Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaðurinn reyndi í Val, er komin í fjórða sætið yfir leikjahæstu knattspyrnukonur efstu deildar kvenna frá upphafi.
Arna Sif lék sinn 262. leik í deildinni í gær þegar Valur vann Tindastól á Sauðárkróki, 3:0, í 17. umferð Bestu deildar kvenna. Hún jafnaði með því við Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur sem lék 262 leiki fyrir Val, Stjörnuna og Breiðablik og þær deila því fjórða sætinu sem stendur. Arna skoraði jafnframt sitt 45. mark í deildinni í leiknum.
Þær þrjár sem hafa leikið fleiri leiki í deildinni eru Sandra Sigurðardóttir (331), Málfríður Erna Sigurðardóttir (294) og Dóra María Lárusdóttir (269). Arna getur ekki jafnað við Dóru Maríu í þriðja sætinu á þessu tímabili.
Þórhildur Ólafsdóttir úr Keflavík lék sinn 100. leik í deildinni í gær þegar lið hennar mætti Þrótti og vann góðan sigur, 1:0. Þórhildur hefur mest leikið með ÍBV en einnig með Fylki og Þór/KA, og svo með Keflavík á þessu tímabili.
Elín Metta Jensen kom inn á hjá Þrótti gegn Keflavík og lék sinn fyrsta leik fyrir annað lið en Val í deildinni. Elín skoraði 132 mörk í 183 leikjum Vals í deildinni áður en hún lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.
Hrefna Jónsdóttir kom inn á hjá Stjörnunni í sigrinum á FH, 1:0, í Kaplakrika og lék sinn fyrsta leik í deildinni.
Hekla Rán Kristófersdóttir kom inn á hjá Selfossi í ósigri gegn Þór/KA, 1:2, og lék sinn fyrsta leik í deildinni.
Þar sem bæði Keflavík og Selfoss skoruðu í umferðinni hafa öll lið deildarinnar náð að skora 10 mörk á tímabilinu.
Úrslitin í 17. umferð:
FH - Stjarnan 0:1
Selfoss - Þór/KA 1:2
Breiðablik - ÍBV 0:0
Keflavík - Þróttur R. 1:0
Tindastóll - Valur 0:3
Aðeins átta mörk voru skoruð í umferðinni og staða markahæstu kvenna í deildinni breyttist því lítið. Ásdís Karen Halldórsdóttir komst upp í 7. sætið ásamt fleirum með því að skora eitt marka Vals gegn Tindastóli.
Markahæstar:
13 Bryndís Arna Níelsdóttir, Val
7 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
7 Linli Tu, Keflavík/Breiðabliki
6 Andrea Rut Bjarnadóttir, Breiðabliki
6 Katrín Ásbjörnsdóttir, Breiðabliki
6 Sandra María Jessen, Þór/KA
5 Ásdís Karen Halldórsdóttir Val
5 Birta Georgsdóttir, Breiðabliki
5 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
5 Katla Tryggvadóttir, Þrótti
5 Shaina Ashouri, FH
5 Tanya Boychuk, Þrótti
4 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Stjörnunni
4 Holly O'Neill, ÍBV
4 Hulda Ósk Jónsdóttir, Þór/KA
4 Jasmín Erla Ingadóttir, Stjörnunni
4 Karen María Sigurgeirsdóttir, Þór/KA
4 Melissa Garcia, Tindastóli
4 Murielle Tiernan, Tindastóli
4 Olga Sevcova, ÍBV
4 Sierra Marie Lelii, Þrótti
4 Taylor Ziemer, Breiðabliki
4 Þóra Björg Stefánsdóttir, ÍBV
4 Þórdís Elva Ágústsdóttir, Val
Næstu leikir:
27.8. Þróttur R. - Breiðablik
27.8. Tindastóll - Þór/KA
27.8. Stjarnan - Selfoss
27.8. ÍBV - FH
27.8. Valur - Keflavík