Ásmundur Einar Daðason er fyrsti félags- og barnamálaráðherra Íslands, enda sá sem átti hugmyndina að stöðunni. Mikið af vinnu hans er drifið áfram af eigin reynslu af flókinni æsku, en sem barn gekk Ásmundur í sjö grunnskóla á átta árum, í tveimur löndum. Ásmundur hefur unnið ötult starf í þágu barnaheillar á Íslandi en leiðin lá þó ekki alltaf á þing; hann er menntaður búfræðingur og stefndi lengi á að reka sitt eigið bú. Hann á átta hunda, nýtur kosningabaráttunnar og leitar sér að áhugamáli til að deila með konunni þegar ungarnir fljúga úr hreiðrinu. Um þessar mundir spila þau golf. Mest hlakkar Ásmundur til að sjá hvert leið hans liggur í slönguspili lífsins. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.
Ásmundur lagði sig sérstaklega eftir því að fá að verða barnamálaráðherra meðfram félagsmálaráðuneytinu. Hann var upphaflega félags- og jafnréttismálaráðherra en ákvað í samráði við Katrínu Jakobs og Sigurð Inga að taka fremur titilinn félags- og barnamálaráðherra og færa jafnréttismálin til forsætisráðherrans. Með þessu vildi Ásmundur vinna staðfastlega að því að bæta málefni barna frá grunni og upp, frekar en að „slökka elda“ þegar þeir birtust.
Ásmundur ólst upp við mikinn óstöðugleika í æsku. Hann gekk í sjö grunnskóla á 8 árum, bjó í tveimur löndum og leitaði mikið til afa síns í sveitinni. Í dag vildi hann ekki breyta þessu þar sem hann telur mótlætið í æsku hafa mótað sig sem manneskju í dag. Á eldri árum hefur hann unnið mikið í sjálfum sér og byggir á þessari reynslu í ráðuneytisvinnu sinni.
Um vinnu sína á Alþingi, breytingar í meðferð málefna barna og hvort það sé ekki erfitt að vinna með jafn stórum hópum og hann gerir.
„Ég trúi bara á þessar breytingar og það er það sem tosar í mig. [...] Maður finnur líka orkuna hjá þeim sem eru að vinna í þessum málaflokki. Það eru allir svo viljugir til þess að breyta, mér finnst það vera svo jákvætt [...] Og halda áfram að hafa alla við borðið, vegna þess að það er svo mikill misskilningur að lykillinn að því að ná fram stórum breytingum sé einhvern veginn sá að vera bara einn í lestinni og keyra hana bara fast áfram. Vegna þess að stóru breytingarnar verða þegar þú færð alla með þér. Vegna þess að þegar að við vorum með alla þessa stóru fundi þar sem mætti 500 manns úr ólíkum kerfum, og fólk sem hafði hingað til verið að rífast og maður setur það við borðið og segir „hérna, finniði lausn!“ Þá verður til orka!“
Eftir að foreldrar Ásmundar skildu bjó hann hjá móður sinni og þau fluttu mjög oft, bæði innan Íslands og að endingu til Noregs. Í mörg ár bjó Ásmundur við óreglu og ofbeldi á heimili, en þegar til Noregs var komið hafði hann ekki lengur bakland til að leita til endrum og eins. Fyrir vikið fann hann sér félagsskap sem hefði getað leitt hann á glapstigu og tók hann þá ákvörðun á unglingsárum að hann skyldi flytja heim til Íslands til að búa hjá föður sínum. Í gegnum öll árin, fyrir og eftir flutning til föður síns, var hann alltaf mjög jákvæður og driftugur ungur maður þrátt fyrir erfiðleikana í kringum sig. Það var ekki fyrr en hann var kominn í stjórnmálin sem hann fann að hann héldi hlutum í ákveðinni fjarlægð og hleypti þeim ekki of nálægt sér. Á endanum er það eiginkona Ásmundar sem hjálpar honum að vinna sig í gegnum þessar áskoranir æskunnar og tækla málin opinskátt. Í dag þykir honum mjög vænt um móður sína og sér í henni það fólk sem hann vill ná að hjálpa í dag.
Ásmundur hóf að opna sig þegar hann fann að hann þyrfti að vinna í sínum málum til að geta látið samband sitt og eiginkonunnar endast. Þá fór hann á Al-Anon fundi, sem eru fundir fyrir aðstandendur fólks með áfengisvanda, þar sem hann hlustaði á mörg deila sögum sínum sem líktust hans sögu. Ásmundur segist ekki hafa tekið öll skrefin í Al-Anon sökum eigin meðvirkni, en að mæta á fundi hafi opnað augu hans og gert honum kleift að vinna í sínum málum. Hann eigi þó sína slæmu daga inn á milli þar sem kvíðinn tekur yfir.
Ásmundur fer fögrum orðum um konuna sína og segir hana hafa verið ástæðan fyrir því að hann hóf að vinna í sínum málum og opna sig varðandi æsku sína. Hún gefi honum þó engan afslátt og láti hann vita ef hann fer að reika af leið.
„Ég er þar að þegar ég er orðinn mjög hyper og alveg bara er að byrja að loka og er aftur að fara inn í þessa [...] skel, þá er það sem að konan mín [...] verður pirruð og segir „heyrðu Ási, nú þarftu aðeins að fara að vakna.“ [...] Þá verð ég pirraður aðeins og svo nokkrum tímum seinna eða hálfum degi seinna þá kem ég svona til hennar, „heyrðu þetta er rétt hjá þér.“ Og hún kann þetta alveg! [...] Ég hef stundum sagt að ég held að hún sé bara akkerið mitt og annars væri ég bara eins og flugdreki hérna, sveimandi og enginn að halda í bandið.“
Eftir að Ásmundur flutti heim frá Noregi og til föður síns í Búðárdal ákvað hann að verða bóndi. Í dag sér Ásmundur að hann langaði aldrei raunverulega að enda í landbúnaði, en telur að hann hafi fært meðvirknina af áfengisneyslu móður sinnar yfir á starf föður síns. Hann tók það svo langt að klára landbúnaðarnám á Hvanneyri áður en hann áttaði sig á að hjartað togaði ekki til baka í landbúnaðinn. Hann sér ekki eftir að hafa klárað námið en myndi velja sér annað nám í dag, nær félagsfræði eða því sem tengist stjórnmálum.
Á Hvanneyri kynntist Ásmundur konunni sinni og eftir útskrift fluttu þau í Búðárdal að vinna að búskapnum með föður hans. Það entist þó ekki lengi og Ásmundur fór fyrst á þing um 27 ára gamall, fyrir um áratug síðan.
Áhugamál Ásmundar utan stjórnmálanna eru til dæmis að fara í vatnaveiði, elda góðan mat fyrir sig og sína, vinna með höndunum og sinna áhugamálum fjölskyldunnar. Þau hjónin eru einnig að leita sér að sameiginlegum áhugamálum til að njóta þegar börnin hafa vaxið úr grasi. Núna eru þau að prófa golf saman.