„Við reynum ávallt að hugsa um hag viðskiptavina okkar og náttúruna á sama tíma,“ segir Dinna Kafton, vöruþróunarstjóri GOSH Copenhagen, um hvernig danska snyrtivörumerkinu hefur tekist að vera á meðal fremstu merkja á markaðnum þegar kemur að ofnæmisvottuðum snyrtivörum í umhverfisvænum umbúðum. „Ofnæmisprófunin er framkvæmd af alþjóðlegum samtökum sem skoða vöruna, innihaldsefnin og framleiðsluna. Það er mikið öryggi fólgið í því fyrir neytendur að kaupa ofnæmisvottaða snyrtivöru og það skiptir okkur miklu máli að framleiða vörur án óæskilegra aukefna,“ útskýrir Dinna en nú eru 95% vöruúrvals GOSH Copenhagen ofnæmisvottuð. Þar á meðal er hinn nýi Matte-eyeliner en sjaldgæft er að augnblýantar í fjölbreyttum litatónum séu allir ofnæmisvottaðir.
GOSH Copenhagen hugar að ýmsu fyrir vöruþróun og gott dæmi um það er Woody Eye Liner. „Ef þú ætlar að framleiða eitthvað úr viði ertu að taka frá náttúrunni. Þegar hugmyndin að Woody Eye Liner kom til þá fundum við áströlsk sjálfboðaliðasamtök sem endurbyggja græn svæði sem hafa orðið skógareldum að bráð eða gengið hefur verið of nærri trjánum. Við gerðum því samkomulag við samtökin um að í hvert skipti sem við tökum tré úr náttúrunni þá eru tvö tré gróðusett í staðinn,“ segir Dinna en GOSH Copenhagen hefur að auki verið fremst á meðal jafningja að nota endurnýtt sjávarplast (e. Ocean Waste Plastic), sem hreinsað hefur verið úr hafinu, í umbúðir sínar. Til að styðja enn frekar við lífverur sjávar ættleiddi fyrirtækið skjaldbökur í gegnum World Wildlife Fund (WWF) en skjaldbökur eru í mikilli hættu á að festast í fljótandi plasti sem því miður má finna í auknum mæli í höfum jarðar.
GOSH Copenhagen hjálpar ekki einungis skjaldbökum heldur er merkið með öll dýr í huga. „Við erum alltaf að auka hlutfall vegan-vara hjá okkur og nú er tæplega 80% af vöruúrvali okkar orðið vegan,“ segir Dinna en allar vörurnar eru framleiddar í Evrópu og ekki prófaðar á dýrum. „Okkur bauðst að hefja sölu á vörum okkar í Kína, sem er auðvitað risastór markaður, en það þýddi einnig að við hefðum þurft að hefja prófanir á dýrum því það er krafa frá stjórnvöldum þar í landi. Við neituðum því að sjálfsögðu, við höfum ekki hjarta í dýraprófanir og munum aldrei framkvæma slíkanir prófanir á vörum okkar,“ staðfestir Dinna.
Dinna segist hafa alla í huga þegar hugmyndavinna og þróun á nýjum vörum á sér stað. Allir aldurshópar, húðgerðir og kyn geta fundið vörur við sitt hæfi hjá GOSH Copenhagen en óhætt er að segja að vörurnar séu í miklu uppáhaldi hjá þeim sem eru með viðkvæma húðgerð. „Við vorum einmitt að setja á markað nýja vöru sem nefnist Primer+ Anti-Redness en formúlan sameinar grænan litartón, sem hlutleysir roða í húðinni, og litaragnir sem aðlagast húðtóni þínum. Þannig færðu jafna og heilbrigða ásýnd á örskotsstundu,“ útskýrir Dinna og heldur áfram: „Einnig vorum við að koma með á markað nýjan farða sem nefnist Hydramatt Foundation en hann er fullkominn fyrir venjulegar og blandaðar húðgerðir. Þetta er léttur farði sem inniheldur efni bæði til að veita húðinni raka og draga úr ásýnd svitahola og kemur í 24 litatónum.“
Brow Lift frá GOSH Copenhagen fór á ljóshraða um samfélagsmiðla og er ein umtalaðasta vara sem GOSH Copenhagen hefur sett á markað en annar hver Íslendingur virtist vera með vöruna í tösku sinni. „Það er gífurlega vinsælt að fara á snyrtistofu í augabrúnalyftingu en það er bæði dýrt, endist ekki lengi og í Covid-faraldrinum voru snyrtistofur lokaðar. Okkur datt því í hug að þróa og framleiða vöru sem auðveldaði konum að framkalla heima fyrir það sem þær voru vanar að fá á snyrtistofu,“ útskýrir Dinna. Vinsældir vörunnar ætla engan enda að taka og kölluðu viðskiptavinir eftir formúlunni í lit. GOSH Copenhagen hefur því nú sett Brow Lift á markað í tveimur mismunandi litum og hannað vöruna þannig að hún liti eingöngu hárin en ekki húðina. GOSH Copenhagen er sannarlega merki til að fylgjast með og eru fleiri spennandi nýjungar væntanlegar á markað á næsta ári.