Líður eins og ég sé rosalega gömul

Bryndís Rut Haraldsdóttir er leiðtogi hjá Tindastóli.
Bryndís Rut Haraldsdóttir er leiðtogi hjá Tindastóli. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Tindastóls, er ekki hissa á að liðinu sé spáð neðsta sæti í Bestu deildinni fyrir komandi leiktíð í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna deildarinnar.

„Við erum bara lítið félag úti á landi og maður gerir sér grein fyrir því. Það er ekkert óeðlilegt að okkur sé spáð falli eða í neðri hlutanum,“ sagði hún við mbl.is en Tindastóll átti að taka á móti FH í fyrstu umferðinni á Sauðárkróki í dag. Leiknum hefur verið frestað vegna vallarskilyrða og hann fer fram á morgun, mánudag, kl. 18.

En hvað þarf Tindastóll að gera til að halda sér uppi?

„Við þurfum að hafa einbeitingu á markmiðunum okkar og hafa trú á verkefninu. Við þurfum að halda áfram að sanna okkur, eins og við höfum verið að gera. Það eru breytingar en við höldum sama íslenska kjarna, með smá viðbót sem eru ungir og efnilegir leikmenn.

Við erum með meiri reynslu og vitum betur við hverju við eigum að búast en fyrst þegar við vorum í deildinni. Hópurinn og þjálfarateymið er búið að breytast. Við vorum samt ekki langt frá því að halda okkur uppi fyrsta tímabilið. Svo var geggjað að ná markmiðinu að halda okkur upp í fyrra,“ sagði hún.

Bryndís er ekki orðin þrítug en hún er einn reynslumesti leikmaðurinn í ungu liði Tindastóls og hefur spilað alla 39 leiki félagsins í efstu deild. Hún er spennt fyrir ungum og efnilegum leikmönnum liðsins.

„Ég viðurkenni að mér líður eins og ég sé rosalega gömul, þótt ég sé bara 29 ára. Það eru 15 ára stelpur að byrja leiki hjá okkur. Ég dýrka þessar stelpur. Þær eru mjög hressar og skemmtilegar og aldursmunurinn skiptir mig engu máli.

Það er virðing í báðar áttir og allir með hug og hjarta í þessu, sem er lykilatriði fyrir okkur sem erum úti á landi. Það er alltaf mikil stemning og mikið stolt sem fylgir því að vera Skagfirðingur í íþróttum,“ sagði Bryndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert