Þegar Rúrik Gíslason fékk sig lausan frá þýska liðinu Sandhausen í fyrra lagði hann skóna þar með á hilluna. Í viðtali við Loga Bergmann Eiðsson, í næsta þætti af Með Loga, fer hann yfir þennan viðskilnað við liðið sem var harkalegur en á endanum hárrétt ákvörðun.
„Ég fann þessa frelsistilfinningu um leið og ég var laus undan samningi,“ segir Rúrik.
Frelsið hefur hann nýtt vel eins og farið er yfir í þættinum en næstu skref verða á dansgólfinu þar sem hann mun keppa í þýska dansþættinum Let's Dance. Þeir þættir eru byggðir á bresku þáttunum Dancing with the Stars, sem haldnir eru um heim allan.
Eins og allir vita öðlaðist Rúrik heimsfrægð fyrir tæpum þremur árum þegar Ísland lék á HM í Rússlandi en frá árinu 2005 hefur hann verið atvinnumaður í knattspyrnu, fyrst með Charlton á Englandi, Viborg, OB og FC Kaupmannahöfn í Danmörku og loks Nürnberg og Sandhausen í Þýskalandi. Þá hefur hann leikið 53 landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk.
Þátturinn Með Loga er framleiddur af Skot Productions og kemur í Sjónvarp Símans Premium á fimmtudaginn.