Frá Lundúnum yfir í íslenska snyrtivöruheiminn

Íris Björk Reynisdóttir segir lífið leiða mann áfram að því …
Íris Björk Reynisdóttir segir lífið leiða mann áfram að því sem maður gerir hverju sinni.

Hvað gerist þegar ung kona og foreldrar hennar verða leið á störfum sínum og ákveða að kanna hinn íslenska snyrtivöruheim? Úr verður ein stærsta einkarekna snyrtivöruverslun landsins sem fimmfaldaði veltu sína á einu ári. Íris Björk Reynisdóttir, einn eigenda snyrtivöruverslunarinnar Beautybox, fer hér yfir hið lærdómsríka ferðalag við að hefja eigin rekstur í bransa sem hún vissi lítið um.

Sex ár eru liðin frá því að ég stóð í Perlunni í boði sem fyrirtæki að nafni Beautybox hafði boðið í. Þegar ég mætti vissi ég í rauninni ekki hverju væri von á en á efstu hæð Perlunnar heyrðist bassinn langar leiðir út frá lagavali DJ Dóru Júlíu, helstu áhrifavaldar landsins voru mættir og glæsilegar veitingar í boði. Mæðgurnar Íris Björk Reynisdóttir og Valgerður Björk Ólafsdóttir stóðu þarna brosandi og tóku á móti mér og velti ég því fyrir mér hvaða konur þetta væru sem nánast birtust upp úr þurru í íslenska snyrtivöruheiminum og ætluðu sér stóra hluti.

Íris Björk.
Íris Björk.

Fór í förðun til að komast inn í nám

„Beautybox byrjaði í aukaherberginu heima hjá mömmu og pabba og var þar í tvö ár á meðan ég bjó enn þá úti í London. Þegar við byrjuðum að vinna í Beautybox þá sagði ég engum frá því nema mínum allra nánustu. Þó svo við værum að vinna kvölds og morgna og með bilaða ástríðu fyrir því að gera eitthvað nýtt var maður auðvitað alltaf með efasemdir líka. En ef maður reynir ekki eitthvað nýtt þá nær maður aldrei að vaxa og ef manni mistekst þá lærir maður bara á því. En það var eiginlega ekki fyrr en við opnuðum heimasíðuna eftir árs vinnu að fleiri en okkar nánustu fengu að vita af henni,“ rifjar Íris upp en á þeim tíma bjó hún í London þar sem hún stundaði nám við hinn virta London College of Fashion í tískuljósmyndun og stíliseringu.

Hún segist hafa ákveðið að skella sér í förðunarnám í Airbrush and Makeup School til að hafa skapandi nám á ferilskránni og eiga þannig betri möguleika á að komast inn í námið í London. „Ég ætlaði mér aldrei að vinna við förðun og lengi vel kallaði ég mig ekki förðunarfræðing þar sem ég stundaði fagið ekki eftir námið en förðunin hjálpaði mér að komast inn í ljósmyndanámið og gerði mig að færari ljósmyndara. Það er svo fyndið hvernig lífið leiðir mann áfram og þetta nám varð grunnur að því sem ég er að gera í dag.“

Íris Björk Reynisdóttir og móðir hennar Valgerður Björk Ólafsdóttir í …
Íris Björk Reynisdóttir og móðir hennar Valgerður Björk Ólafsdóttir í skýjunum eftir opnun á stærri verslun Beautybox.

Mesta lukkan að vita ekkert áður

Þegar Íris útskrifaðist hlaut hún viðurkenninguna „Excellence in Creative Fashion Editorial“ fyrir framúrskarandi tískuljósmyndaþætti og bjó í nokkur ár til viðbótar í London þar sem hún vann sem ljósmyndari. „Það var erfið ákvörðun að flytja heim, því ég ætlaði mér í raun og veru aldrei að flytja aftur til Íslands. Svo missti ég svolítið áhugann á tískubransanum og þá í rauninni var ekkert að halda mér úti og ég sá að það voru öðruvísi tækifæri á Íslandi. Mér fannst líka orðið svo gott að koma heim til Íslands og það togaði mig til baka,“ segir Íris en hún sá tækifæri í því að vera með í áskrift mánaðarlegt box af lúxusprufum af mismunandi snyrtivörum svo neytendur gætu ávallt uppgötvað eitthvað nýtt og spennandi en það átti eftir að breytast í netverslun og svo verslun.

„Þegar við foreldrar mínir, Valgerður Björk Ólafsdóttir og Reynir Jóhannsson, byrjuðum á þessu verkefni vorum við algjörlega græn. Við fengum þessa hugmynd og byrjuðum að vinna í henni án þess að vita neitt um snyrtivörubransann eða rekstur netverslunar. Ég held að það hafi einmitt verið okkar mesta lukka því ef við hefðum vitað hvað við værum að koma okkur út í þá hefðum við örugglega bara aldrei byrjað. Maður lærir einfaldlega best af því að gera hlutina og eina sem maður þarf í raun og veru að gera er bara að byrja og læra á leiðinni. Við lásum bækur, stúderuðum heimasíður, töluðum við allar heildsölur sem vildu hitta okkur, stúderuðum snyrtivörubransann fram og til baka, lásum um innihaldsefni og formúlur, horfðum á endalaus youtube-myndbönd og sóttum námskeið. Við erum enn að gera það og lærum eitthvað nýtt alla daga. Það gerist allt mjög hratt í þessum heimi, bæði netverslunum og snyrtivörum. Það er mikið um nýjungar og maður þarf alltaf að vera að fylgjast með og hafa puttann á púlsinum, sem er mjög gaman,“ segir Íris.

