Baldur kominn í fámennan hóp

Baldur Sigurðsson skorar fyrir Völsung í leik gegn Magna fyrr …
Baldur Sigurðsson skorar fyrir Völsung í leik gegn Magna fyrr í þessum mánuði. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Baldur Sigurðsson komst á miðvikudagskvöldið í fámennan hóp þeirra íslensku knattspyrnumanna sem hafa leikið 400 deildaleiki á ferlinum.

Baldur leikur í ár með uppeldisfélagi sínu, Völsungi á Húsavík, í 2. deild karla og spilaði með því á heimavellinum gegn Austfjarðaliðinu KFA, þar sem hann tók þátt í sannfærandi sigri Húsvíkinga, 5:2. Hann var fyrirliði Völsungs í leiknum og lék allar 90 mínúturnar.

Af þessum 400 leikjum Baldurs eru 363 á Íslandi, 22 í Noregi og 15 í Danmörku. Þann fyrsta lék hann með Völsungi gegn Neista frá Hofsósi í 3. deild 9. júní árið 2001, þá nýorðinn 16 ára gamall. Baldur skoraði þar eitt marka Völsungs í 6:2 sigri en þjálfari Neista í þeim leik var Vanda Sigurgeirsdóttir, núverandi formaður KSÍ.

Baldur lék í fjögur ár með Völsungi og fór tvisvar með liðinu upp um deild en skildi við félagið eftir eitt ár með því í 1. deildinni. Hann gekk til liðs við Keflvíkinga fyrir tímabilið 2005 og lék með þeim í tæplega þrjú ár í úrvalsdeildinni. Hann varð bikarmeistari með Keflavík árið 2006 og skoraði í úrslitaleiknum gagn KR.

Baldur Sigurðsson í leik með Keflavík gegn FH árið 2005.
Baldur Sigurðsson í leik með Keflavík gegn FH árið 2005. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Þaðan lá leiðin til Bryne í Noregi þar sem Baldur lék í norsku B-deildinni á lokaspretti tímabilsins 2007 og svo árið eftir.

Hann sneri aftur til Íslands fyrir tímabilið 2009 og lék með KR í sex ár þar sem hann og félagið áttu mikilli velgengni að fagna en Baldur varð þrisvar bikarmeistari og tvisvar Íslandsmeistari með KR-ingum. Hann skoraði fyrir KR í bikarúrslitaleikjunum 2011 og 2012.

Baldur Sigurðsson tekur við bikar sem fyrirliði KR-inga.
Baldur Sigurðsson tekur við bikar sem fyrirliði KR-inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur fór til Danmerkur árið 2015 og lék hálft annað tímabil með SönderjyskE í úrvalsdeildinni þar í landi.

Hann sneri aftur heim og spilaði með Stjörnunni í fjögur ár, 2016 til 2020, og bætti enn einum bikarmeistaratitlinum í safnið árið 2018.

Baldur Sigurðsson tekur við bikarnum sem fyrirliði Stjörnunnar eftir sigur …
Baldur Sigurðsson tekur við bikarnum sem fyrirliði Stjörnunnar eftir sigur liðsins í bikarkeppninni árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Baldur lék síðan með FH-ingum árið 2020 en kvaddi eftir það úrvalsdeildina, var spilandi aðstoðarþjálfari Fjölnis í 1. deild árið 2021 og leikur nú með Völsungi.

Af þessum 400 leikjum Baldurs eru 264 í efstu deild hér á landi og hann er áttundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar. Þá hefur hann skorað 79 deildamörk á ferlinum, 55 þeirra í efstu deild á Íslandi.

Baldur á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd, vináttuleiki á árunum 2009 og 2010, fimm leiki með 21-árs landsliðinu og fimm með U19 ára landsliðinu.

Baldur er 34. íslenski knattspyrnumaðurinn sem nær þeim stóra áfanga að spila 400 deildaleiki á ferlinum og annar á þessu ári á eftir Birki Má Sævarssyni úr Val. Lista yfir alla þá leikmenn sem hafa leikið 400 leiki og meira á ferlinum má sjá í bókinni Íslensk knattspyrna 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka