Það getur reynt á þolinmæðina að vera með viðkvæma húð eða jafnvel rósroða. Oft þarf að prófa sig áfram til að finna eitthvað sem húðin er sátt við og finna ákveðið jafnvægi. Minna er þó oft meira þegar kemur að viðkvæmu húðgerðunum og æskilegt er að halda sig við mildar formúlur. Of margar vörur á sama tíma, of mörg innihaldsefni eða of sterkar formúlur kunna að valda ertingu.
Mild húðhreinsun
Það kann að vera freistandi að grípa í eitthvað öflugt þegar manni líður eins og húðin sé að óhlýðnast. En þá er einmitt tíminn til að gefa henni svigrúm, nota mildar hreinsivörur og gefa henni tækifæri til að finna sitt eigið jafnvægi. Simply Clean-andlitshreinsirinn frá SkinCeuticals er frábær fyrir venjulega, blandaða og olíukennda húð en formúlan hreinsar húðholur, leysir upp dauðar húðfrumur og róar húðina á sama tíma. Ef þú ert með frekar þurra húð sem almennt þolir illa hreinsun er tilvalið að prófa Ultra Sensitive Cleansing Lotion frá Eucerin. Þessi formúla er án allra óæskilegra efna en virkar vel. Stöku sinnum getur verið gott að djúphreinsa húðina en þá skal yfirleitt forðast skrúbba og nota formúlur sem byggja á ensímum. Enzymatic Powder frá Skin Regimen er frábær formúla sem djúphreinsar húðina en þegar púðrinu er blandað við vatn verður það að froðu. Ensímin í formúlunni örva losun dauðra húðfruma og formúlan dregur í sig umframhúðfitu svo húðin verður áferðarfallegri og ljómandi.
Ilmefnalausar húðvörur
Nóg er til af frábærum andlitskremum á markaðnum en þegar húðin er viðkvæm og þú hefur jafnvel verið greind með rósroða af húðlækni þarf að finna gott andlitskrem sem einnig er ilmefnalaus. Ilmefni eru af ýmsum toga en oftast er best að sleppa þeim algjörlega. Eitt af bestu andlitskremunum fyrir viðkvæma húð sem glímir við roða er Redness Neutralizer frá SkinCeuticals. Þetta er róandi krem sem styrkir ysta lag húðarinnar og dregur úr roða og endurtekinni ertingu húðarinnar. Formúlan er án ilmefna, sílikona, litarefna, alkóhóls og parabena. Annað frábært andlitskrem fyrir viðkvæma húð er La Solution 10 frá Chanel en það inniheldur eingöngu 10 innihaldsefni. Formúlan er laus við ilmefni, alkóhól, olíu og óæskileg rotvarnarefni.
Minna er meira þegar kemur að húðmeðferðum
Öll höfum við lesið um brjálaðar 10-þrepa húðrútínur að hætti asískra kvenna en það gleymist oft í umræðunni að stundum er húðin ekki í standi til að taka við svo mörgum virkum efnum. Hafðu líka í huga að þegar of mörg innihaldsefni eru samankomin kann það að valda ofnæmisviðbrögðum og erfitt er að finna út hvaða efni veldur því. Það er þó alltaf gott að eiga eitt serum sem hjálpar húðinni að finna jafnvægi en serum er öflugur þunnfljótandi vökvi sem borinn er á húðina eftir húðhreinsun og á undan andlitskremi. Til eru serum gegn þurrki, gegn roða, til að draga úr fínum línum og svona mætti lengi telja. Viljir þú aukinn raka í húðina er tilvalið að prófa 1.85 HA Booster frá Skin Regimen. Þetta er sannkölluð rakabomba sem er án ilmefna og óæskilegra aukaefna. Þegar allt er í steik leita margir á náðir Advanced Night Repair frá Estée Lauder en nú er hægt að fá Advanced Night Repair Intense Reset Concentrate en þessi formúla er hugsuð sem næturmeðferð. Öflug andoxunarefni hjálpa húðinni að jafna sig á sama tíma og formúlan róar húðina og styrkir. Útkoman er því húð með minni roða, fallegri áferð og aukinn ljóma.
Sólarvörn er nauðsynleg
Sem betur fer eru fleiri íslenskar konur farnar að átta sig á því að fallegri og unglengri húð verður ekki viðhaldið án sólarvarnar. Mælst er til þess að nota ekki sólarvarnir með minna en SPF 30 og ef þú ert með viðkvæma húð eða rósroða er æskilegt að nota SPF 50. Sublime Skin Color Correct SPF 50 frá Comfort Zone er glæný og spennandi formúla. Öflug sólarvörnin verndar húðina en á sama tíma hægir formúlan á myndun litabletta og öldrunareinkenna á húðinni. Sublime Skin Color Correct SPF 50 býr einnig yfir litarögnum sem jafna húðtóninn og gefur aukinn ljóma. Önnur frábær sólarvörn er Mineral Radiance UV Defense frá SkinCeuticals en þetta er 100% steinefnasólarvörn með lit sem jafnar húðlitinn. Getur virkað sem litað dagkrem en formúlan er án ilmefna.
Förðunarvörur sem hafa góð áhrif á húðina
Undanfarið höfum við séð aukningu á förðunarvörum sem einnig búa yfir húðbætandi eiginleikum. Það getur komið sér vel til að halda húðinni í góðu jafnvægi. Complexion Rescue frá Bare Minerals er góður kostur fyrir þær sem vilja mjög létta þekju, náttúrulegt yfirbragð og sólarvörn. Fyrir þær sem vilja miðlungs eða mikla þekju er Even Better Refresh Hydrating and Repairing Makeup frá Clinique frábær farði. Formúlan endist vel á húðinni, inniheldur peptíð sem búa yfir viðgerðareiginleikum, rakagefandi hýalúrónsýru og salicylic-sýru sem örvar endurnýjun. Hentar öllum húðgerðum.