21. umferð: Margt sögulegt við sigur Tindastóls

Murielle Tiernan skorar eitt af þremur skallamörkum sínum í sigri …
Murielle Tiernan skorar eitt af þremur skallamörkum sínum í sigri Tindastóls á ÍBV. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Hinn magnaði sigur Tindastóls á ÍBV skyggir á flest annað sem gerðist í 21. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta um helgina en það var jafnframt lokaumferðin í neðri hluta deildarinnar.

Tindastóll vann leikinn 7:2 og þetta er stærsti sigur félagsins í sögunni í efstu deild. Sá stærsti fram að þessu kom í fyrri heimsókn Eyjakvenna á Sauðárkrók í sumar en þá vann Tindastóll 4:1.

Murielle Tiernan varð fyrst í sögunni til að skora þrjú mörk eða fleiri í leik fyrir Tindastól í efstu deild en hún gerði fjögur markanna og þrjú þeirra með skalla á fyrstu 36 mínútum leiksins.

Aldís María Jóhannsdóttir skorar eitt af sjö mörkum Tindastóls gegn …
Aldís María Jóhannsdóttir skorar eitt af sjö mörkum Tindastóls gegn ÍBV. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Murielle varð jafnframt með fjórða markinu fyrsti leikmaður Tindastóls til að skora tíu mörk samtals fyrir félagið í efstu deild.

Tindastóll náði sínum besta árangri frá upphafi, 7. sætinu, en áður var það 9. sætið þegar liðið lék fyrst í deildinni, árið 2021, og varð þá næstneðst og féll.

Bryndís Rut Haraldsdóttir og Hugrún Pálsdóttir hafa leikið alla 39 leiki Tindastóls í efstu deild, alla 18 leikina árið 2021 og þær spiluðu alla leikina í ár, 21 talsins. 

Sigríður Lára Garðarsdóttir sló leikjametið hjá ÍBV í efstu deild kvenna í sama leik. Hún lék sinn 149 leik fyrir ÍBV í deildinni og sló met Elenu Einisdóttur.

Kristín Erna Sigurlásdóttir og Bryndís Rut Haraldsdóttir í baráttu á …
Kristín Erna Sigurlásdóttir og Bryndís Rut Haraldsdóttir í baráttu á Sauðárkróki á laugardaginn. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði annað marka ÍBV gegn Tindastóli. Hún fór þar með upp fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur og er orðin þriðja markahæst hjá ÍBV í efstu deild með 49 mörk. Fyrir ofan hana eru Bryndís Jóhannesdóttir með 64 mörk og Cloé Lacasse með 54 mörk.

Hulda Ósk Jónsdóttir úr Þór/KA lék sinn 150. leik í efstu deild þegar Akureyrarliðið vann Þrótt 2:0 á útivelli í gær. Þar af eru 134 fyrir Þór/KA en hinir 16 fyrir KR.

Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Stjörnunni lék sinn 100. leik í deildinni þegar Garðabæjarliðið tapaði 2:0 fyrir Breiðabliki í Kópavogi í gær. Þar af er 91 leikur fyrir Fylki en hinir níu með Stjörnunni í ár.

Þróttarinn Helgi Þorvaldsson benti á villu í pistlinum um 20. umferð deildarinnar. Þar var sagt að annað mark Þróttar gegn FH, sem Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði, hefði verið 200. mark Þróttar í deildinni. Það rétta er að það var fyrsta mark Þróttar í leiknum sem var 200. markið en það var sjálfsmark eftir glæsilegt stangarskot Kötlu Tryggvadóttur í markvörðinn og inn.

Laura Frank skoraði sitt fyrsta mark í deildinni, í sínum fjórða leik, þegar Valur vann FH 3:1 í gær.

Viktoría París Sabido kom inn á hjá Breiðabliki gegn Stjörnunni og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.

Selfyssingarnir Ásdís Þóra Böðvarsdóttir og Elsa Katrín Stefánsdóttir léku báðar sinn fyrsta leik í efstu deild þegar lið þeirra tapaði 1:0 í Keflavík á laugardaginn.

Úrslit­in í 21. um­ferð:
Kefla­vík - Sel­foss 1:0
Tinda­stóll - ÍBV 7:2
Val­ur - FH 3:1
Breiðablik - Stjarn­an 2:0
Þrótt­ur R. - Þór/​KA 0:2

Marka­hæst­ar:
14 Bryn­dís Arna Ní­els­dótt­ir, Val
9 Agla María Al­berts­dótt­ir, Breiðabliki
8 Katla Tryggva­dótt­ir, Þrótti
8 Murielle Tiernan, Tindastóli 
8 Sandra María Jessen, Þór/​​​​​​​​​​​​​​​​​​KA
7 Andrea Rut Bjarna­dótt­ir, Breiðabliki
7 Andrea Mist Páls­dótt­ir, Stjörn­unni
7 Birta Georgs­dótt­ir, Breiðabliki
7 Katrín Ásbjörns­dótt­ir, Breiðabliki
7 Linli Tu, Kefla­vík/​​​​​​​Breiðabliki
7 Shaina Ashouri, FH
6 Ásdís Kar­en Hall­dórs­dótt­ir, Val
6 Freyja Karín Þor­varðardótt­ir, Þrótti
6 Mel­issa Garcia, Tinda­stóli
6 Olga Sevcova, ÍBV
6 Tanya Boychuk, Þrótti
6 Þór­dís Elva Ágústs­dótt­ir, Val
5 Gunn­hild­ur Yrsa Jóns­dótt­ir, Stjörn­unni
5 Kar­en María Sig­ur­geirs­dótt­ir, Þór/​KA

Næstu leik­ir:
30.9. Breiðablik - FH
30.9. Þróttur R. - Valur
30.9. Þór/KA - Stjarnan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert