Eva til liðs við FH-inga

Eva Núra Abrahamsdóttir í leik með FH í úrvalsdeildinni fyrir …
Eva Núra Abrahamsdóttir í leik með FH í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnukonan reynda Eva Núra Abrahamsdóttir er gengin til liðs við FH-inga en hún lék með Selfossi á síðasta tímabili.

Eva er miðjumaður, 28 ára gömul, og lék áður með FH í úrvalsdeild og 1. deild á árunum 2018 til 2020. Þar á undan spilaði hún með Fylki og Haukum og á samtals að baki 126 leiki í úrvalsdeildinni og þá hefur Eva leikið einn A-landsleik fyrir Íslands hönd, ásamt 12 leikjum fyrir yngri landsliðin á sínum tíma.

FH missti naumlega af sæti í úrvalsdeildinni síðasta haust en þykir afar sigurstranglegt í 1. deildinni í ár og var sett í efsta sætið í hinni árlegu spá fyrir deildina fyrr í þessari viku.

Hafnarfjarðarliðið hefur fengið talsverðan liðsauka en liðið fékk m.a. bandarísku leikmennina Colleen Kennedy og Shaina Ashouri frá Þór/KA og þá kom Kristin Schnurr til FH á dögunum frá Kalmar í Svíþjóð.

FH hefur keppni í 1. deildinni í kvöld og mætir þá erkifjendunum í Haukum á Ásvöllum klukkan 19.15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert