„Hann inniheldur demantapúður og vanilla planifolia-vatn og er dýrasti farðinn á íslenskum snyrtivörumarkaði en farðinn kostar 18.199 krónur. Með honum fylgir þó farðabursti sem réttlætir eitthvað af verðmiðanum en virkar þessi dýrasti farði Íslands betur en aðrir sem kosta helmingi minna,“ segir snyrtipenninn Lilja Ósk Sigurðardóttir í sínum nýjasta pistli:
Chanel Sublimage Le Teint, 18.199 kr.
Chanel Sublimage Le Teint er dýrasti farðinn á Íslandi en hann er hluti af Sublimage-húðvörulínu Chanel sem er sú dýrasta sem merkið hefur upp á að bjóða. Vanilla planifolia-þykkni er aðalsmerki Sublimage-línunnar en plantan býr yfir mjög andoxandi virkni ásamt B-vítamínum á borð við níasín og þíamín. Í lýsingu á farðanum segir Chanel að öflugt vanilla planifolia-vatn styrki húðina, að farðinn veiti húðinni raka í allt að 12 klukkustundir, að demantapúður endurkasti ljósi á óviðjafnanlegan hátt og veiti húðinni þannig einstakan ljóma. Farðinn á að veita létta til miðlungs þekju.
Förðun með Chanel Sublimage Le Teint í lit 10 Beige.
Við ásetningu var farðinn mjög kælandi og rakagefandi, áferð formúlunnar var kremuð, gelkennd og þykkari en aðrir farðar. Þekjan var frekar létt, líktist lituðu dagkremi, svo ég setti annað lag af farðanum á húðina og náði þá að byggja hana upp svo húðliturinn varð jafnari en ennþá glittir í roða. Létt þekjan gerði það þó að verkum að útkoman var náttúruleg og virkaði eins og mín húð en betri. Meðfylgjandi farðabursti var ótrúlega góður og þægilegur í notkun. Það truflaði mig þó hversu ilmsterkur farðinn var en þetta er sami ilmur og af öðrum förðum frá Chanel. Í fyrstu var farðinn örlítið mattur en eftir því sem leið á daginn varð ljóminn meiri og eftir nokkrar klukkustundir hefði ég þurft að setja púður til að ná niður glansinum en þess skal geta að húðgerð mín er blönduð. Farðinn entist vel á húðinni, var ennþá fallegur eftir um sex klukkustundir.
Kostir:
1. Gífurlega rakagefandi við ásetningu, eins og væri verið að bera rakakrem á húðina.
2. Mjög léttur á húðinni, fann lítið sem ekkert fyrir honum yfir daginn.
3. Veitir húðinni heilbrigt útlit og náttúrulegan ljóma.
4. Endist vel á húðinni en eftir sex klukkustundir á húðinni leit farðinn ennþá vel út þótt hann hafi reyndar verið svolítið glansandi.
5. Meðfylgjandi farðabursti er sérlega góður í notkun.
Gallar:
1. Pakkningarnar eru ekki praktískar en glerkrukka hýsir farðann í stað hefðbundinnar glerflösku með pumpu svo farðinn er ekkert voðalega ferðavænn.
2. Auðvelt að taka allt of mikinn farða upp úr krukkunni í hvert skipti og sömuleiðis þarf að opna umbúðirnar varlega svo ekkert af formúlunni fari út fyrir.
3. Óþarflega mikill ilmur er af farðanum, hinn hefðbundni og blómakenndi Chanel-ilmur, og ég fann hann ennþá eftir um klukkutíma.
4. Mjög takmarkað litaúrval, einungis sex litir eru í boði.
5. Þarf líklega púður yfir þegar líða tekur á daginn þar sem farðinn verður frekar glansandi á blandaðri húðgerð.
Chanel Sublimage Le Teint.
Niðurstaða
Er hægt að fá farða sem gerir svipaða hluti en á talsvert lægra verði? Já. Ertu að borga fyrir merkið? Örugglega. Hinsvegar er þessi farði talsvert léttari og meira rakagefandi en margir aðrir sem ég hef prófað og býr yfir færri innihaldsefnum en flestir sambærilegir og það er góðs viti fyrir mína viðkvæmu húð. Það sem útskýrir verðið er að hluta til meðfylgjandi farðabursti og dýr innihaldsefni, þó þau séu ekki í ýkja miklu magni. Ég spurði afgreiðslustúlkuna í Hagkaup hvort fólk væri eitthvað að kaupa svo dýran farða og hún sagði að hann væri mikið seldur svo ég leyfi mér að halda að það sé vegna ágætis hans. Ef þú átt afgang af mánaðarlaununum er þessi farði sannarlega þess virði að prófa, það er ákveðin upplifun að bera hann á sig og farðaburstinn sem fylgir mun nýtast vel. Ef þú átt ekki afgang af mánaðarlaununum en langar í rakagefandi farða mæli ég með til dæmis Guerlain Lingerie de Peau Aqua Nude, Lancome Teint Miracle Foundation eða Becca Aqua Luminous Perfecting Foundation.
Aðrar vörur notaðar:
Helena Rubinstein Lash Queen Wonder Blacks Mascara
Becca Under Eye Brightening Corrector
Anastasia Beverly Hills Brow Wiz
Inika Certified Organic Lip Tint (Candy)
Inika Certified Organic Lip Pencil (Dusty Rose)
Fylgstu með á bakvið tjöldin:
Snapchat: Snyrtipenninn
Instagram: liljasigurdar