„Þetta var frekar jafn leikur. Við sofnuðum tvisvar á verðinum og fengum mark á okkur með hálfgerðum sofandahætti. Annars fannst mér þetta nokkuð jafnt,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 1:0-tap gegn Selfossi í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í dag.
„Það vantaði bit í sóknina og við vorum mögulega komnar svolítið í slökun. Það vantaði kraftinn fram á við. Það getur alveg verið að hléið hafi haft einhver áhrif en þeir sem hafa verið að greina okkur átta sig á því að sóknarleikurinn er aðeins dapur á venjulegu grasi. Ég ætla ekki að kenna því um í dag en við höfum smá verið að glíma við að vera ekki nógu fljótar í sóknarleiknum á venjulegu grasi,“ bætti Kjartan við.
Er Fylkir orðið gervigraslið?
„Ég held það bara,“ sagði Kjartan og hló. „En já, það vantaði bara smá kraft fram á við og við vorum helst til værukærar.“
Þrátt fyrir að leikurinn væri ekki erfiður að dæma voru Fylkiskonur ósáttar við dómarann og eftir leik fékk Cecilía Rán Rúnarsdóttir, markvörður Fylkis, sitt annað gula spjald og þar með rautt.
„Ég held bara að stelpurnar hafi verið gríðarlega ósáttar við dómarann og það vorum við líka. Þær voru ósáttar við hvernig hann svaraði þeim; sagði þeim að halda kjafti og hætta þessu væli og slíkt. Ég ætla ekki að segja neitt meira en stelpurnar voru gríðarlega ósáttar,“ sagði Kjartan og bætti við að dómgæslan hefði ekki ráðið neinu varðandi úrslitin í leiknum.
„En eigum við ekki bara að segja að það sé gott að hafa góð samskipti manna á milli? Mér fannst hann dæma þetta ágætlega, en rétt eins og ég og aðrir þá þurfum við að haga okkur og segja fallega hluti,“ sagði Kjartan að lokum.