Verðum að sækja þessa tilfinningu aftur

Aron Jóhannsson.
Aron Jóhannsson. mbl.is/Óttar

Aron Jóhannsson, sóknarmaður Fram skoraði gríðarlega mikilvægt sigurmark í 2-1-sigri liðsins á KA í 20. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á heimavelli sínum í Úlfarsárdal í kvöld.

Hann var að vonum ánægður með sigurinn, sem fleytti Fram upp úr fallsæti. Aron sagði í samtali við mbl.is að leik loknum að liðið gæti ekki leyft sér að fagna þó það hafi unnið einn leik.

„Þetta er búið að vera tap- og jafnteflishrina ég veit ekki hvað lengi og þetta er fyrsti sigurleikurinn í langan tíma. Það er góð tilfinning og við verðum bara að sækja þessa tilfinningu aftur.“

Við verðum að vera á tánum

Fram heimsækir einn allra erfiðasta útivöll landsins um næstu helgi þegar liðið fer til Keflavíkur í leik sem gestgjafarnir verða að vinna til að eiga einhvern möguleika á að bjarga sér frá falli.

Aron segir Keflavík gríðarlega þétta fyrir á heimavelli sínum og hafi einnig nýtt sínar hröðu sóknir vel.

„Við verðum bara að vera algjörlega tilbúnir í þennan leik og getum ekki farið með neitt vanmat í hann. Við verðum bara að vera á tánum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert