„Ég lifi eiginlega tvöföldu lífi“

Arnar Gauti Sverrisson.
Arnar Gauti Sverrisson.

Arnar Gauti Sverrisson er alinn upp í Keflavík. Þegar hann var 17 ára flutti hann í bæinn og hefur síðan þá hrærst í heimi hönnunar og tísku. Hann byrjaði að læra til þjóns en kláraði ekki námið því tískuheimurinn kallaði á hann. Seinna varð hann landsfrægur þegar hann gerðist þáttastjórnandi í Innlit-Útlit á Skjáeinum ásamt Þórunni Högnadóttur og Nadíu Katrínu Banine. Í dag er Arnar Gauti með mörg járn í eldinum. Hann er „creative direktor“ Húsgagnahallarinnar, rekur vefinn Sir Arnar Gauti og vinnur auk þess við að gera umhverfi fólks fallegra. Mikilvægasta hlutverkið er þó föðurhlutverkið og eftir að hann varð einstæður faðir skiptir það hann mestu máli að reynast börnunum sínum vel.  

„Ég er búinn að vinna við tísku og hönnun í um það bil 27 ár og er búinn að hitta, afgreiða og hjálpa ótrúlega mörgum Íslendingum í fatavali og fleira þannig að margir kannast við andlit og nafn. Án efa eru það árin mín sem þáttastjórnandi í Innlit Útlit á Skjáeinum sem gerði útslagið hvað þetta varðar,“ segir Arnar Gauti þegar hann spurður út í frægðina. 

Arnar Gauti ólst upp í Keflavík og upplifði mikið frelsi til athafna.

„Lífið var einfaldara þá en í dag auðvitað, maður fór eftir skóla með vinum á DBS-hjólinu sínu í Millet-úlpunni niður á bryggju að veiða eða spila fótbolta á malarvellinum. Mamma og stjúppabbi voru bæði útivinnandi í þá daga þannig að maður hugsaði svolítið um sig sjálfur á daginn. Það þurfti að draga mig inn í kvöldmat því það var svo mikið sem við vinirnir höfðum fyrir stafni. Leiðin lá einhvern veginn samt alltaf til Reykjavíkur. Þegar ég var orðinn of gamall til að vinna í unglingavinnunni á sumrin reddaði mamma mér vinnu við að þurrka þorskhausa í bænum en það var einhver sena sem átti ekki alveg við mig og ég flúði til Reykjavíkur. Ég þakka mömmu ennþá fyrir þetta. Ég held að ég sé þar sem ég er í dag út frá þessari ákvörðun móður minnar að redda mér þessari þorskhausavinnu,“ segir hann og hlær innilega. 

Hulda Rós Hákonardóttir, Arnar Gauti Sverrissoni og Anna Lilja Magnúsdóttir
Hulda Rós Hákonardóttir, Arnar Gauti Sverrissoni og Anna Lilja Magnúsdóttir Eggert Jóhannesson

Borg óttans, Reykjavík, iðaði af lífi og fjöri þegar Arnar Gauti mætti til vinnu sem þjónanemi á veitingahúsinu Við Sjávarsíðuna í Tryggvagötu 17 ára gamall. Þetta var árið 1988 og þegar meistarinn hans skipti um vinnu og flutti sig yfir á Holiday Inn hótelið fylgdi Arnar Gauti með. Hann fann sig samt ekki alveg í veitingageiranum og leitaði á önnur mið. 

„Ég kláraði aldrei að læra þjóninn en fannst það skemmtilegt. Ég hafði alltaf heillast af tísku og á þeim tíma var verslunin 17 á Laugavegi 51 flottasta búðin í bænum. Ég fór að vinna fyrir Svövu og Bolla þar, einnig vann ég í Hanz í Kringlunni. Seinna fyrir þá yndislegu fjölskyldu Margréti Jónsdóttur, Mörtu og Helgu Árnadætur sem þá voru að opna sínar fyrstu Vero Moda- og Jack and Jones-búðir.

Kolla og Gunni bestu vinir mínir opnuðu svo GK Reykjavík sem setti senuna hérna heima í tísku á næsta stig að mínu mati og fór ég að vinna þar. Frá 1999 til 2000 vann ég sem innkaupamaður fyrir herrafatnað Hagkaupa. Það kallaði á gríðarleg ferðalög um heim allan meiri hluta ársins og var ótrúlegur skóli fyrir mig. Það sem fáir vita einnig er að um 2003 var ég búin að vera vinna með Kollu og Gunna í GK við innkaup erlendis og þar á meðal fyrir Burberry sem var mitt uppáhaldsvörumerki á þeim tíma og áttum við gott samband við umboðsmenn Burberry í Skandinavíu.

Árið 2003 var forstjóri Burberry á Englandi Dani og sannfærðu umboðsmennirnir hann um að réttast væri að fyrsta flaggskipsbúð Burberry í Skandinavíu yrði opnuð undir minni stjórn og vinafólks míns sem þá var búsett í Danmörku. Það er auðvitað sturlað að hugsa til þess að þetta hafi verið mögulegt. Verkefnið fór frekar langt og var ég kominn með húsnæði á Strikinu í Kaupmannahöfn en það verkefni kláraðist ekki því miður eins og gengur og gerist sökum fjármögnunar. Eftir það fór ég að vinna fyrir Inga í Exó og þar fékk ég innsýn í heim húsgagna. Ég á Inga allt að þakka fyrir áhugann sem ég fékk síðan á húsgögnum og hönnun enda yndislegt eintak af manni eins og svo margir þekkja,“ segir Arnar Gauti. 

Talið berst að fyrirmyndunum. Þegar Arnar Gauti er spurður um fyrirmyndir sínar myndu margir halda að hann nefndi einhver stórmenni í hönnunar- eða tískuheiminum. En það er ekki alveg þannig því fyrirmyndirnar hans eru konurnar sem ólu hann upp. 

„Ég verð að segja að það að vera alinn upp af tveimur hjartahlýjum og fallegum konum, sem eru mamma og amma, hafi mótað mig og þær verið mínar helstu fyrirmyndir. Ég er fæddur í Vestmannaeyjum og fór með mömmu og ömmu á bleiunni í togara í Gosinu 1973 þar sem við enduðum á Suðurnesjunum. Mamma og amma byrjuðu þar með tvær hendur tómar og ólu mig upp af ást og umhyggju. Þær skiptust á að ná í mig í leikskólann eftir því hvernig vinnan lá fyrir þeim. Eins og sannir Vestmannaeyingar byrjuðu þær að vinna eins og þær gátu við fiskvinnslu og enduðu eins og svo margir á Suðurnesjum að vinna á vellinum hjá Varnarliðinu við þrif og fleira. Þrautseigja, óeigingirni og hjartahlýja þeirra setur þær sem mínar stærstu fyrirmyndir.

Önnur stór fyrirmynd mín var uppeldisfaðir minn sem féll frá fyrir tveimur árum og kom mér í föðurstað. Hann kenndi mér að vera auðmjúkur og alltaf til staðar fyrir fjölskyldu og vini. Föðurímyndin er alltaf fyrirmynd svo framalega sem viðkomandi pabbi standist væntingar barns sem hann svo sannarlega gerði.“

Jón Gunnar Geirdal og Arnar Gauti Sverrisson.
Jón Gunnar Geirdal og Arnar Gauti Sverrisson.

Talið berst að frægð og frama. Þegar ég spyr Arnar Gauta hvort það hafi aldrei háð honum að vera þekktur á Íslandi segir hann svo ekki vera en játar að það sé stundum leiðinlegt að fólk gefi sér að hann hafi að geyma aðra manneskju en hann gerir í raun og veru. 

„Við erum nú held ég öll svona pínu þekkt á Íslandi en í mínu tilfelli að hafa verið í Innlit-Útlit sjónvarpsþættinum í þrjú ár, einum vinsælasta þætti á þeim tíma gerði það að verkum að flestir kannast við þetta andlit. Það hefur aldrei háð mér neitt sérstaklega. En það háir okkur Íslendingum svolítið að flestir eru búnir að móta sér fyrirfram skoðanir á opinberum persónum sem sjaldnast á við þeirra eigin persónuleika. Ég hef kannski mest upplifað það með mig og mitt.“

Vala Matt byrjaði með Innlit-Útlit á Skjáeinum en þegar hún flutti sig yfir á Stöð 2 tók Þórunn Högnadóttir við þættinum. 

„Innlit-Útlit var búið að vera einn af ástsælustu þáttum þjóðarinnar undir stjórn Völu Matt og þegar hún hætti með þáttinn var hin þjóðkunna díva Þórunn Högna fengin í að búa til nýjan hóp þáttastjórnenda og ritstýra þættinum. Það var búið að velja Nadíu Banine og svo skilst mér að Þórunn hafi hent fram þessum orðum á fundi með stjórnendum Skjás Eins „en Arnar Gauti“? Þetta voru frábær ár með stórkostlegum hópi af fólki sem ég fékk að hitta og vinna með og verð ég alltaf þakklátur fyrir þennan tíma.“

Þegar ég spyr Arnar Gauta hvort það hafi hjálpað honum upp á framhaldið að hafa verið í Innlit-Útlit segir hann svo vera. 

„Þegar þú ert búin að vera viðloðandi tísku og hönnun í þetta mörg ár og fara síðan að fjalla um hönnun og fleira hérna heima og erlendis þá auðvitað gefur það þér ákveðinn trúverðugleika sem ég hef pottþétt fundið fyrir að hefur hjálpað til,“ segir hann. 

Í dag vinnur Arnar Gauti með vini sínum, Jóni Gunnari Geirdal, að heillandi verkefnum. Þeir félagar hafa þekkst í 20 ár. 

„Ég og Hr. Ysland eins og ég kalla þennan yndislega klára vin minn erum búnir að þekkjast í um 20 ár. Við höfum brallað margt skemmtilegt saman og er virkilega ánægjulegt að vera komnir hingað í okkar vináttu þar sem við erum að vinna saman daglega í creative og skemmtilegum verkefnum sem verður tekið eftir. Hann er líka einn af mjög fáum sem komast upp með að drulla yfir mig þegar á við um lífið og tilveruna svo að það sé sagt,“ segir Arnar Gauti. 

Hvernig er samstarfi ykkar háttað?

„Þetta byrjar í raun á vinskap okkar fyrir tuttugu árum. Jón Gunnar hefur verið í fjölbreyttum verkefnum fyrir fyrirtæki sitt Ysland og í gegnum tíðina höfum við leitað hvor til annars með alls konar pælingar í tengslum við hugmyndavinnu okkar í slíkum verkefnum. Þetta bistró verkefni okkar í Keflavík er fyrsta concept-clinic verkefni okkar saman. Það gengur út á það að við tökum stað sem er til staðar og breytum honum frá grunni í nýja og betri allsherjar upplifun. Einnig erum við í mörgum öðrum spennandi „concept creation“ eða „clinic“ verkefnum og áhugaverðir tímar framundan,“ segir hann.  

Nú eruð þið að hanna heildarkonsept fyrir fyrirtæki, hvers vegna viljið þið það?

„Okkur líður einfaldlega best með það því við erum með ákveðna heildarsýn í verkefnum okkar og viljum helst vinna út frá henni þar að segja tónlist, matur, lýsing, húsgögn og hugmyndafræði staðarins helst í hendur og spegla sig hvað í öðru. Saman myndar þetta þá upplifun sem við viljum skapa,“ segir hann og bætir við: 

Í okkar „concept creation“ eða „concept clinic“ verkefnum þá erum við onestopshop fyrir allt sem er „concept“. Við förum inn í eitthvað þegar ekkert er að frétta og upplifun engin og úr rústum þess breytum við því í eitthvað sem er lifandi, skemmtilegt og aðgengilegt í fjöldann. Við sköpum þannig heimsklassa upplifun í mat & drykk. Þetta er það sem heillar okkur mest. Við erum ekki bara að hanna einhvern veitingastað. Við erum skapa einstaka upplifun og það er okkar hugmyndafræði.“  

Innblástur er mikilvægur í skapandi starfi. En hvert skyldi Arnar Gauti sækja sinn innblástur?

„Á ferðalögum pikka ég upp ótrúlega mikið, hvort sem það er nýjasta hótelið sem ég gisti á í Stokkhólmi, hönnunin eða upplifun á veitingastaðnum sem ég fór á síðast. En það kemur alltaf upp þessi „hey þetta er sniðugt eða flott hugmynd“ sem maður tekur síðan lengra. Húsgagna- og hönnunarsýningar erlendis eru einnig frábær tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt. Ég er „creative director“ fyrir Húsgagnahöllina í dag og ferðast töluvert fyrir fyrirtækið. Að fara á húsgagnasýninguna Salone Del Mobile í Mílanó er mín árshátíð. Þar spila fyrirtækin út öllu því sem þau hafa sem er mikil upplifun. Og svo auðvitað að upplifa að vera ástfanginn í París, ekkert sem toppar þá tilfinningu.“

Þótt Arnar Gauti sé að skapa stemningu með vini sínum Jóni Gunnari Geirdal þá segist hann alls ekki vera alltaf úti um allt. Hann sé heimakær og eftir að hann skildi við eiginkonu sína hafi hann lagt mikinn metnað í að vera til staðar fyrir börnin sín. 

„Ég lifi eiginlega tvöföldu lífi. Ég er einstæður faðir og barnsmóðir mín er með þau í viku á móti mér. Þetta er bara pínu skrýtið líf sem erfitt er að venjast oft, eina vikuna ertu með áherslurnar á París og Kiljan og öllu því sem fylgir, taka á móti þeim úr skólanum, skutla á æfingar, heimalærdómur, elda matinn og allt það. Síðan fara þau til mömmu sinnar í viku og þá koma aðrar áherslur sem snúast þá meira um að vinna sem mest svo ég eigi meira tíma með þeim þegar þau koma aftur. En auðvitað er ég alveg að njóta lífsins líka, hitta vini og gera eitthvað fyrir sjálfan mig. Ég er með sykursýki 1 og þarf að hugsa vel um heilsuna sem hefur verið í forgangi síðustu mánuði. Ég hef átt það til að vera full kærulaus hvað varðar þennan sjúkdóm þar sem ég er mikill sælkeri á mat og gott léttvín. Ég hef alltaf verið í góðu formi þannig séð en með lítið úthald. Núna er ég að taka á því með hreyfingu og heilbrigðara líferni. Fyrir um 7 mánuðum tók ég léttvín alveg út aðra hvora viku þegar ég er með börnin mín. Léttvín er ein af mínum nautnum en það er mikill sykur í því og hentaði ekki þar sem þau bæði eru meðvituð um sjúkdóminn og vilja sjá pabba sinn innbyrða sem minnst óhollt. Þannig að léttvínsdrykkja er meira svona til að gera mér dagamun um helgar þegar ég er úti að borða með vinum. En ég elska líka að vera í eldhúsinu og prófa nýja hluti, uppáhaldið mitt núna er Norður-Afríka í matargerð eins og Tagine Cous Cous réttir hægeldaðir, gjörsamlega sturlað bragð af þeim mat,“ segir hann. 

Hvað hefur haft mest áhrif á líf þitt?

„Ungarnir mínir Natalía París og Kiljan Gauti. Allar áherslur í lífinu breytast, hjartað verður stærra og innilegra við það að vera orðinn ábyrgur fyrir tveimur einstaklingum. Ég vil að börnin mín fari út í lífið með fallegt hjartalag, ást og umhyggju fyrir öðrum. Ég trúi því að ég sé að gera mitt besta til þess að sjá það verða að veruleika sem faðir.“

Hvað gefur þér mesta lífsfyllingu?

„Hlátur barna minna, það er ekkert sem fyllir hjarta mitt af meiri gleði enda er heimilið mitt rekið af ást en ekki aga þótt allir þurfi sín mörk. En lífið er ekki alltaf dans á rósum þegar maður er faðir 10 og 13 ára en ég er klárlega að gera mitt allra besta til að heyra hlátur þeirra sem oftast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda