Klæðaburður Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta hefur vakið athygli á undanförnum mánuðum. Forsetinn klæðist nefnilega aldrei jakkafötum, ekki einu sinni þegar hann ávarpaði Bandaríkjaþing á síðasta ári, og ekki heldur þegar hann tók á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta í Kænugarði í upphafi vikunnar.
Selenski klæðist alltaf svokölluðum cargo-buxum og peysu, oft í grænum lit eða svörtu. Peysan er þó meira en bara peysa eða merki um afslappaðan stíl stjórnmálamanns, eins og Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti eða Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafa verið þekktir fyrir. Dylan Jones, blaðamaður Telegraph, leiðir að því líkum að peysan sé umfram allt pólitísk yfirlýsing.
Í gegnum tíðina hefur klæðnaður þjóðarleiðtoga á stríðstímum skipt máli. Og hann gerir það líka núna á tímum samfélagsmiðla. Forsetinn getur ekki sótt styrk í bakgrunn sinn í úkraínska hernum, en fötin hans segja allt sem segja þarf. Hann stendur með hernum, hann stendur með sínu fólki á stríðstímum. Þegar hann hitti Biden, kölluðu fötin á frið og hjálp.
Klæðaburður Selenskís er líka andstæðan við klæðaburð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Pútín stendur í ræðupúltinu í tvær klukkustundir í Loro Piana-jökkum sem kosta 1,7 milljónir króna og með Blancpain Grande Date Aqua Lung-úr sem kostar 1,5 milljón króna.
Blaðamaður Telegraph var staddur í Úkraínu í vikunni og ræddi þar við íbúa í Lviv. Sögðust þeir allir standa með forsetanum. „Hann er maður fólksins og hann lítur út eins og maður fólksins,“ sagði einn.
Á morgun er ár síðan Rússar hófu innrás sína í Úkraínu og að verða komið ár síðan Úkraínuforseti skipti út hinum hefðbundnu stjórnmálamannajakkafötum fyrir forsetapeysuna.
Heimsbyggðin virðist þó ekki hafa velt því sértstaklega fyrir sér að Selenskí klæddist aldrei jakkafötum lengur fyrr en í desember á síðasta ári þegar hann heimsótti Bandaríkin. Vakti það meðal annar athygli á Twitter og fleiri samfélagsmiðlum að Úkraínuforseti væri ekki í jakkafötum í heimsókn sinni í þingið.
Selenskí stakk líka í stúf í heimsókn sinni í Evrópuþingið í Brussel fyrr í þessum mánuði, þegar hann var svo gott sem eini stjórnmálamaðurinn sem klæddist ekki jakkafötum.
Einhverjir byrjuðu þó að taka eftir klæðaburði Selenskís fyrr. Þar á meðal er Macron Frakklandsforseti sem sást í hettupeysu í mars á síðasta ári.