Unnur Guðný Gunnarsdóttir hefur einfaldan fatastíl en segist hafa unun af því að setja á sig fjöruga fylgihluti. Smartland heimsótti hana og fékk að skoða gersemarnar.
Fyrir hverju fellur þú oftast?
„Oftast fell ég fyrir fallegum töskum, sólgleraugum eða skóm.“
Hvernig föt klæða þig best?
„Mér lýður best undir berum himni og með góða skapið að vopni held ég að flest klæði mann ágætlega.“
Hvað eyðir þú miklum peningum í föt á mánuði?
„Það er mjög misjafnt hvað ég eyði miklum peningum í föt. Stundum eyði ég engu og stundum allt of miklu. Það er alltaf gaman að kíkja í búðir á haustin þegar vetrartískan mætir á svæðið. Sumarfötin reyni ég frekar að nota aftur enda sumarið svo stutt.“
Hvar verslar þú helst föt?
„Ég versla mest erlendis og þá helst í New York eða á Ítalíu. Ég kíki oftast í Armani exchange, Miss sixty, BEBE og H&M. Æfingaföt kaupi ég í LULU lemon enda eru sniðin og efnin þar snilld! Mér finnst gaman að rölta um í Soho og kíkja í allar litlu hönnunarbúðirnar eða fara á flóamarkaði í Mílano þar sem maður getur gert frábær kaup. Hér heima eru ELLA, Andersen og Lauth og Andrea Magnúsdóttir í uppáhaldi. Snyrtivörur og skartgripi kaupi ég helst í Saga Shop. Sign og Hendrikka Waage eru í miklu uppáhaldi!“
Hvaða litir eru í mestu uppáhaldi hjá þér?
„Núna eru appelsínurauður og koníaksbrúnn í miklu uppáhaldi svo er ég alltaf veik fyrir dökkbláu.“
Með hvaða líkamspart ertu ánægðust með og hvernig flaggar þú honum?
„Það er nú engin líkamspartur í sérstöku uppáhaldi. Ég er dugleg að hreyfa mig og reyni að stunda einhverskonar líkamsrækt á hverjum degi. Þannig að á heildina séð reyni ég bara að halda mér hraustri og í kjörþyngd.“
Hvað finnst þér mest heillandi í vortískunni?
„Pastel-litirnir eru svolítið sjarmerandi og svo er ég ánægð með að sjá öll munstrin sem eru í boði.“
Hvað dreymir þig um að eignast í fataskápinn?
„Mig dreymir um að eiga lítinn skápa álf sem tekur til í skápum, þvær, straujar, raðar og finnur einhleypa sokka og parar þá saman! Svo dreymir mig um eitthvað úr línunni hennar Ellu og sólgleraugu frá Tom Ford.“
Besta tískuráðið?
„Er að reyna að vera heilbrigð sál í hraustum líkama og vera góður við fólkið í kringum mig. Þannig kemur útgeislun af sjálfu sér. Bros kostar ekkert!“
Uppáhaldsskartgripurinn?
„Það er klárlega nýja armbandið Lífstré sem er hannað af Inga í Sign. Armbandið er úr silfri og allur ágóði þess rennur í sjóð Vildarbarna Icelandair. Það samanstendur af sjö hlekkjum þar sem hver hlekkur vitnar um mikilvæga þætti lífsins. Þetta er virkilega fallegur skartgripur sem lætur gott af sér leiða. Vildarbarnasjóður Icelandair sendi á síðasta ári 18. börn og fjölskyldur þeirra í frí á síðasta ári sem er ómetanlegt.“