Óhætt er að segja að brúðkaupsdagurinn sé gjarnan tilfinningaríkur, bæði hjá brúðhjónum og gestum. Það er gott að leyfa tilfinningunum að flæða og enn betra að vita til þess að förðunin muni samt haldast á sínum stað. Tilfinningaheldar snyrtivörur eru því tilvaldar á stóra deginum.
Farðagrunnur
Til að tryggja hámarksendingu förðunarinnar er gott að byrja á sértilgerðum farðagrunni. All Nighter Primer frá Urban Decay eykur endingu farðans um allt að átta klukkustundir. Formúlan er létt og sílikonlaus og sléttir ásýnd húðarinnar með því að fylla upp í fínar línur og svitaholur. Við þurfum ekki lengur steinsteypu til þess.
Farði og hyljari
Farði og hyljari leika stórt hlutverk þegar förðun á að endast í lengri tíma. Hins vegar ýta nokkur lög af möttum, fullþekjandi og endingargóðum farða ekki undir náttúrulega fegurð hjá neinum. Slíkar formúlur gera þó kraftaverk, sé hóflegt magn notað og vel af rakakremi borið á húðina á undan. Til eru farðar sem bæði endast vel og þekja vel en veita húðinni náttúrulega ásýnd með nærandi og rakagefandi innihaldsefnum. Pro Longwear Nourishing Waterproof Foundation frá MAC er frábær formúla til að prófa þegar þú vilt góða þekju án þess að fletja húðina út. Þegar kemur að hyljara er óhætt að segja að hinn nýi Forever Skin Correct Concealer frá Dior haggist ekki á húðinni, enda ætlað að endast í allt að 24 klukkustundir. Þetta er rakagefandi formúla sem þornar þó í mattara lagi og má nota undir augu, til að fela roða, yfir bólur eða einfaldlega til að fá lýtalausa ásýnd.
Púður
Notaðu púður sparlega yfir þau svæði sem þú telur að framkalli olíumyndun yfir daginn. Nýverið kom á markað Waterproof Setting Powder frá GOSH en þetta er fislétt púður sem á ótrúlegan hátt festir farðann algjörlega í sessi, gerir hann vatnsheldan og kemur í veg fyrir að hann renni til.
Kinnalitur og sólarpúður
Líklega endast kinnalitur og sólarpúður gjarnan skemur en annað í förðuninni. Það er þó alltaf að aukast úrvalið af góðum formúlum í þeim efnum en Stay Naked Threesome frá Urban Decay er ný vara. Þessi þrenna af sólarpúðri, ljómapúðri og kinnalit er hentug í öll snyrtiveski og endist á húðinni í hvorki meira né minna en 14 klukkustundir. Púðurformúlurnar eru mjúkar og auðvelt að blanda þeim á húðinni. Stay Naked Threesome kemur í þremur litasamsetningum.
Augnförðun
Endingargóðir kremaugnskuggar eru okkar bestu vinir þegar planið er að sjá til hvert kvöldið leiðir okkur. Long-Wear Cream Shadow Stick frá Bobbi Brown er skotheld formúla og litatónarnir klassískir og fara öllum vel. Til að ramma inn augun eru umhverfisvænu Woody Eye Liner-blýantarnir frá GOSH tilvaldir en þeir koma í sex litatónum og haldast á augunum allan daginn og til að fullkomna augnförðunina er vatnsheldur maskari góður kostur. Lancôme Hypnôse Doll Eyes Waterproof er vatnsheldur maskari sem greiðir augnhárin, krullar þau og eykur umfang þeirra án þess að renna til.
Varir
Svo varaliturinn endist lengur er best að byrja á að móta varirnar með endingargóðum varalitablýanti. Það er ekkert því til fyrirstöðu að þekja varirnar alveg með blýantinum og nota hann þannig sem varalit, jafnvel setja smá varasalva eða gloss yfir. LipLiner InkDuo frá Shiseido eru silkimjúkir og endingargóðir varalitablýantar sem auðvelt er að móta varirnar með en hinum megin er svo glær formúla til að mýkja og slétta varirnar. BarePro Longwear Lipstick frá BareMinerals er einnig tilvalið að nota þegar þú vilt varalit sem endist í gegnum súrt og sætt. Formúlan er sömuleiðis hlaðin nærandi innihaldsefnum.