Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Landsvirkjunar, er búin að vera í massívu átaki í ræktinni síðan í janúar sem hefur gert það að verkum að hún hefur bætt á sig nokkrum kílóum. Hún lumar á mörgum góðum útlitsráðum.
Hvað gerir þú til að halda þér í formi?
„Ég byrjaði í massívu átaki í ræktinni í janúar og er enn að. Fer þrisvar í viku og tek virkilega á því. Markmiðið var og er að fá mikið af flottum vöðvum! Ég get fullyrt að nokkur góð kíló hafa bæst á mig.“
Er einhver matur sem þú borðar ekki eða fer illa í þig?
„Ég er vitlaus í mjólk og mjólkurvörur en verð að stilla neyslu þeirra í hóf, þær fara ekki alltof vel í mig.“
Ertu hætt að borða eitthvað sem þú borðaðir áður?
„Nei ég get nú ekki sagt það en líkamsræktin gerir það að verkum að ég sæki kannski aðeins í hollari mat. Ég laumast til dæmis sjaldnar í pylsur, þótt fátt jafnist á við eina með öllu. Annars má þetta ekki verða of klippt og skorið - ég trúi ekki á meinlætalifnað, held að hann espi bara upp óþekka bragðlauka.“
Hvað gerir þú til að líta betur út?
„Ég á fullt af hrukkukremum með æðislega freistandi nöfnum - sem eru örugglega fín! En það sem virkar best fyrir mig er nægur svefn. Sem getur verið tímafrek iðja!“
Hvert er ódýrasta fegrunarráðið? „Slökun. Stress er óvinur útlitsins nr. 1.“
Lumar þú á leynitrixum varðandi útlitið?
„Heit og góð sturta bjargar því sem bjargað verður þegar mikið liggur við. Auk þess jákvætt hugarfar: Ef maður trúir því að útlitið sé gott, þá verður það ósjálfrátt betra!“
Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni?
„Látum okkur sjá: Augnblýantur, maskari, púður, varablýantar og varalitir. Bæði eldrauðir og diskóbleikir! Já og auðvitað yddari.“
Hvaða snyrtivöru gætir þú ekki lifað án? „Ég hef notað svartan augnblýant frá Dior síðan ég man eftir mér.“