„Gerum ekkert sem okkur langar ekki að gera“

Edda býr segir efnið sem hún býr til ólíkt kynlífi …
Edda býr segir efnið sem hún býr til ólíkt kynlífi með maka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Edda Lovísa Björgvinsdóttir starfar við það að búa til klámefni á samfélagsmiðlinum OnlyFans. Hún segir vinnuna ekki auðvelda eins og margir haldi og að mikil vinna fari í að búa til myndbönd. 

Edda býr meðal annars til efni með vinum sínum þeim Ingólf­i Vali­ Þrast­ar­syni og Ósk Tryggva­dótt­ur en þau opnuðu sig um starf sitt í hlaðvarpsþættinum Eigin konur í apríl. „Á OnlyFans geri ég alls konar. Ég fer í myndatökur hjá atvinnuljósmyndara, tek myndir heima, svo tökum við upp myndbönd öll saman. Ég vinn mikið með Ósk og Ingó. Við erum mjög náin og erum öll í sama vinahópi. Við erum öll bara mjög góðir vinir og vinnum mikið saman,“ segir Edda um starf sitt en hún vinnur einnig í verslun sem selur snyrtivörur. 

Vinna þrjú saman

„Við búum til það sem er kallað klámmyndbönd, erótísk myndbönd. Þannig vinnum við saman,“ segir Edda þegar hún er beðin að útskýra samstarf þeirra betur. „Við erum öll með okkar aðgang. Ef við erum að vinna þrjú saman þá búum við til eitt myndband fyrir hvern aðgang.“

Þau eru öll með sinn eigin aðgang og áskrifendur sem borga fyrir stök myndbönd og þannig geta þau þénað háar upphæðir. „Stundum erum við þrjú saman í mynd en stundum er einn að taka upp fyrir tvo til þess að hjálpa. Það er þægilegast þegar við erum þrjú af því þá höfum við einn til þess að filma líka. Við þurfum að koma með þrjár hugmyndir að þremur mismunandi myndböndum. Þetta er alveg mikil vinna að búa þetta til.“

Það getur verið skrítið að vinna klámefni með bestu vinum sínum segir Edda þegar hún er spurð út í samskipti þeirra. „Það hjálpar að við erum öll opin og mörg okkar eru með maka og vinnum samt saman. Þegar við hittumst utan vinnunnar tölum við lítið um vinnuna. Við tölum um eitthvað annað. Við höldum þessu mjög faglegu og pössum að allir séu góðir. Þetta kemur mjög eðlilega hjá okkur öllum. Það er náttúrlega stundum sem við leitum að hugmyndum annars staðar af því við erum búin að gera svo mikið. Það er erfitt að koma með nýjar og nýjar hugmyndir, svo allt sé ekki það sama. Þá kannski förum við á einhverjar aðrar síður til þess að fá innblástur,“ segir Edda. 

Klámmyndböndin ekki eins og kynlíf með maka

Oft er talað um að klám gefi ekki raunsanna mynd af eðlilegu kynlífi. Edda segir að kynlífið sem hún stundar í einrúmi með sínum maka sé ekki eins og það sem hún tekur upp og selur. „Það fer meiri vinna í að búa til myndband en fólk heldur. Þetta er miklu meira en að grípa myndavélina á meðan við erum að. Við þurfum að athuga ljósin, passa hvort sjónarhornið sé rétt. Við þurfum oft að stoppa inn á milli og ræða um sjónarhornið,“ segir Edda.

Edda leggur áherslu á að erótískt efni sé ekki eins og venjulegt kynlíf með maka. „Kynlífið okkar er miklu meira „basic“ en erótíska efnið mitt. Það er mikið af LTD-ljósum þannig að það er mjög litríkt. Ég er ekki með alla liti á heima hjá mér þegar ég er með maka. Þegar ég útbý efnið mitt er ég kannski í búningum og með hárkollur. Ég nenni ekki að gera það þegar ég er heima.“

Edda Lovísa Björgvinsdóttir býr til erótískt og örvandi myndefni.
Edda Lovísa Björgvinsdóttir býr til erótískt og örvandi myndefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir nei

Edda hefur fengið beiðnir um að búa til efni sem hún er ekki til í að gera. Ef henni og vinum hennar hugnast ekki að framkvæma óskirnar þá verða þau ekki við því. „Ef það er eitthvað sem okkur langar ekki að búa til þá segjum við bara nei sorrí ég geri þetta ekki. Við gerum ekkert sem okkur langar ekki að gera,“ segir Edda sem hefur verið beðin að gera grófara efni en hún er til í og þá segir hún einfaldlega nei.

Er þá til eitthvað miklu grófara en þú býrð til? „Já, 100 prósent. Ég bý til það sem ég fíla. Ég geri ekki eitthvað sem ég fíla ekki nú þegar,“ segir Edda. „Það er aldrei nein pressa á að gera eitthvað sem mann langar ekki að gera. Við stjórnum þessu alveg sjálf, það er enginn að segja okkur að við þurfum að gera eitthvað sem okkur langar ekki til.“

Unga kynslóðin opnari

Edda er nýorðin tvítug og er af þeirri kynslóð sem ólst upp á samfélagsmiðlum með snjallsíma í vasanum. Hún segist hafa fundið fyrir því að fólk á hennar aldri sé töluvert opnara en þeir sem eru aðeins eldri. Þegar umræðan um OnlyFans stóð sem hæst í apríl fann Edda fyrir stuðningi frá jafnöldrum sínum. 

„Allir á mínum aldri svöruðu og sögðust styðja þetta 100 prósent og fannst þetta flott. Þeir sem eldri eru voru meira í því að smána og settu út á þetta. Yngra fólki fannst þetta bara kúl. Klám og erótískt efni hefur verið til lengi, það verður alltaf til. Okkur langaði að sýna heilbrigðari leið til að horfa á og búa til það sem sumir kalla klám en við köllum erótískt og örvandi efni.“

Búin að græða nokkrar milljónir

„Ég vinn tæknilega séð á hverjum degi af því ég þarf alltaf að fara inn á síðuna, svara skilaboðum og birta myndir. Maður þarf að vera duglegur að birta myndir til að halda í áskrifendur. Þeir vilja að þú sért alltaf inni á síðunni. Ég tek myndir kannski tvisvar í viku og myndbönd kannski tvisvar í mánuði. Þá fer kannski eitt kvöld í að búa til myndbönd fyrir alla og svo þurfum við ekkert að vinna meira í því. En ég þarf að vera til staðar á Instagram og Twitter, ég þarf að vera á öllum samfélagsmiðlum, alltaf. Það tekur mikinn tíma. En ég fæ að sofa út á hverjum degi og þarf ekki að vakna snemma, það er mjög næs.“

Edda segist þéna ágætlega í gegnum OnlyFans. „Ég er búin að græða nokkrar milljónir síðan ég byrjaði. Ég þarf ekki að vinna annars staðar með þessu. Ég á fyrir bílnum mínum, ég get keypt mér föt og alls konar. Við fáum mjög góð laun myndi ég segja.“

Það gilda þó skattalög um vinnuna þó svo hún fari fram í gegnum erlenda síðu. „Ég borga 100 þúsund á mánuði í skatt það sem eftir er af árinu. Það fer stór upphæð til skatts en ég er með bókara. Það er svolítið leiðinlegt hvað við þurfum að borga háan skatt.“

Kom það aftan að þér?

„Já smá, ég áttaði mig ekki á því fyrst. Ég var bara: vá hvað þetta er gaman. Ég var ein af þeim fyrstu til að byrja. Það var enginn búinn að segja okkur neitt um skatta af því þetta var svo nýtt og þetta er ensk síða. Ég pældi ekki í því fyrr en það var orðið of seint.“

Edda passar að eiga fyrir skattinum núna. „Ég tek út peninga frá síðunni þegar ég vil. Alltaf þegar ég tek út set ég 50 prósent af því til hliðar á læstan bankareikning fyrir skattinn á næsta ári.“

Það fer mikil vinna í að sinna kúnnum í gegnum …
Það fer mikil vinna í að sinna kúnnum í gegnum samfélagsmiðla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki sjálfgefið að fjölskyldan sé sátt

Þrátt fyrir að Eddu líði vel í því sem hún fæst við í dag hvetur hún ungar stúlkur sem eru að hugsa um að feta sömu braut til að hugsa sig vel um. Hún mælir til dæmis alls ekki með þessu fyrir fólk undir lögaldri og segir starfið fara misvel í fjölskyldur og vini. 

„Hafið í huga að það eru fjölskyldumeðlimir sem taka þessu ekki alltaf vel. Það finnst ekki öllum foreldrum kúl að fylgjast með dóttur sinni gera þetta. Það er alltaf möguleiki að dótið þitt leki. Þú verður að vera nógu sterk til að höndla að það gerist. Þetta er ekki auðveldur peningur eins og sumir segja. Ertu tilbúin að taka þetta samtal við fjölskylduna þína ef það kemur að því?“ segist Edda segja við ungar stúlkur sem eru að hugsa um að fara út í klám.

Sjálf ætlaði hún í fyrstu að reyna að fela iðju sína fyrir fjölskyldunni. „Mér tókst það ekki. Efn­inu mínu var lekið fyrstu vik­una mína. Ég náði ekki að fela þetta og þau komust að því. Þá sett­ist ég niður með for­eldr­um mín­um. Ég sagði þeim hvað ég væri að gera og við áttum langt spjall þar sem ég útskýrði það fyrir þeim án þess að fara út í smáatriði,“ seg­ir Edda um það hvernig hún sagði fjöl­skyldu sinni frá. „Þeim var auðvitað brugðið í fyrstu en sögðu að svo fremi sem ég meiddi hvorki mig né aðra væru þau til staðar fyrir mig.“

Edda kemur úr frægri fjölskyldu. Hún segist hafa beðið með það í nokkra mánuði að setja inn efni vegna þess að hún er ekki úr hvaða fjölskyldu sem er. Hvað ef þetta kæmi niður á starfsferli fjölskyldu hennar?

„Það var ein ástæða fyrir því að ég byrjaði ekki strax. Mér liði mjög illa ef þetta skaðaði þau. Enn sem komið er hefur þetta gengið vel og þetta hefur ekki skaðað þau. Ég talaði við pabba minn um þetta,“ segir Edda sem lofaði föður sínum að passa sig eins mikið og hún gæti. 

Blaðamaður spyr hvort hún hafi ekki hugsað um að fara í hefðbundna leiklist í stað þess að setja sig í stellingar í klámi. „Ég hugsaði mikið um það þegar ég var yngri. Ég hef prófað að fara á svið og það er erfitt fyrir kvíðann að fara upp á svið og vera fyrir framan marga aðra. Ég er svolítið lík mömmu minni með það en systir mín fer líklega í leiklist,“ segir Edda sem er öruggari þegar hún getur breytt og bætt eftir á. 

Edda hefur mikinn áhuga á förðun.
Edda hefur mikinn áhuga á förðun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Förðunarheimurinn heillar

Ungir menn þekkja stundum Eddu á götu eða þegar hún er í vinnunni að selja snyrtivörur. „Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum í vinnunni að það hafa strákar komið upp að mér sem eru að fylgjast með mér á OnlyFans. Þetta er svolítið skrítið. Sumir senda mér skilaboð og segjast hafa séð mig,“ segir Edda sem finnst það betra en þegar komið er upp að henni í öðru starfi. 

Edda tekur nokkrar vaktir í viku í versluninni og sér fram á starfsferil í förðun í framtíðinni. „Ég var að sminka á sjónvarpssetti í fyrra, þegar covid var ekki byrjað. Ég var að farða leikarana. Mér finnst það ógeðslega gaman, ég ætlaði að fara í nám til London í sminki en svo bara kom covid og þá var ekki hægt að ferðast,“ segir Edda sem er eins og er ánægð með starfið sem hún er í núna. „Ég pæli meira í núinu en í framtíðinni. Þetta virkar ógeðslega vel núna. Þegar ég verð orðin eldri verð ég að meta stöðuna, hvort ég endist lengi í þessu. Það eru margir að skrá sig og mikil samkeppni,“ segir Edda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda