Hinn magnaði sigur Tindastóls á ÍBV skyggir á flest annað sem gerðist í 21. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta um helgina en það var jafnframt lokaumferðin í neðri hluta deildarinnar.
Tindastóll vann leikinn 7:2 og þetta er stærsti sigur félagsins í sögunni í efstu deild. Sá stærsti fram að þessu kom í fyrri heimsókn Eyjakvenna á Sauðárkrók í sumar en þá vann Tindastóll 4:1.
Murielle Tiernan varð fyrst í sögunni til að skora þrjú mörk eða fleiri í leik fyrir Tindastól í efstu deild en hún gerði fjögur markanna og þrjú þeirra með skalla á fyrstu 36 mínútum leiksins.
Murielle varð jafnframt með fjórða markinu fyrsti leikmaður Tindastóls til að skora tíu mörk samtals fyrir félagið í efstu deild.
Tindastóll náði sínum besta árangri frá upphafi, 7. sætinu, en áður var það 9. sætið þegar liðið lék fyrst í deildinni, árið 2021, og varð þá næstneðst og féll.
Bryndís Rut Haraldsdóttir og Hugrún Pálsdóttir hafa leikið alla 39 leiki Tindastóls í efstu deild, alla 18 leikina árið 2021 og þær spiluðu alla leikina í ár, 21 talsins.
Sigríður Lára Garðarsdóttir sló leikjametið hjá ÍBV í efstu deild kvenna í sama leik. Hún lék sinn 149 leik fyrir ÍBV í deildinni og sló met Elenu Einisdóttur.
Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði annað marka ÍBV gegn Tindastóli. Hún fór þar með upp fyrir Margréti Láru Viðarsdóttur og er orðin þriðja markahæst hjá ÍBV í efstu deild með 49 mörk. Fyrir ofan hana eru Bryndís Jóhannesdóttir með 64 mörk og Cloé Lacasse með 54 mörk.
Hulda Ósk Jónsdóttir úr Þór/KA lék sinn 150. leik í efstu deild þegar Akureyrarliðið vann Þrótt 2:0 á útivelli í gær. Þar af eru 134 fyrir Þór/KA en hinir 16 fyrir KR.
Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Stjörnunni lék sinn 100. leik í deildinni þegar Garðabæjarliðið tapaði 2:0 fyrir Breiðabliki í Kópavogi í gær. Þar af er 91 leikur fyrir Fylki en hinir níu með Stjörnunni í ár.
Þróttarinn Helgi Þorvaldsson benti á villu í pistlinum um 20. umferð deildarinnar. Þar var sagt að annað mark Þróttar gegn FH, sem Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði, hefði verið 200. mark Þróttar í deildinni. Það rétta er að það var fyrsta mark Þróttar í leiknum sem var 200. markið en það var sjálfsmark eftir glæsilegt stangarskot Kötlu Tryggvadóttur í markvörðinn og inn.
Laura Frank skoraði sitt fyrsta mark í deildinni, í sínum fjórða leik, þegar Valur vann FH 3:1 í gær.
Viktoría París Sabido kom inn á hjá Breiðabliki gegn Stjörnunni og lék sinn fyrsta leik í efstu deild.
Selfyssingarnir Ásdís Þóra Böðvarsdóttir og Elsa Katrín Stefánsdóttir léku báðar sinn fyrsta leik í efstu deild þegar lið þeirra tapaði 1:0 í Keflavík á laugardaginn.
Úrslitin í 21. umferð:
Keflavík - Selfoss 1:0
Tindastóll - ÍBV 7:2
Valur - FH 3:1
Breiðablik - Stjarnan 2:0
Þróttur R. - Þór/KA 0:2
Markahæstar:
14 Bryndís Arna Níelsdóttir, Val
9 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
8 Katla Tryggvadóttir, Þrótti
8 Murielle Tiernan, Tindastóli
8 Sandra María Jessen, Þór/KA
7 Andrea Rut Bjarnadóttir, Breiðabliki
7 Andrea Mist Pálsdóttir, Stjörnunni
7 Birta Georgsdóttir, Breiðabliki
7 Katrín Ásbjörnsdóttir, Breiðabliki
7 Linli Tu, Keflavík/Breiðabliki
7 Shaina Ashouri, FH
6 Ásdís Karen Halldórsdóttir, Val
6 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
6 Melissa Garcia, Tindastóli
6 Olga Sevcova, ÍBV
6 Tanya Boychuk, Þrótti
6 Þórdís Elva Ágústsdóttir, Val
5 Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Stjörnunni
5 Karen María Sigurgeirsdóttir, Þór/KA
Næstu leikir:
30.9. Breiðablik - FH
30.9. Þróttur R. - Valur
30.9. Þór/KA - Stjarnan