Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra Íslands er með mikla ástríðu fyrir landvernd og umhverfinu. Líf hans hefði þó hæglega getað farið á annan veg, en Guðmundur gældi bæði við þá hugmynd um að verða leikari og að helga sig Guði. Hann er fjárglöggur mjög og lofthræddur, hlustar nær ekkert á tónlist og lýsir sér sjálfum sem lokaðri týpu, þótt hlustendur fái í þessu viðtali að kynnast ráðherranum mun nánar en oftast er völ á í starfi hans í ríkisstjórninni. Guðmundur lætur sig mannréttindi einnig varða og hefur skrifað páfanum tvö bréf varðandi réttindi samkynhneigða; geri aðrir betur. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.
Guðmundur kom út úr skápnum sem samkynhneigður við móður sína fyrst sem náði að draga það upp úr honum þegar hún fann að eitthvað angraði hann. Í kjölfarið hringdu þau foreldar hans í alla helstu vini og vandamenn og tilkynntu þeim að Guðmundur væri kominn út úr skápnum, að hans beiðni svo hann þyrfti ekki sjálfur að standa í því. Síðan þá segist Guðmundur hafa sífellt þurft að koma út úr skápnum við alla í kringum sig þangað til hann var ráðherra. Þá fannst honum þungu fargi af sér létt þegar þjóðin í heild sinni vissi að umhverfisráðherra væri samkynhneigður.
Guðmundur Ingi telur það sína siðferðislegu skyldu að vera sýnilegur sem samkynhneigður ráðherra á Íslandi, tala fyrir réttindum hinsegins fólks og halda kyndli þeirra á lofti. Hann vill sýna ungu hinsegin fólki að hver þau eru standi ekki í vegi fyrir því að þau geti þjónað í æðstu stöðum samfélagsins. Þessu hefur hann fylgt eftir með að meðal annars rökræða við bandarískan ráðherra um umdeilda löggjöf í Texasfylki, sent páfanum tvö bréf og mæta með regnbogagrímu þegar Ísland tók á móti rússneskum stjórnmálamanni, en réttindi hinsegin fólks eru alls ekki varin í Rússlandi í dag. Guðmundur segist sjálfur aldrei hafa upplifað neikvæða umfjöllun eða viðmót í sinn garð vegna kynhneigðar sinnar.
Guðmundur Ingi ólst upp í sveit og naut þess að búa með alls kyns dýrum, stórri fjölskyldu, miklum gestagangi og föður sem ól með honum gott læsi á landið. Einu sinni tók hann sig til og gaf öllum 350 kindum búsins nafn í stað þess að þær bæru einungis númer. Á endanum tók hann nöfn úr kúanöfnum til að hafa nógu mörg nöfn á þær allar. Guðmundur er fjárglöggur, sem þýðir að hann á þokkalega auðvelt með að þekkja sauðfé í sundur og ætlaði sér ávallt að verða fjárbóndi.
Í grunnskóla var Guðmundur sendur í heimavistarskóla sem hann átti ekki auðvelt með, eins og mörg börn. Hann tók þó ákvörðun í 4. bekk eftir að hafa átt mjög erfiða tíma að hann ætlaði þá að hætta að leyfa heimavistarskólanum að hafa þessi miklu neikvæðu áhrif á sig, og breytti síðan líðan sinni í kjölfar þeirrar ákvörðunar. Enn þann dag í dag horfir hann aftur til sjálfs síns í 4. bekk og minnir sig á að hann geti tekið ábyrgð á eigin líðan og geti breytt viðbrögðum sínum við umhverfinu.
Í Menntaskólanum á Akureyri gleypti leiklistin Guðmund út úr íþróttunum sem hann hafði áður stundað og ætlaði Guðmundur sér að verða leikari um einhvern tíma. Þó kom í ljós í uppsetningu af Fríðu og dýrinu að sönghæfileikar Guðmundar væru ekki jafn miklir og leikhæfileikarnir og þurfti hann að leika með látbragði sem hann væri að syngja einhver númerin í sýningunni þegar í raun var annar söngvari að syngja í hans stað utan sviðs. Guðmundur telur í dag að þessi skortur af sönghæfileikum hafi verið ein helsta ástæða þess að hann lét ekki verða af því að elta leikaradrauminn.
Í leiklistinni náði Guðmundur Ingi alveg að gleyma sér. Guðmundur Ingi dvaldi einnig eitt sinn í nokkra mánuði í munkaklaustri í Þýskalandi. Lífsmarkmið munkanna er að ná að lifa í núinu og líða sem það sé nóg. Guðmundur heldur að þetta sé svo mikil hvíld og sé í raun sama ástandið sem náist á sviði í leiklistinni og munkarnir séu að reyna að ná valdi á.
Eftir menntaskóla fór Guðmundur Ingi í Húsmæðraskólann í Reykjavík þar sem hann vildi endilega læra almennilega að sjá um sjálfan sig. Eftir þá önn í Húsmæðraskólanum (nú Hússtjórnarskólinn í Reykjavík) fór hann út í fyrrnefnt klaustur, drifinn áfram af barnstrúnni sinni og Vefaranum frá Kasmír eftir Halldór Laxness. Fyrstu þrjár vikurnar í klaustrinu vann hann í gullsmiðjunni í klaustrinu, en eftir að fá skelfilega í hálsinn af því að pússa gullkrossa myrkranna á milli bað hann um að fá annað verkefni. Jólin 2019 fór hann aftur í heimsókn í klaustrið og komst þá að því að munkarnir voru búnir að jafna kolefnisspor sitt með sólarsellum, að búa til sitt eigið lífræna gas og mjög meðvitaðir um umhverfið. Að lokum komst Guðmundur að þeirri niðurstöðu að hann tryði ekki nóg til að verða munkur.
Eftir að hafa komið út úr skápnum segir Guðmundur að þungu fargi hafi verið af honum létt.
„Ég var búinn að segja þér að þetta hafði þau áhrif á mig að ég grét yfir öllum minningargreinum og ýmsu fleiru. Það var rosalega gott. [...] Það er bara rosalega góð losun. Þannig að ég held að svona, á sama tíma og þetta opnaði mig alveg eitthvað, þá er ég náttúrulega í grunninn lokuð manneskja og það er alveg eitthvað sem að ég mætti alveg vinna meira með. En þetta gerði mér bara óskaplega gott,“ segir hann.
Guðmundur er einhleypur í dag og hefur verið býsna lengi. Hann segist þó eiga mjög marga góða vini og sé ánægður í lífinu sínu, og því ekki að leita að bara hverju sem er.
„Ég myndi svona segja, sko... Ó, hvað þetta á ekki eftir að hljóma vel en akkúrat núna þá langar mig mest í baðkar, að eiga baðkar. [...] Þannig að allir karlmenn sem að – nei þetta á eftir að hljóma rosalega illa – eru á lausu og væru til í eitthvað sem eiga baðkar, þeir fara framar í röðina.“
Þó svarar hann af meiri alvöru þegar hann er spurður hvort hann eigi þann draum að verða hefðbundinn fjölskyldufaðir.
„Ef að karlmaður sem að kæmi inn í líf mitt gerir líf mitt að minnsta kosti jafn gott eða betra heldur en það er í dag, þá er ég til í þetta. En annars er ég það ekki.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.