Naut þess að prjóna brúðarkjólinn

Sveitabrúðkaupið var tekið með trompi en þau Sigurrós og Alfreð …
Sveitabrúðkaupið var tekið með trompi en þau Sigurrós og Alfreð klæddust prjónaflíkum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Sigurrós Arnardóttir jarðfræðingur og Alfreð Sindri Andrason slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður héldu útilegubrúðkaup í Landeyjum þann 6. ágúst í fyrra. Brúðhjónin voru í prjónaflíkum sem hæfði stemningunni vel en Sigurrós sá sjálf um að prjóna brúðarkjólinn. 

„Við höfðum lengi verið ákveðin í að gifta okkur en við höfum verið trúlofuð síðan á aðfangadag 2019. Eftir að við keyptum fasteign og eignuðumst barn var ákvörðunin ekki síður af praktískum ástæðum en rómantískum. Við erum hvorugt fyrir mikinn íburð svo hugmyndin um hefðbundna brúðkaupsveislu heillaði okkur ekki. Ég var þó sérlega ákveðin í því að vilja ekki bara fara til sýslumanns, heldur nýta tækifærið og fagna, þar sem þetta er auðvitað stór áfangi,“ segir Sigurrós og í apríl 2022 sáu þau fram á sumar án heimsfaraldurs og ákváðu að kýla á sumarbrúðkaup.

Ósamstæðir dúkar og mismunandi borðbúnaður passaði vel við stemninguna.
Ósamstæðir dúkar og mismunandi borðbúnaður passaði vel við stemninguna. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason.

Hvorki rafmagn né rennandi vatn

Landeyjarnar urðu ekki fyrir valinu fyrir tilviljun. „Við ákváðum eiginlega bara um leið að við vildum gifta okkur í Eyjunni sem er griðastaður tengdafjölskyldunnar minnar í Vestur-Landeyjum, þar sem við eyðum alltaf góðum tíma á sumrin. Úr varð að við buðum okkar nánasta fólki að koma með okkur í útilegu í Vestur-Landeyjum. Við vorum með athöfnina á Landeyjarsandi og slógum svo upp veislutjaldi fyrir veisluna. Sandurinn er svo fallegur staður þar sem við eigum svo margar góðar minningar að okkur fannst mest viðeigandi og skemmtilegt að láta gefa okkur saman þar. Það er líka eitthvað svo fallegt og afslappað við athafnir undir berum himni.“

Það fylgdu því nokkrar áskoranir að gifta sig undir berum himni en sem betur fer fengu hjónin gott veður.

„Veislan var óhefðbundin að því leyti að hvorki rafmagn né rennandi vatn er á staðnum svo það var að ýmsu að huga. Við fengum góða aðstoð við að grilla ofan í gestina, og vorum með nánast allt heimagert. Við þurftum auðvitað mikla hjálp til að láta þetta verða að veruleika en fyrir vikið skapaðist mjög góð stemning. Andrúmsloftið var afslappað og allir á sínum forsendum. Við buðum til dæmis öll börn og hunda velkomin með, svo gestirnir gætu ákveðið sjálfir hvort þau kæmu í fjölskylduferð eða ætluðu að djamma fram eftir nóttu. Þetta var að okkar mati fullkomið og mikið ævintýri fyrir gestina að jeppast niður að sandi,“ segir Sigurrós.

Brúðhjónin mættu á fjórhjólum.
Brúðhjónin mættu á fjórhjólum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þrátt fyrir að hafa ekki viljað fara til sýslumanns eins og áður sagði vildu þau heldur ekki fá prest til að gefa sig saman. Siðmennt varð því fyrir valinu. „Við fengum Ingibjörgu Sædísi frá Siðmennt til að stýra athöfninni og gefa okkur saman. Við erum ekki trúuð og því fannst okkur mikilvægt að þessi stóra stund í okkar lífi væri ekki á trúarlegum forsendum. Ingibjörg var frábær í verkið og gestirnir höfðu orð á því hvað athöfnin hefði verið falleg og skemmtileg.“

Prjónaði brúðarkjól og barnakjól

„Fljótlega eftir að við ákváðum að gifta okkur úti fór ég að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að vera klædd, og hugmyndin um prjónaðan kjól kom mjög fljótt til mín. Ég notaði uppskrift sem heitir Augustins no. 21. Ég hafði séð þessa uppskrift á Instagram og sá strax fyrir mér að þetta yrði kjóllinn. Það bara var einhvern veginn aldrei spurning um annað í mínum huga, en að þetta væri rétti kjóllinn svo ég þurfti ekki mikið að velta mér upp úr því eða að skoða aðra möguleika,“ segir Sigurrós um hvernig henni datt í hug að prjóna kjólinn.

Sigurrós er þaulvön handavinnukona og eru ömmur hennar og móðir fyrirmyndir hennar. „Ég hef haft áhuga á handavinnu svo lengi sem ég man eftir mér. Amma mín vann sem handavinnukennari og var dugleg að leyfa mér að vinna alls konar verkefni og föndur. Reyndar eru báðar ömmur mínar og mamma miklar handavinnukonur svo það var ekki langt að sækja áhugann. Ég byrjaði þó ekki að prjóna af alvöru fyrr en ég fór í Hússtjórnarskólann árið 2014 og hef prjónað mikið síðan þá.“

Kjóll dótturinnar er barnaútgáfa af brúðarkjólnum.
Kjóll dótturinnar er barnaútgáfa af brúðarkjólnum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Hvernig gekk prjónaskapurinn?

„Ég naut þess mikið að prjóna kjólinn. Það tók tæpa tvo mánuði að klára kjólinn en ég byrjaði í júní. Ég var að klára meistaranám á þessum tíma svo ég geymdi prjónaskapinn þangað til ég var búin að verja verkefnið mitt. Kjóllinn er prjónaður á mjög grófa prjóna svo þetta gekk nokkuð hratt fyrir sig þegar ég var komin af stað. Vegna þess hvað þetta gekk hratt þá hafði ég ekki áhyggjur af því að ná ekki að klára, en passaði þó að halda mér vel við efnið því það kom ekki annað til greina en að klára.

Mér fannst liggja beint við þegar ég var komin af stað með að prjóna kjólinn minn, að dóttir okkar, Áróra Sif yrði í kjól í stíl. Það er þó ekki til nein barnauppskrift að þessum kjól svo ég þurfti aðeins að spinna af fingrum fram. Ég ákvað að nota sömu uppskrift en prjóna minnstu stærðina með minni prjónum og nota aðra garnsamsetningu. Ég þurfti að fitja upp nokkrum sinnum til að finna rétta prjónastærð sem gæfi mátulegt hálsmál en eftir það gekk þetta lygilega vel fyrir sig og kjóllinn smellpassaði á hana, sem var eiginlega eins gott því ég var í smá tímapressu með hann. Ég kláraði kjólinn hennar á einni viku, og felldi af í miðri vikunni fyrir brúðkaupið.“

Var maðurinn þinn líka staðráðinn í að vera í prjónaðri flík?

„Þegar ég var búin að leggja á ráðin um kjól fyrir mig og Áróru þá bara lá einhvern veginn beint við að hann myndi líka vera í einhverju prjónuðu. Ég ætlaði fyrst að prjóna líka á hann en sá fljótt að það myndi verða of mikið fyrir mig að prjóna þetta allt saman á svona stuttum tíma svo ég bað tengdamömmu um að sjá um peysuna á son sinn. Hún tók að sjálfsögðu vel í það og prjónaði Gust herrapeysu á hann sem kom svona ljómandi vel út. Ég passaði að velja garn frá sama framleiðanda í allar flíkurnar og því pössuðu litirnir ótrúlega vel saman.“

Faðir brúðarinnar með ræðu.
Faðir brúðarinnar með ræðu. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason.

Langar að breyta kjólnum og nota áfram

Ertu með fleiri stór verkefni á prjónunum?

„Síðan ég prjónaði kjólinn er ég búin að prjóna risastórt sjal, sem var eiginlega meiri áskorun því það var svo fíngert og tók svo langan tíma. Núna er ég með eina peysu og svo sokkapar á prjónunum. Mér finnst mjög gott að skipta á milli stærri og smærri verkefna, og þá sérstaklega gott að prjóna eitthvað lítið og fljótlegt eftir að ég er búin með eitthvað stórt og krefjandi. Stærsta áskorunin mín núna er þó að nota garnið sem ég á til, bæði afgangar af öðrum verkefnum og garn sem varð aldrei neitt úr að prjóna. Eitt af verkefnunum sem ég er að leggja á ráðin um er til dæmis að stytta brúðarkjólinn minn og nota hluta af garninu í peysu. Mér finnst algjör synd að hann liggi óhreyfður inni í skáp svo mig langar bæði til að stytta hann svo ég geti notað hann aftur, og nota garnið sem úr verður í eitthvað hversdagslegt. Mér finnst mjög skemmtileg tilhugsun að geta verið í peysu sem er prjónuð upp úr brúðarkjólnum mínum,“ segir Sigurrós.

Varðeldur um kvöldið.
Varðeldur um kvöldið. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason.
Sigurrós með ömmum sínum og móður.
Sigurrós með ömmum sínum og móður. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál