Ætlaði að vera „Ljóskan í eldhúsinu“ en hætti við

Berglind Guðmundsdóttir er konan á bak við hina geysivinsælu uppskriftasíðu Gulur, rauður, grænn og salt. Hún er gestur hlaðvarpsins, Snæbjörn talar við fólk. Áður en hún lagði matreiðslu fyrir sig lærði Berglind sálfræði og hjúkrunarfræði, vann lengi á BUGL og í dag vinnur hún einnig við að bólusetja landsmenn gegn COVID-19. Berglind var ekki alltaf frábær kokkur, en ástríða og drifkrafturinn hafa gert henni kleift að gera Gulur, rauður, grænn og salt að sinni aðalatvinnu. Þrátt fyrir það er hún ekki matarsnobbari og er alltaf til í nýjar áskoranir. Árið 2019 komst Berglind svo í blöðin fyrir að hafa gifst sjálfri sér – ákvörðun sem varð kveikjan að þáttum hennar „Aldrei ein“ sem sýndir eru í Sjónvarpi Símanns um þessar mundir.

Berglind komst að því fertug að hún væri með ADHD. Hún hefur þurft að eiga við athyglisbrestinn alla ævi, átti til að mynda erfitt með að læra stærðfræði þegar hún var í 10. bekk og fékk einu sinni 2 í einkunn í stærðfræði. Til að koma sér út úr því réði hún sér einkakennara, stóðs prófin og komst inn í Verzlunarskóla Íslands í kjölfarið.

Frá upphafi ætlaði Berglind að gefa uppskriftasíðunni allavega 2 ár. Fram að því væri ekki fullreynt hvort hugmyndin næði flugi og því var ekki í boði í hennar hug að gefast upp. Ef einhver dagur var óvenju slæmur leyfði hún sér að „gefast upp í dag“, láta áhyggjurnar frá sér og halda svo áfram á morgun. Oft þegar þangað var komið gerðist eitthvað stórt fljótt eftir, og þá var svo mikilvægt að hafa ekki gefist upp. Árið 2015 var Berglind hætt á BUGL og farin að vinna sjálfstætt við uppskriftasíðuna sína.

„Það er eitthvað innra með manni, það er sterkara en kollurinn sem er eitthvað „æ, hættu þessu bara, höfum það bara næs, horfum á Netflix, leyfum heimilinu bara að vera í rúst án þess að stressa okkur á því.“ [...] En þá er bara eitthvað innra með þér sem er bara „nei, þú verður að gera þetta“ út af einhverju. Þú getur ekkert útskýrt það af hverju, en þú bara [...] verður að halda áfram og færð í rauninni ekkert að hætta. Maður má alveg svona daðra við það. Ég hugsa oft svona, ég gefst upp í einn dag. Ég gefst upp! Það er mjög gott. Svona þegar maður [...] upplifir mikið mótlæti í einhvern tíma og svo bara getur maður ekki meira. Þá bara, þá segi ég þetta bara. „Ég gefst upp í dag.“ Svo bara kemur nýr dagur.“

Flestar myndir sem Berglind sýnir á síðunni sinni eru teknar af matnum stuttu áður en hún leyfir fjölskyldunni að byrja að borða. Flest sem við sjáum á Gulur, rauður, grænn og salt er raunverulegur fjölskyldumatur Berglindar, sem hún hefur útbúið fyrir fjölskylduna sín, ekki uppstilltur diskur í tómu húsi.

 „Stundum geri ég bara mat sem er ekkert sérstaklega góður, og þá fer hann bara ekkert inn á síðuna. [...] Þú þarft einhvern veginn að vera bara stemmdur, skilurðu. Nema þú sért bara með þeim mun einfaldari rétti. Ég held svona að þegar ég er vel stemmd þá geri ég bara geggjaðan mat. Hann bara skilar sér einhvern veginn. Ég veit ekki hvað það er. Þú bara leggur meiri natni og ástríðu í eitthvað heldur en ef þú ert þreyttur og... þetta er orka, þetta er bara góð orka.“

Upprunalega byrjaði Berglind með uppskriftasíðu titlaða „Ljóskan í eldhúsinu“ sem henni fannst mjög kómískur titill. Vinkonur hennar voru þó fljótar að skjóta þann titil niður og Berglind flutti sig um set eftir um þrjár uppskriftir.

Berglind fór á námskeið hjá Vilborgu Örnu Gissurardóttur pólfara. Þá deildi hún með Vilborgu einhverri óljósri framtíðarsýn þar sem hún sá sig að halda fyrirlestur í útlöndum, ótrúlega fræga. Vilborg hvatti hana til að elta sýnina, sem rak Berglindi af stað í að hefja að kenna námskeið fyrir konur sem vilja hrinda af stað nýrri hugmynd. Hún er enn að leita að því um hvað hún verður að tala þegar hún verður fræg í útlöndum – en það mun koma til hennar einn daginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda