Haukur Páll Sigurðsson er orðinn leikjahæsti Valsmaðurinn í efstu deild karla í fótbolta frá upphafi.
Haukur Páll sló leikjametið í gærkvöld þegar hann kom inn á sem varamaður í sigri Valsmanna á KR í Vesturbænum, 4:0. Hann lék sinn 245. leik fyrir félagið í deildinni og þar með féll metið sem Bjarni Ólafur Eiríksson átti, 244 leikir. Um leið lék Haukur sinn 280. leik samtals í deildinni og hann er aðeins sjöundi leikmaður deildarinnar frá upphafi sem nær þeim leikjafjölda.
Daníel Laxdal er einn af þeim sex sem hafa leikið fleiri leiki en Haukur Páll og hann komst einmitt upp í fimmta sætið á þeim lista á laugardaginn þegar Stjarnan gerði jafntefli við Breiðablik, 1:1. Daníel hefur leikið 286 leiki í deildinni, alla fyrir Stjörnuna, og fór upp fyrir Atla Guðnason sem er nú sjötti með 285 leiki. Daníel á möguleika á að ná fjórða sæti á þessu tímabili.
Andri Rafn Yeoman úr Breiðabliki er skammt á eftir þeim og hann varð í leiknum við Stjörnuna tíundi leikmaðurinn frá upphafi til að spila 270 leiki í deildinni.
Björn Daníel Sverrisson skoraði sitt 40. mark í efstu deild hér á landi í gærkvöld, fyrra mark sitt af tveimur, þegar FH vann Keflavík, 3:2, í gærkvöld. Hann er sjöundi leikmaðurinn sem nær 40 mörkum fyrir FH í deildinni. Þá varð Björn í gærkvöld fimmti leikjahæstur hjá FH í deildinni en hann lék sinn 202. leik og fór upp fyrir Frey Bjarnason.
Færeyingurinn Jóan Símun Edmundsson úr KA og Úkraínumaðurinn Robert Hehedosh úr Keflavík léku báðir sinn fyrsta leik í efstu deild hér á landi í 17. umferðinni.
Úrslitin í 17. umferð:
Stjarnan - Fram 4:0
Breiðablik - Stjarnan 1:1 (14. umferð)
KA - HK 1:1
Víkingur R. - ÍBV 6:0
Keflavík - FH 2:3
KR - Valur 0:4
Markahæstir í deildinni:
10 Stefán Ingi Sigurðarson, Breiðabliki
9 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
8 Adam Ægir Pálsson, Val
8 Nikolaj Hansen, Víkingi
7 Birnir Snær Ingason, Víkingi
7 Fred Saraiva, Fram
7 Emil Atlason, Stjörnunni
7 Gísli Eyjólfsson, Breiðabliki
6 Aron Jóhannsson, Val
6 Benedikt Daríus Garðarsson, Fylki
6 Guðmundur Magnússon, Fram
6 Ísak Andri Sigurgeirsson, Stjörnunni
6 Kjartan Henry Finnbogason, FH
6 Úlfur Ágúst Björnsson, FH
6 Örvar Eggertsson, HK
5 Danijel Dejan Djuric, Víkingi
5 Eggert Aron Guðmundsson, Stjörnunni
5 Óskar Borgþórsson, Fylki
Næstu leikir:
5.8. ÍBV - Stjarnan
6.8. Breiðablik - KR
8.8. FH - Víkingur
8.8. Fram - Fylkir
9.8. Valur - KA
9.8. HK - Keflavík