Lögfræðingar og ljósmæður í súludanshópnum

Ljósmynd/M. Flóvent

Súludanshópurinn SEIÐR setur upp sýninguna Match Me! á sviðslistahátíðinni Reykjavík Fringe Festival um helgina. Hópurinn leggur mikið upp úr jákvæðri líkamsímynd og vill gera fólki kleift að sjá dansara af ólíkum stærðum og gerðum örugga í eigin skinni á sviði. Með því vonast hópurinn til að brjóta niður þær staðalímyndir sem eru til staðar um hvernig dansarar eigi að líta út, vera og haga sér. 

„Hópurinn okkar er mjög fjölbreyttur og við viljum einmitt beina athyglinni á fjölbreytta líkama. Við viljum leyfa fólki að dást að því hvað þessir kroppar eru megnugir um frekar en hvernig þeir líta út eða hvort þeir passi inn í staðalímyndir um fegurð eða ekki,“ segir Ásta Marteinsdóttir, meðlimur í SEIÐR.

Ljósmynd/M. Flóvent

„Það sama á einnig við um bakgrunn allra listamannanna, en við erum með laganema, viðskiptafræðing, vísindamann, ljósmóður, OnlyFans stjörnur, mæður í fæðingarorlofi og bara allskonar. Innan hópsins hefur myndast þetta gullfallega styðjandi mæðraveldi þar sem allir njóta viðurkenningar og virðingar og okkur finnst mikilvægt að halda athyglinni á því þrátt fyrir að við fáum líka að njóta þess að hafa einn og einn karlmann með okkur endrum og sinnum.“

Ljósmynd/M. Flóvent

Hópurinn kom fyrst saman á sömu hátíð árið 2019 þar sem þau settu upp sýninguna Draumveruleiki. Í ár er þema hátíðarinnar ástin í öllum sínum myndum, en á sýningunni mun SEIÐR setja nútímalegan brag á ástina í anda stefnumótaforrita.

View this post on Instagram

A post shared by SEIÐR (@seidrdance)

„Markmið SEIÐR er að búa til vettvang fyrir þá listamenn sem stunda listgreinina til þess að koma og draga fram það sem hefur verið haldið í útjaðri listsamfélagsins í sviðsljósið. Dansararnir munu leggja mismunandi áherslur í stílum sínum og túlkun á hinum ýmsu hliðum ástarinnar og munu áhorfendur bæði fá að sjá lostafullar hliðar súludansins sem og þær fyndnu og dramatísku.“

Ljósmynd/M. Flóvent

Súludans er ein fárra íþrótta þar sem kvenmenn eru ríkjandi. „Súludans er fundinn upp af konum, nánar tiltekið dökkum konum, en það er einmitt mikilvægt að hvítþvo ekki uppruna þeirra hluta sem við viljum njóta. Með tíð og tíma hefur þessi listgrein svo þróast á allskonar vegu, mestmegnis inn á strippstöðum en á níunda áratugnum byrjuðu einhverjir stripparar að kenna öðrum konum „trikkin“ sín og þannig varð pole fitness til.“

Ljósmynd/M. Flóvent

„Við teljum að svo miklu fleiri geti haft gaman af súludanssýningum rétt eins og fólk hefur gaman af sirkus, búrles og uppistandi en þetta er hálfgerð blanda af þessu. Af okkar reynslu þá hefur hingað til alltaf um 70% áhorfenda einmitt verið konur. Þess vegna tala ég um okkur sem kvennaveldi og sýningunum okkar er og hefur alltaf verið ætlað að bæði skemmta en einnig fagna kvenleikanum í öllu sínu veldi,“ segir Ásta. 

Ljósmynd/M. Flóvent

Hópurinn leitast við að kynna Íslendinga betur fyrir súludansi og um leið þurrka út þá fordóma sem fylgt hafa listforminu. Sýningin fer fram í Tjarnarbíó laugardaginn 25. júní klukkan 21:30, en nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda