Bruggmeistarinn Þorsteinn Snævar Benediktsson á Húsavík Öl er hættur að selja bjór suður yfir heiðar. Lengi fékkst bjór frá brugghúsinu í borginni en nú annar hann vart eftirspurn norður á Húsavík og þurfti því að hætta að selja bjórinn suður. Hann stefnir að því að auka framleiðsluna á næstu mánuðum og stækka við sig í húsnæði.
Þorsteinn var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk.
Þorsteinn er mikill kappsmaður og vill ávallt skila af sér topp vinnu, til dæmis hafi komið fyrir að hella hafi þurft niður tanki af bjór því hann var hreinlega ekki nógu góður. Fái hann hugmynd að nýjum bjór festi hann vart svefn fyrr en búið sé að brugga hann og ef honum detti í hug að hægt sé að gera bjór betri hiki hann ekki við að breyta uppskriftinni! Húsavík Öl er í miklum vexti þessa dagana og í viðtalinu leiðir Þorsteinn okkur í gegnum söguna af því hvernig fyrirtækið varð til, hugmyndafræðina bak við bjórinn og líf hans sem bruggari.
Þegar Þorsteinn var að byrja að brugga bjór ákvað hann að fara „öruggu“ leiðina og brugga bara það sem hann hélt að fólk vildi. Seinna ákvað hann að brugga bara það sem hann langaði sjálfan að drekka. Eftir þá ákvörðun rokseldist bjórinn og ætlar Þorsteinn að halda áfram að brugga fyrir sjálfan sig en ekki aðra.
Hugmyndin að því að stofna eigið brugghús fæddist út frá því að Þorsteinn ferðaðist á menntaskólaárum sínum og heimsótti lönd þar sem mikil menning er í kringum áfengisdrykkju – þá á annan hátt en á Íslandi; heilar borgir byggðar í kringum brugghús og bjór hafður um hönd í hversdagslegum aðstæðum, án nokkurs ofstækis.
Eftir menntaskóla fór hann til Austurríkis að læra að brugga bjór, en þessa ákvörðun tók hann áður en hann varð tvítugur og var því of ungur til að kaupa sér áfengi sjálfur á Íslandi. Þorsteinn flosnaði upp úr fyrsta skólanum sem hann prófaði þar sem námið var meira alhliða drykkjargerðarnám – bæði gosdrykkja og áfengis, sem hann hafði minni áhuga á. Síðan fór hann í fjarnám við skóla í Bretlandi og lauk staðnámi til diplómu.
Eitt sinn var Þorsteinn inntur eftir því hvort hann ætlaði ekki að vera með jólabjór það árið. Hann hafði ekki ætlað sér að vera með jólabjór, en ákvað eftir umhugsun að skella bara örsnöggt í jólabjór. Til þess setti hann jólaköku og brúnköku út í tankinn til að bæta „jólabragði“ í bjórinn. Því miður var það alls ekki gott og Þorsteinn þurfti að hella bjórnum, því ekki yrði hann seldur.
„Ég er alveg þannig að ég vil ekki selja eitthvað sem ég er ekki ánægður með. Ég opna þá bara tankana í svelginn. [...] Já, ég hef þurft að gera það sko. Tvisvar eða þrisvar. [...] Ég verð brjálaður þegar það gerist. Ég verð alveg brjálaður. [...] Þetta er svona – þetta er sama svekkelsi og reiði og þegar maður er tapsár. Hérna var ég búinn að búa til uppskrift sem átti að vera góð [...] og hún var ekki góð. Þá verður maður bara sár og reiður.“
Helstu áhugamál Þorsteins eru veiði og bruggun. Það kom sér vel þegar hann var að hefja reksturinn á Húsavík Öl þar sem hann gat drýgt tekjurnar með að selja gæsir sem hann veiddi.
Aðspurður hvort þessi mikla gróska og fjöldi brugghúsa á Íslandi geti staðið undir sér er Þorsteinn bjartsýnn, þótt hann trúi því að einhvern tímann muni hægjast á.
„Ég allavega anna ekki eftirspurn og er að fara að stækka og ég veit að staðan er þannig hjá nokkrum vinum mínum. [...] Fólk var kannski bara byrjað að kalla eftir fjölbreytni, sko. [...] Vissulega eiga kannski einhverjir sín uppáhaldsbrugghús og allt það. Það er eðlilegt. En þetta er ekki lengur þetta „þetta er minn bjór! Ég drekk bara þennan bjór!“ Eins og að velja sér fótboltalið.“
Nú er komið að því að auka framleiðslugetu Húsavík Öl. Fyrirtækið er staðsett í gömlu mjólkurstöðinni á Húsavík þar sem Húsavíkurjógúrt var framleidd og stefnir Þorsteinn á að sameina fleiri rými og bæta við tönkum, sumum stærri en sem fyrir eru, og stækka rými fyrir bargesti. Hingað til hefur Húsavík Öl verið með lítið og huggulegt „taproom“ en þar er oft margt um manninn og færri fá sæti en vilja. Steini segist því miður hafa þurft að vísa fólki frá þar sem veitingaleyfi eru takmörkum háð.
Sala Húsavík Öl hefur gengið vonum framar og hefur verið hægt að nálgast bjórinn bæði norðan heiða og í höfuðborginni. Eins og staðan er í dag hefur Þorsteinn ákveðið að hætta að selja bjór suður þar sem hann annar vart eftirspurn heima fyrir og á lítinn lager af bjór. Því er tími til kominn að stækka fyrirtækið svo hægt sé að anna eftirspurn.
Á Íslandi virðist vera mikill vinskapur milli bruggara og brugghúsa og má sjá gestabjóra á krana á börum brugghúsa. Steini segir að fólkið í bruggbransanum á Íslandi sé almennt gæðafólk sem sé í þessum bransa sökum ástríðu, og því græði allir á að vinna saman. Þó ekki mjög mikið þar sem bruggbransinn gefi ekki mikið í aðra hönd á litlu landi.
„Þetta er eins og þungarokkið. Þú ferð ekki í bjórinn til þess að eiga villur.“ segir Þorsteinn og hlær. „Ég vissi alveg þegar ég opnaði brugghús á Húsavík að ég væri ekki að fara að kaupa mér snekkju í höfnina.“
Einn bjórinn er kallaður Kemur og fer sem er titillinn á fyrstu plötu pönkhljómsveitarinnar Innvortis, fyrstu hljómsveitar Snæbjörns. Hann er svo nefndur þar sem hann seldist upp jafnharðan og staldraði aldrei lengi við á barnum.
Þorsteinn var í hljómsveitinni For Colorblind People með tónlistarmanninum Axel Flóvent en þeir eru báðir frá Húsavík. Sú hljómsveit spilaði í úrslitum Músíktilrauna árið 2013 þar sem Þorsteinn spilaði á bassa og í dag er annar meðlimur þeirrar hljómsveitar, Brynjar Friðrik, að vinna hjá Húsavík Öl meðfram vinnu sinni sem gítarkennari hjá Tónlistarskóla Húsavíkur.
Þáttinn má nálgast á hlaðvarpsvef mbl.is.