Þegar Kjartan Henry Finnbogason kom FH yfir gegn Fram úr vítaspyrnu í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Úlfarsárdal í gærkvöld náði hann stórum áföngum á ferlinum.
Kjartan skoraði þarna sitt 50. mark í efstu deild hér á landi en hann hafði áður skorað 49 mörk fyrir KR í deildinni og er þar í fjórða til fimmta sæti yfir þá markahæstu í sögu félagsins. Á eftir Óskari Erni Haukssyni, Ellert B. Schram og Björgólfi Takefusa og jafn Þórólfi Beck.
Kjartan er sextugasti leikmaðurinn í sögu efstu deildar sem nær að skora 50 mörk á ferlinum. Af þeim leika aðeins sjö aðrir í deildinni í ár, sem eru eftirtaldir:
100 Steven Lennon, FH og Fram
87 Patrick Pedersen, Val
63 Hilmar Árni Halldórsson, Stjörnunni og Leikni R.
56 Kristinn Steindórsson, Breiðabliki
53 Matthías Vilhjálmsson, FH (nú í Víkingi)
50 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA og Víkingi R.
50 Elfar Árni Aðalsteinsson, KA og Breiðabliki
50 Kjartan Henry Finnbogason, FH og KR
Þá er Kjartan Henry sá níundi í hópi íslenskra knattspyrnumanna, í karlaflokki, sem hafa skoraði 50 mörk eða meira, bæði í efstu deild á Íslandi og í atvinnudeildum erlendis. Í þeim hópi eru eftirtaldir leikmenn:
Tryggvi Guðmundsson - 131 mark á Íslandi og 62 erlendis
Pétur Pétursson - 72 mörk á Íslandi og 71 erlendis
Helgi Sigurðsson - 67 mörk á Íslandi og 58 erlendis
Ríkharður Daðason - 61 mark á Íslandi og 68 erlendis
Gunnar Heiðar Þorvaldsson - 61 mark á Íslandi og 63 erlendis
Atli Eðvaldsson - 55 mörk á Íslandi og 71 erlendis
Matthías Vilhjálmsson - 53 mörk á Íslandi og 66 erlendis
Teitur Þórðarson - 51 mark á Íslandi og 86 erlendis
Kjartan Henry Finnbogason - 50 mörk á Íslandi og 86 erlendis
Kjartan er markahæstur Íslendinga í dönsku úrvalsdeildinni frá upphafi með 27 mörk fyrir Horsens og Vejle.