Einn besti leikmaður sem ég hef spilað með

Arna Eiríksdóttir átti gott síðasta tímabil með FH.
Arna Eiríksdóttir átti gott síðasta tímabil með FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líst ágætlega á þessa spá. Þetta er nokkurn veginn eins og maður bjóst við,“ sagði Arna Eiríksdóttir, leikmaður FH, í samtali við mbl.is.

FH er spáð fimmta sæti í spá forráðamanna, fyrirliða og þjálfara Bestu deildar kvenna í fótbolta fyrir komandi leiktíð en liðið átti að sækja Tindastól heim í fyrstu umferð deildarinnar í dag. Leiknum hefur verið frestað vegna vallarskilyrða á Sauðárkróki. Leikið verður kl. 18 á morgun, mánudag.

FH mætir með nokkuð breytt lið til leiks á komandi tímabil, en Arna vill byggja ofan á flott síðasta ár. FH var þá nýliði í Bestu deildinni, var í toppbaráttu um tíma og endaði að lokum í sjötta sæti.

„Það er eitthvað um breytingar og nánast allir sem voru að láni eru komnir alveg yfir í FH núna. Við getum haldið áfram að byggja ofan á það sem við vorum að gera í fyrra og bæta ofan á það.“

Arna Eiríksdóttir er spennt fyrir komandi tímabili.
Arna Eiríksdóttir er spennt fyrir komandi tímabili. mbl.is/Eyþór Árnason

Arna var að láni hjá FH frá Val á síðustu leiktíð og skrifaði svo undir þriggja ára samning við félagið fyrir þetta tímabil. Hún er afar hrifin af lífinu í Hafnarfirðinum.

Mér líður ótrúlega vel hjá FH og þetta er rosalega skemmtilegur hópur. Þetta eru flottar og hæfileikaríkar stelpur. Þjálfararnir eru svo frábærir og ég er að fá skemmtilegt hlutverk. Við spilum mikinn sóknarbolta, sem er krefjandi fyrir hafsent.“

Á meðal leikmanna sem eru farnir er Shaina Ashouri, einn besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð. Arna hefur ekki miklar áhyggjur, þar sem Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir er á meðal leikmanna sem eru komnir í staðinn.

Systurnar Hlín Eiríksdóttir og Arna Eiríksdóttir saman á landsliðsæfingu.
Systurnar Hlín Eiríksdóttir og Arna Eiríksdóttir saman á landsliðsæfingu. mbl.is/Hákon Pálsson

„Shaina stóð sig vel í fyrra og gerði mikið fyrir okkur. Við eru komnar með aðra leikmenn inn í staðinn, eins og Andreu Rán sem er einn besti leikmaður sem ég hef spilað með. Hún mun geta fyllt þetta skarð.“

Arna viðurkenndi að það væri meiri pressa á FH núna en fyrir ári síðan, enda vill félagið fylgja á eftir góðu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu.

„Í fyrra þótti öllum allt sem við gerðum alveg frábært og það bjóst enginn við neinu frá okkur. Núna eru væntingarnar meiri og það er okkar að standa undir því. Ég finn ekki endilega meiri pressu utan frá, en við setjum sjálfar á okkur pressu,“ sagði Arna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert