Líður stundum eins og hún þurfi að ostaskera sjálfa sig

Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri.
Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynhildur Guðjónsdóttir er leikkona og leikstjóri með meiru, og hefur í dag sinnt starfi leikhússtjóra Borgarleikhússins í rúmt eitt og hálft ár. Því hafa vissulega fylgt ýmsar áskoranir á borð við örsmáan heimsfaraldur, fjöldatakmarkanir og leikhúslokanir, en hún er þó hvergi af baki dottin. Í dag nýtur hún að fá að taka almennilega á því stóra verkefni að setja saman leikhúsprógramm fyrir listasoltna þjóð. Leiklistin á huga Brynhildar að mestu, en hún er þó einnig frönskumælandi, Aerosmith aðdáandi og andlegt ígulker í bata. Brynhildur elskar að læra nýja hluti, helst erfiða, og hefur alla sína tíð getað fundið sögur í hverju skúmaskoti, sem hún svo nærist á að segja öðrum. Hún segist ekki vita hvar sagan sín muni enda, enda sér lífið ekki áfangastaður heldur ferðalag. Hún er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum, Snæbjörn talar við fólk.  

Um þessar mundir setur Borgarleikhúsið upp sýninguna 9 líf, sem fjallar um líf og starf Bubba Morthens. Brynhildur fer fögrum orðum um þá sýningu, til dæmis um hversu hrá og manneskjuleg hún er.

„Eins og segir í verkinu, [...] ef maður vill vita hvernig umræðan í samfélaginu er þá er ótrúlega fínt að tékka á því hvað Bubbi er að segja, af því að þannig líður flestum. Svo kemur eitthvað ofboðslega djúpt og fallegt um náungakærleik og eitthvað slíkt og svo bara korteri seinna kemur eitthvað gott tíst um munnmök. Og þannig erum við bara, þannig eigum við að fá að vera. [...] Bentu mér á þá manneskju sem ekki er breysk.“

Brynhildur ákvað ung að verða flugmaður eða læknir, sem henni þótti verða „almennileg vinna“ eins og mörg önnur börn. Hún tók það svo langt að fara á náttúrufræðibraut í framhaldsskóla í staðinn fyrir að fara á málabraut sem hún segir sjálf að hefði líklega hentað sínum hæfileikum betur. Leiklistin var henni aldrei raunverulegur möguleiki þar sem hún vissi ekki hvar hægt væri að læra listgreinina og koma sér áfram á þeirri braut.

Eftir menntaskóla tók Brynhildur BA próf í frönsku frá Háskóla Íslands, þar af bjó hún eitt ár í Frakklandi sem hluti af Erasmus skiptináminu. Hún mælir fyllilega með því að allir nýti sér þann valkost að fara í skiptinám.

Þegar að Brynhildur áttaði sig á því að hún vildi verða leikkona ákvað hún strax að hún þyrfti að leita út fyrir landssteinana að námi. Hún vildi fá eins klassískt nám og völ var á og segist handviss um að lítill bekkur í Leiklistarskólanum á Íslandi hefði ekki hentað henni. Hún flaug oft til Bretlands í inntökupróf á lokaárinu í frönsku og komst á endanum inn í Guildhall School of Drama, einn virtasta leiklistarskóla Bretlands. Eitt ár eftir útskrift vann Brynhildur sem leikari í Bretlandi, meðal annars hjá National Theatre með jólasýninguna um Pétur Pan.

Aðspurð um það hvernig hún tækist á við þessar nýju áskoranir eins og að vinna í leiklist í nýju landi, læra ný tungumál eða taka munnlegt próf í stærðfræði svarar Brynhildur á þá leið að hún ætli ekki að skorast undan áskorununum.

„Það var bara að duga eða drepast. [...] Ekki ætla ég að drepast, af hverju ætti ég að gera það? [...] Ég ætla bara að gera það seinna. Sá tími mun koma og þá verð ég Brynhildur heitin... [....] Það er ekki alveg komið að því strax.“

„Þetta er bara einhver farvegur [...] Lífið er alltaf bara eins og stórfljót – hjá mér. [...] Það er bara áfram og maður bara flýtur með. Það er held ég, auðvitað, sko dugnaður og einhver metnaður og einhver hugsjón stýrir manni, en það er bara [...] til að maður geti fyllt upp í sig sjálfan en svo verður maður bara að berast með straumnum.“

Ein þeirra sýninga sem Brynhildur hefur komið að sköpun á var sýningin Brák, sem samin var um konu sem hét Þorgerður en oftast kölluð Brák, sem einungis var nefnd örstutt í Egils sögu. Brynhildur segir það hafa verið mikla áskorun að búa til heila sýningu sem endast átti heila kvöldstund út frá þremur línum í verki um annan mann, en áhrif Brákar finnist víða. Sýningin var sett upp á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi og Brynhildur sagði samningi sínum við Þjóðleikhúsið til þess að geta tekið þetta verkefni að sér.

Fyrir um einu og hálfu ári tók Brynhildur við starfi sem leikhússtjóri Borgarleikhússins, sem er stórt verkefni í hvaða árferði sem er. En vissulega setur það strik í reikninginn að fljótlega eftir það skall á heimsfaraldur COVID-19 og hurðum skellt í lás í leikhúsunum sem og annars staðar. Brynhildur þiggur starfið, 14. febrúar 2020 er hún tilkynnt sem verðandi leikhússtjóri, 24. febrúar tók hún við leikhúsinu og 13. mars var dyrum lokað. Í dag hefur náðst að setja af stað sýningar sem voru komnar í sýningu fyrir heimsfaraldur og segist Brynhildur vona að hún nái brátt að byrja að leikstýra sjálf, enda sé það ávallt gott að leikhússtjórar séu starfandi listamenn. Þó myndi hún ekki leika sjálf enda þykir henni ólíkt að leikhússtjóri stýri sýningum og starfi sem leikari.

Brynhildur telur að COVID tíminn hafi verið mjög strembinn og muni birtast í áfallastreituröskun eða öðrum álagseinkennum þegar fram líða stundir.

„Þetta COVID verkefni það – það var bara alveg rosalega skrítið verkefni og ég held ég hafi sagt það einhvers staðar áður líka að það kemur ábyggilega svona áfallastreituröskun eftir svona 10 ár, þá á maður eftir að sitja og hugsa „hvað í ósköpunum gerðist þarna?“ [...] Og stundum líður manni eins og maður sé bara að fara með ostaskera á sjálfan sig, það er búið að ydda framan af öllum taugaendum og maður er bara eins og andlegt ígulker! [...] En eitthvað sem að var bara eins og glóandi hnöttur í höndunum á manni fyrir 18 mánuðum er það ekki lengur. Og eitthvað sem var óyfirstíganlegt verkefni þá er bara verkefni sem er bara leyst og svo höldum við áfram.“

Í dag líður Brynhildi loksins að hún sé orðin leikhússtjóri Borgarleikhússins, þegar búið er að afnema grímuskyldu og hólfaskiptingu.

Núverandi leikhústímabil stílar inn á þá spurningu um hvernig er að vera við, við sem búum á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á börn og að bjóða velkomna nýja áhorfendur, til að mynda er ein sýning á pólsku: Tu jest za drogo sem þýðir „Úff hvað allt er dýrt hérna “ – tilfinning sem margir aðfluttir Íslendingar kannast líklega við. Íslendingin er fyrir alla, þó hún sé á pólsku en textun er í boði fyrir íslensku- og enskumælandi áhorfendur.

Hvað tekur við eftir að leikhússtjórastarfinu lýkur er ekki ljóst, segir Brynhildur. Það verður þó eitthvað spennandi og gæti alveg verið eitthvað utan leikhússins – þó hún búist ekkert frekar við því.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

Snæbjörn Ragnarsson og Brynhildur Guðjónsdóttir.
Snæbjörn Ragnarsson og Brynhildur Guðjónsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda