Hallgrímur Ólafsson er að eigin sögn frábær í að veiða í soðið og selja alls konar dót. Hann er einnig fínasti tónlistarmaður en það tók hann þó nokkurn tíma að treysta á færni sína á leiksviðinu, þótt það síðarnefnda sé atvinnan hans. Hann er Skagamaður í húð og hár, alinn upp á Bubba og finnst best að vinna í hóp, þar sem hann fær ekki margar hugmyndir sjálfur.
Einnig finnst honum mikilvægt að gera hlutina af sannfæringu og taka þá alla leið, en ekki vinna í hálfkáki. Til að mynda hefur hann enga þolinmæði fyrir hollustuútgáfum á mat sem á að vera óhollur! Í dag nýtur hann þess að geta vandað aðeins betur valið um verkefnin sem hann tekur að sér – þótt hann finni gleðina á sviðinu í hverju hlutverki. Hallgrímur var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í Snæbjörn talar við fólk.
Fyrir um þremur árum var Hallgrímur greindur með athyglisbrest og fékk lyf sem hafa haft áhrif á hans veruleika. Hann finnur að hann er aðeins rólegri hvað varðar óþolinmæði og skipulagni, og hausinn er minna á fleygiferð þegar hann leggur höfuð á kodda á kvöldin.
Halli sendi ekki inn umsókn í Listaháskólann fyrr en hann var orðinn 26 ára. Þangað til vann hann sem sölumaður sem hann segir hafa átt vel við sig, en alltaf blundaði í honum löngun til að vinna á vinnustað þar sem hans hæfileikar fengju virkilega að njóta sín.
Án þess að geta útskýrt það að eigin sögn kann Halli að spila tónlist. Fyrir leiklistarferilinn var hann farinn að halda tónleika fyrir peninga á unglingsárum um landið allt. Halla gekk ekki vel í skóla en það að vera á sviði hentaði honum vel. Hann gaf út plötu þegar hann var tvítugur með frumsömdum lögum og ætlaði sér þá að vera tónlistarmaður. Platan er þó ekki góð að sögn Hallgríms, þar sem hann var alltaf að reyna að gera eitthvað sem hann var ekki tilbúinn til enn þá.
Fyrsta barnið sitt eignast Hallgrímur tuttugu og tveggja ára, fjórum áður áður en hann fór í nám. Dóttirin var mjög veik fyrsta árið og segist Halli hafa fullorðnast mjög hratt fyrsta árið eftir að hún kom í heiminn.
Þegar Hallgrímur útskrifaðist úr LHÍ var hann þrítugur fjölskyldufaðir á leiðinni að hefja feril sinn sem leikari. Hann var því í aðeins annarri stöðu en margir sem hefja leikaranám, enda hafði hann verið í vel launaðri vinnu áður en hann hóf námið.
Hallgrímur talar um að sér hafi ekki alltaf þótt gaman að leika allar sýningar, til dæmis var hlutverk hans sem „garðálfur“ í Mary Poppins ekki í uppáhaldi.
Að eigin sögn hefur starfsferill Hallgríms ekki verið mjög strembinn þótt hann segist ekki vera góður í að koma með hugmyndir.
„Mér finnst ég sjálfur ekki hafa þurft að hafa – eftir að maður fór út í þennan bransa – ekki þurft að hafa mikið fyrir þessu. [...] þetta hefur rosa mikið komið til mín. Einhvern veginn. Og kannski er það ókostur, ég veit það ekki. Af því ég er ekki mjög [...] sjálfstætt skapandi. Skilurðu? Ég fæ ekkert margar hugmyndir sjálfur. Ég er ekki svona frjói listamaðurinn sem er alltaf með einhverjar svona pælingar, heldur fæ ég yfirleitt hugmyndir til mín sem ég svo bæti ofan á mínar [...] Ég er rosalega lélegur að fá hugmyndir. Ég er að fatta þetta núna.“
Hallgrímur myndi lýsa sjálfum sér sem gamanleikara, eða sprellara, þótt honum þyki skemmtilegt að leika alvarlegar rullur. En þó finnst honum mikilvægt að það búi ávallt einhver alvara undir gríninu.
„Það er lykillinn minn. [...] Það verður að vera hjarta, sko. Mér finnst það bara – ég get ekki hitt, sko! Ég get ekki [leikið] ýktan trúðsleik [...] Nei, það verður að vera hjarta í því, sko. Það er grunnurinn að þessu öllu saman, finnst mér. Það sem ég heillast alla vega af, ef maður horfir á eitthvað, er að maður verður að finna til með manneskjunni. Annars virkar þetta ekki.“
Í Covid var sem betur fer nóg að gera hjá Halla. Eftir sumarfríið í ár fer leikhúsið á fullt og Halli verður í bæði Rómeó og Júlíu og Kardemommubænum sem hefur þurft að setja á pásu vegna heimsfaraldursins. Einnig er hann byrjaður að mæta aftur í starfsmannapartý og fleira.
Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.