9 mánaða á fyrsta landsleiknum

Freyr Sverrisson, Mattea Día Daníelsdóttir og Ásdís Vala Freysdóttir.
Freyr Sverrisson, Mattea Día Daníelsdóttir og Ásdís Vala Freysdóttir. mbl.is/Brynjólfur Löve

Hin níu mánaða gamla Mattea Día Daníelsdóttir verður í stúkunni þegar Ísland mætir Úkraínu í umspili um laust sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2024 í Wroclaw í Póllandi í kvöld.

Faðir Matteu, Daníel Leó Grétarsson, er í leikmannahóp íslenska liðsins í kvöld og stóð vaktina í vörn liðsins í 4:1-sigrinum gegn Ísrael í Búdapest á fimmtudaginn síðasta.

Móðir Matteu, Ásdís Vala, og móðurafi hennar, Freyr Sverrisson, leikmaður með Keflavík á árum áður og þjálfari um árabil, verða einnig í stúkunni en um 500 Íslendingar verða í stúkunni í kvöld á meðan Úkraínumenn verða talsvert fleiri eða tæplega 34.000.

Gátu ekki annað en mætt

„Þetta er fyrsti landsleikurinn hennar,“ sagði Ásdís Vala í samtali við mbl.is í Wroclaw í Póllandi í dag.

„Við horfðum á Ísraelsleikinn heima í stofu en eftir sigurinn í þeim leik gátum við ekki annað en farið til Póllands, enda bjuggum við hérna á síðasta ári.

Við gátum ekki annað en mætt,“ sagði Ásdís Vala sem spáir Íslandi sigri í kvöld en Daníel Leó lék með Slask Wroclaw tímabilið 2022-23.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka