Fannst erfitt að díla við kjaftasögurnar vegna óléttunnar

Salka Sól Eyfeld er gestur Snæbjörns Ragnarsson í hlaðvarpsþætti hans, …
Salka Sól Eyfeld er gestur Snæbjörns Ragnarsson í hlaðvarpsþætti hans, Snæbjörn talar við fólk. mbl.is/Styrmir Kári

Sölku Sól Eyfeld þarf ekki að kynna – enda hefur hún ekki þurft að segja til nafns á Íslandi í mörg ár. Hún er nýjasti getur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk. Einn af hennar helstu styrkleikum er að geta brugðið sér í hina ýmsu búninga; hún er Ronja ræningjadóttir heillar kynslóðar, rappari, prjónakona og forvarnafyrirlesari svo fátt eitt sé nefnt. Sjálf segir Salka rótleysi hafa haft áhrif á ákvarðanir sínar í lífinu, sem feli í sér bæði styrkleika og flækjur. Í dag er hún mjög þakklát fyrir það líf sem hún hefur byggt sér, þar sem henni finnst bæði æðislegt að láta klappa fyrir sér og fá að taka þátt í nýjum verkefnum með reglulegu millibili. Þá skemmir ekki fyrir að hún er góð í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Þessa dagana er Salka að vinna í sinni fyrstu sólóplötu og finnst enn mikilvægt að storka kerfinu með að gera ekki alltaf það sem til er ætlast.

Salka byrjaði að vinna á skjánum á sjónvarpsstöðinni Bravó árið 2014. Hún var ráðin í kjölfar þess að hafa landað vinnu við að lesa inn á auglýsingar fyrir Subway. Fljótlega eftir það gaf hún út Hossa Hossa með AmabAdama og kom sér í sumarstörf hjá RÚV. Sjálf átti hún ekki sjónvarp á þessum tíma.

Salka er mjög ánægð með hver hún er í dag, að hluta til vegna eineltisins.

„Svo er fyndið að ég er ég í dag – og ég er mjög ánægð með að vera ég og mjög ánægð með hvað ég er – en margt af því hvernig ég er er náttúrlega afleiðing af eineltinu. Þannig að það er skrítið að vera kannski svona að vissu leyti þakklátur fyrir eitthvað sem var samt erfitt. En að nýta sér það til góðs og gera eitthvað gott úr því.“

Eftir leiklistarnám í Bretlandi fékk Salka umboðsmann þar í landi, en þá lá leiðin frekar aftur heim til Íslands að vinna á kaffihúsi. Þá tók við sú vinna að finna hvað hana langaði til að „verða“. Eitt kvöldið sá hún forvera Reykjavíkurdætra á rappkvöldi í miðbænum, sló upp vinskap við Þuríði Blæ og hóf að semja rapp með henni.

Salka Sól og Snæbjörn ræða um það hvernig er að vera þekkt manneskja og vera stoppuð úti á götu af ókunnugu fólki. 

„Mér finnst mjög gaman að tala við fólk, og mér finnst mjög gaman að tala við nýja einstaklinga. Það er aðallega ef fólk fer eitthvað að segja manni einhverjar mjög óumbeðnar sögur og eru of lengi, skilurðu, að tala. Þá verður maður svona eitthvað – eh... [...] En auðvitað fer þetta eftir aðstæðum og ég hef aldrei látið þetta fara í taugarnar á mér. Svo finnst mér líka fyndið að ég tek minna eftir þessu. [...] Ég lendi líka mjög oft í því að fólk heilsar mér, af því það heldur að það þekki mig, og þá er ég bara „já, hæhæ“. Auðvitað segir maður bara hæ! [...] Ég finn alveg augu á mér, en það truflar mig ekki neitt.“

Sem þekkt manneskja hefur Salka þurft að eiga við kjaftasögur. Einna flóknast þótti henni þegar hún átti erfitt með að verða ófrísk að gróusögur gengu á sama tíma um að hún væri þegar ólétt. Almennt heyrir hún samt ekki sögurnar um sjálfa sig og er alveg sátt við það.

Nú er Salka loksins að fara að gefa sér tíma til að gefa út efni eftir sjálfa sig og er von á sólóplötu eftir hana vonandi á næstu mánuðum. Salka vill ekki gefa upp hvernig tónlist er von á, við þurfum bara að bíða og sjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda