Eigendur Spjöru hafa tekið ákvörðun um að loka fataleigunni og selja lagerinn. Þetta kom fram á Instagram-síðu fyrirtækisins. Stofnendur Spjöru eru félagssálfræðingarnir Kristín Edda Óskarsdóttir og Sigríður Guðjónsdóttir.
„Við höfum ákveðið að leggja niður seglin hjá Spjöru og loka leigunni. Við höfum mjög skýra sýn um framtíðina í tísku, höfum lagt allt í að gera þá sýn að veruleika og koma fataleigunni á kortið hjá Íslendingum,“ segja þær.
„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ætlum að loka þessum kafla. En það þarf engum blöðum um það að fletta að umhverfið fyrir nýsköpun í tískubransanum er galið erfitt. Þó að við höfum hallað þessari hurð Spjöru þá höfum við ekki alveg sagt okkar síðasta.“
Þær eru ótrúlega stoltar af verkefninu og þeim árangri sem hefur náðst á stuttum tíma. „Við höfum gefið út fatalínu með framúrskarandi fatahönnuðum og tekið þrisvar sinnum þátt í Hönnunarmars. Við erum stoltar af leiðinni sem við fórum, að hverfa aldrei frá gildum og kjarna og þar með tekist að hafa áhrif á ásýnd hringrásartísku.
Þegar við lítum til baka yfir síðustu ár þá er það sem stendur upp úr óneitanlega allir leigjendurnir okkar og vináttutengslin sem hafa skapast. Kjólarnir okkar eiga margir hverjir svo skemmtilegar sögur og við höfum fengið að taka þátt í stórum lífsviðburðum hjá svo mörgum af okkar leigjendum. Við erum óendanlega þakklátar fyrir viðtökurnar og öllum þeim sem tóku þátt í að móta Spjöru og öllum þeim ævintýrum sem fylgdu.“
Hugmyndin varð til árið 2020 í Spjaraþoni Umhverfisstofnunar sem gekk út á að finna lausnir við textílsóun. Fataleigan Spjara bar sigur úr býtum og ákváðu þær að láta reyna á að gera hugmyndina að veruleika. Markmiðið var að gera fólki kleift að neyta og njóta tísku með umhverfisvænni hætti og án mikillar fyrirhafnar. Fataleigan bauð upp á fatnað meðal annars frá Stine Goya, Rodebjer, Ganni, Prada og Isabel Marant.
Árið 2021 fór leiguvefur Spjöru í loftið og voru viðtökurnar framar vonum. Í ágúst 2023 opnuðu þau rými á Hallgerðargötu í Reykjavík.
Á morgun, 18. janúar, verður lagerinn seldur í verslun Spjöru á Hallgerðargötu 19-23 á milli 12-17.