Birgitta missti heilsuna eftir fráfall bróður síns

Birgitta Haukdal var viðmælandi Snæbjörns Ragnarssonar.
Birgitta Haukdal var viðmælandi Snæbjörns Ragnarssonar. Ljósmynd/Facebook

Tónlistarkonan Birgitta Haukdal er gestur Snæbjörns Ragnarssonar þessa vikuna í þáttunum Snæbjörn talar við fólk. Birgitta var aðeins 14 ára þegar eldri bróðir hennar Sibbi svipti sig lífi, þá 18 ára gamall.

„Hann er 18 ára þegar hann tekur sitt líf. Það er bara rosalegur pakki og mjög erfitt fyrir 14 ára ungling sem veit ekki alveg hver hann er. Er ekki barn og ekki fullorðin. Þetta er mjög erfiður aldur að lenda í svona áfalli. Þar missti ég svolítið fótanna. Öllu var kippt undan fótunum á mér og það tók bara tíma að púsla því saman aftur. Þetta áfall hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Þetta hefur litað líf mitt rosalega mikið,“ segir Birgitta. 

Hún þurfti að fara í mikla vinnu eftir fráfall bróður síns. Skömmu eftir áfallið reyndi hún að bíta á jaxlinn og vera sterk fyrir fjölskyldu sína. Hún vildi ekki gráta mikið fyrir framan foreldra sína né systur, Sylvíu Haukdal, sem var sex ára þegar Sibbi lést. 

„Þetta tók heilsuna mína. Það var það sem ég áttaði mig ekki á þarna. Þegar þú bælir svona svakalega mikið niður tilfinningarnar þá fer líkaminn bara að klikka. Einhverjum einum til tveimur árum síðar fer heilsan mín. Þá heldur áfram þetta erfiða tímabil,“ segir Birgitta. 

Hún segir að taugakerfið hafi gefið sig og hún fengið endurtekna krampa. Hún fór í miklar rannsóknir en enginn læknir fann út úr því hvað var að henni. Þá datt engum í hug að heilsubresturinn væri afleiðing áfallsins. Nokkrum tíma síðar jafnaði hún sig en það var þegar hún var byrjuð að vinna í áfallinu. 

Snæbjörn og Birgitta eru bæði frá Húsavík og skilur aðeins eitt ár þau að. Það er því mikið sameiginlegt í fortíð þeirra og þekkti Snæbjörn Sibba bróður hennar. Þau ræða líka um að það sé erfitt fyrir lítinn bæ þegar ungt fólk sviptir sig lífi og að fólkið í bænum hafi kannski ekki fengið þá hjálp sem það þurfti.

Snæbjörn og Birgitta ræða líka um sameiginlega vinkonu sína, Þórdísi Dögg Gunnarsdóttur, sem svipti sig lífi árið 2013. Hún var bekkjarsystir Birgittu í grunnskóla og héldu þær vinkonurnar sambandinu í gegnum árin.

Á þessum tímapunkti í viðtalinu snerust hlutirnir við þegar þau ræða um Önnu Maríu, fyrrverandi kærustu Snæbjörns á þeim tíma, sem framdi sjálfsmorð á gamlársdag 1999. 

Í viðtalinu ræða þau um ýmislegt fleira, þar á meðal tíma Birgittu í Írafári, árin í Barcelona og af hverju hún fór að skrifa barnabækur. 

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda