Sif Atladóttir náði einstökum áfanga á sunnudaginn þegar hún lék með Selfyssingum gegn Þór/KA í fyrsta leik 8. umferðar Bestu deildar kvenna í fótbolta á Akureyri.
Sif lék þar sinn 350. deildaleik á ferlinum en hún er fyrst íslenskra knattspyrnukvenna til að ná þeim leikjafjölda í deildakeppni, heima og erlendis.
Sif hefur leikið 137 af þessum leikjum hér á landi, 183 í Svíþjóð og 30 í Þýskalandi. Af þeim eru 335 leikir í efstu deildum þessara þriggja landa.
Næstar á eftir Sif í leikjafjölda eru Sandra Sigurðardóttir (340), Hólmfríður Magnúsdóttir (338), Katrín Jónsdóttir (336) og Hallbera Guðný Gísladóttir (332), sem allar hafa lagt skóna á hilluna.
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, lék sinn 150. leik í efstu deild hér á landi þegar Hlíðarendaliðið vann Tindastól, 5:0, í gærkvöld. Þar af eru 96 leikir fyrir Val og 54 fyrir ÍBV en deildaleikir Elísu á Íslandi og í Svíþjóð eru samtals 229 talsins.
Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði fyrstu þrennu tímabilsins í deildinni í sigri Vals gegn Tindastóli. Þetta er fyrsta þrenna Valskvenna í tvö ár, eða frá því Elín Metta Jensen skoraði þrjú mörk gegn Keflavík í lok júní 2021. Bryndís er orðin markahæst í deildinni með sex mörk.
Fanndís Friðriksdóttir kom inn á hjá Val gegn Tindastóli, í sínum fyrsta leik síðan í september 2021, og skoraði sitt 112. mark í deildinni. Fanndís er þrettánda markahæst í sögu deildarinnar og sú eina af fjórtán 100 marka konum Íslandssögunnar sem spilar í deildinni í ár.
Þá komst Fanndís upp í 12. sætið yfir þær leikjahæstu í deildinni í gærkvöld. Þetta var hennar 217. leikur í deildinni og hún jafnaði þar með við Olgu Færseth og Rakel Hönnudóttur sem léku 217 leiki.
Una Móeiður Hlynsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar Þór/KA vann Selfoss, 3:0, á sunnudaginn, en hún lék þá sinn fyrsta leik í byrjunarliði í deildinni. Una er 17 ára gömul og skoraði fjögur mörk fyrir Völsung í 2. deildinni í fyrra, þar sem hún var í láni.
Ísabella Anna Húbertsdóttir skoraði langþráð mark í efstu deild í gærkvöld þegar hún minnkaði muninn fyrir Þrótt gegn Stjörnunni í 1:2. Þetta var hennar fyrsta mark í deildinni, í 53. leiknum. Þar af eru 45 leikir fyrir Þrótt.
Sandra Voitane skoraði 300. mark Keflavíkur í efstu deild þegar hún kom liðinu í 2:0 í leiknum gegn Þrótti í Laugardalnum.
Tahnai Annis, filippseyska landsliðskonan hjá Þór/KA, skoraði sitt fyrsta mark í deildinni í níu ár þegar hún kom Akureyrarliðinu í 3:0 gegn Selfossi. Tahnai lék með Þór/KA árin 2012-2014 og skoraði þá 16 mörk í deildinni, og sneri aftur til félagsins fyrir þetta tímabil.
Birgitta Rún Finnbogadóttir og Elísa Bríet Björnsdóttir, báðar fæddar 2008, komu inn á hjá Tindastóli gegn Val í gærkvöld og spiluðu í fyrsta skipti í efstu deild.
Hildur María Jónasdóttir úr FH lék sinn fyrsta leik í efstu deild í sigrinum gegn Selfossi.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar fékk rauða spjaldið gegn Keflavík í gærkvöld og verður í banni þegar Þróttur sækir Breiðablik heim í níundu umferðinni.
Úrslitin í 8. umferð:
Þór/KA - Selfoss 3:0
ÍBV - Breiðablik 0:3
Þróttur R. - Keflavík 1:2
Stjarnan - FH 0:2
Valur - Tindastóll 5:0
Markahæstar:
6 Bryndís Arna Níelsdóttir, Val
5 Sandra María Jessen, Þór/KA
4 Andrea Rut Bjarnadóttir, Breiðabliki
4 Tanya Boychuk, Þrótti
3 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
3 Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Breiðabliki
3 Linli Tu, Keflavík
3 Melissa Garcia, Tindastóli
3 Shaina Ashouri, FH
3 Taylor Ziemer, Breiðabliki
Næstu leikir:
21.6. FH - ÍBV
21.6. Keflavík - Valur
21.6. Selfoss - Stjarnan
21.6. Breiðablik - Þróttur R.
21.6. Tindastóll - Þór/KA