Nýtt ár kallar á ný tækifæri og nýja orku. Eftir annasemi desember-mánaðar er ekki úr vegi að taka til í tilverunni og anda að okkur ferskum straumum og stefnum.
Til þess að það gangi sem best að taka inn nýja orku þarftu að losa þig við það sem tilheyrir fortíðinni. Það er gott fyrir sálin að taka til í skúffum og skápum, bílskúrum og háaloftum. Fataskápurinn þarf reglulega yfirhalningu og það getur verið ágætt að taka allt úr honum, fara yfir hverja einustu flík og meta hvort hún passi við uppfærða útgáfu af þér á nýju ári.
Í vikunni handþvoði ég föt, straujaði skyrtur og kjóla og fór yfir fataskápinn. Hvatvíst fólk með áhuga á fötum á það til að sanka að sér óþarfa sem framkallar augnabliks-bliss en eldist illa. Það er alveg sama hvað hvatvísir fagurkerar reyna að vanda sig mikið í að kaupa engan óþarfa þá slæðist alltaf eitthvað með.
Eiginmaður minn spurði hvers vegna stæði á því að það lægju oft föt á hjónarúminu þegar hann kæmi heim úr vinnunni. Hann fer yfirleitt á undan mér út úr húsi og ef ég er annars hugar á ég það til að máta nokkur sett af fötum áður en réttu fötin finnast. Það datt af honum andlitið þegar ég sagði þetta. Hann tengdi ekki við neitt. Sem er ekkert skrýtið. Það er ekki eins og það sjáist á klæðaburði mínum að hann sé að fara yfir öll tímamörk og sé útpældur.
Hann er hins vegar að venjast því þegar ég tek mig til og sel hluti af heimilinu eða úr fataskápnum þótt honum hafi vissulega fundist það framandi til að byrja með. Það fylgir því einhver sálarró að losa það sem ekki er notað og leyfa öðrum að njóta þess. Þess vegna fannst mér eðlilegt að spyrja krakkana okkar hvort þau ættu ekki eitthvað sem þau notuðu ekki lengur og myndu vilja selja. Tólf ára sonurinn á heimilinu spurði móður sína hvort við ættum ekki lengur fyrir mat og þyrftum að fjármagna okkur með fatasölu.
Ég neitaði því og sagði að í mínum huga væri jafnsjálfsagt að selja úr fataskápnum sínum eins og að flokka rusl og fara í endurvinnsluna. Það síðastnefnda er einmitt á dagskránni og ég hlakka til að burðast með pokana úr skottinu á bílnum, bíða í röð og vona að dósirnar fari ekki út um allt og horfa svo á eftir gömlum syndum fara á vit nýrra ævintýra. Það er eitthvað við það að endurvinna, endurnýta og fara vel með sem er svo mikið 2022.
Erlendir tískusérfræðingar spá því að gömul merkjavara muni gera allt vitlaust á árinu og ein helsta tískufyrirmyndin verði Díana heitin prinsessa af Wales. Þegar þú verður komin með perlufesti um hálsinn og búin að klippa þig stutt, komin í tvíhnepptan jakka, pils sem nær 10 sm fyrir ofan hné og 40 den sokkabuxur þá veistu að þú ert að gera eitthvað rétt í lífinu. Áfram þú!