Dr. Dennis Gross DRx SpectraLite FaceWare Pro, 88.590 kr.
Dr. Dennis Gross DRx SpectraLite FaceWare Pro, 88.590 kr.

Pabbi keyrði út pakkana

„Við opnuðum netverslunina árið 2017 og ég sá um vefinn, samskipti við heildsölur, auglýsingar og samfélagsmiðla en pabbi sá um tæknilegu hliðina ásamt því að keyra pakka út á kvöldin en við vildum bjóða upp á hraða þjónustu svo okkar fyrstu kúnnar á höfuðborgarsvæðinu kannast kannski við að pabbi bankaði upp á hjá þeim fyrsta árið,“ segir Íris og hlær en mamma hennar sá um bókhaldið, enda bókari að mennt, ásamt því að panta inn, pakka og senda. Íris segir það taka ákveðinn toll að vera alltaf með vinnuna heima hjá sér svo ákveðið var að opna verslun. „Við opnuðum fyrstu verslunina okkar í febrúar 2020 á Langholtsvegi og stuttu síðar skall kórónuveiran á. Við héldum nýju versluninni okkar lokaðri stóran hluta af Covid, því lítið mátti bregða út af í svona litlum rekstri, en litla netverslunin okkar fimmfaldaði veltuna á einu ári og við vorum fljót að sprengja fyrsta húsnæðið af okkur og fluttum í Síðumúla 22 fyrir ári,“ segir Íris og þakkar árangurinn því að vinna með meðeigendum sem hún treystir fullkomlega: „Ég á fyrirtækið með foreldrum mínum og gæti ekki ímyndað mér betri samstarfsfélaga. Það halda margir að ég eigi Beautybox ein en það er alls ekki raunin, foreldrar mínir, sem eru á sjötugsaldri, eru harðduglegasta og klárasta fólk sem ég þekki og ekkert af þessu væri til nema fyrir okkar samstarf.“

Íris segist ávallt hafa átt gott samband við foreldra sína en var þó ekki alveg viss með samstarfið í byrjun: „Áður en ég flutti heim þá hugsaði ég alveg með mér í gríni: „Úff er ég að fara að vinna með þeim alla daga?“ en það hefur gengið eins og í lygasögu og ég veit engin meiri forréttindi en að eiga þetta samband og fá að vinna með þeim á hverjum degi. Áður en við byrjuðum að vinna í Beautybox vorum við öll í vinnu sem við vorum frekar leið í, mikið að vinna ein og ekkert sem dreif okkur áfram en í dag er hver einasti dagur viðburðaríkur. Okkar helsta vandamál er kannski að við vinnum allt of mikið,“ segir Íris og segir snyrtibransann mun skemmtilegri en ljósmyndunarbransann.

Alger græjukona

Beautybox er nú ein stærsta einkarekna snyrtivöruverslun landsins og er með hvorki meira né minna en 72 vörumerki í sölu. Það vakti athygli þegar verslunin hóf sölu á led-andlitstækjum frá dr. Dennis Gross og örstraumstækjum frá NuFace en þarna voru komin á íslenskan markað einstaklega öflug tæki til heimanotkunar svo fólk gat sett enn meiri kraft í húðumhirðuna. „Ég er algjör græjukona, einfaldlega elska tækni og nýjungar og led-andlitstækið frá dr. Dennis Gross er í algjöru uppáhaldi hjá mér ásamt NuFace-örstraumstækinu. Þessi tæki frá báðum þessum merkjum eru þekkt á alþjóðavettvangi svo mig langaði að hafa þau í boði fyrir fólk sem vill enn meiri virkni. Eitt það skemmtilegasta við starfið er að maður fær að prófa óteljandi snyrtivörur á hverju ári og því breytist topplistinn stundum ört en ég hef átt NuFace-tækið í fimm ár og dr. Dennis-tækið í tvö ár og það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir þau,“ segir Íris en umrædd tæki hafa notið gífurlegra vinsælda og virðist verðmiðinn ekki stöðva fólk.

Mikil þróun hefur orðið á íslenskum snyrtivörumarkaði, bæði hvað viðkemur framboði á vörumerkjum og þjónustu en einnig eru Íslendingar mun meðvitaðri og áhugasamari um húð- og snyrtivörur. Sjálf nýt ég þess að heimsækja mismunandi snyrtivöruverslanir reglulega og finnst alltaf jafn gaman að heimsækja Beautybox, fá ilmandi kaffibolla og gleyma mér í umræðum um nýjustu snyrtivörurnar. Það er áberandi góður og afslappaður andi í versluninni, allar spurningar velkomnar og greinilegt að ástæða er fyrir hinum skjóta vexti verslunarinnar. „Við vildum frá upphafi skera okkur úr með því að láta fólki líða vel í versluninni, taka okkur tíma í að aðstoða það við val á réttu vörunum og auðvitað senda þau skilaboð að það sé eðlilegt að eldast eða fá bólur og enginn kippi sér upp við það nema maður sjálfur,“ útskýrir Íris og segir að lokum að snyrti- og húðvörur noti maður fyrst og fremst fyrir sjálfan sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál