi farið alls konar skrýtnar hugsanir í gegnum kollinn á sér. Hún hafi velt því fyrir sér að ef þau hefðu ekki hætt saman og farið saman í sumarfrí á þessum tíma þá hefði hann ekki dáið. Hún segir að hún hafi áttað sig á því að þessar hugsanir voru ekki góðar.
„Ef maður getur komið einhverju til fólks sem er í svipaðri stöðu þá er það að leita sér aðstoðar strax,“ segir Þórdís Kolbrún en hún fékk mikla hjálp frá áfallateyminu sem starfar á sjúkrahúsinu á Akranesi.