Þá eigum við möguleika á toppbaráttu

Þór/KA er spáð þriðja sæti.
Þór/KA er spáð þriðja sæti. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA er spáð þriðja sæti Bestu deildarinnar í fótbolta á komandi leiktíð af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamönnum liðanna.

Liðið endaði í fimmta sæti í fyrra en er spáð betra gengi í ár en Akureyrarliðið heimsækir Íslandsmeistara Vals í fyrstu umferð deildarinnar á Hlíðarenda þar sem flautað verður til leiks klukkan 15 í dag.

„Auðvitað er alltaf gott að vera í efri hlutanum en það fer enginn í mótið með það að markmiði að enda í þriðja sæti. Við viljum vera ofar en þriðja sæti er fínt,“ sagði landsliðskonan Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, í samtali við mbl.is.

„Við þurfum að láta styrkleikana okkar skína enn meira og gera það sem við höfum verið að gera vel enn betur. Við erum með kjarna sem hefur verið lengi saman. Leikmannahópurinn í ár er svipaður og í fyrra.

Erlendu leikmennirnir eru með svipaða eiginleika og þeir sem við fengum í fyrra. Við stöndum fyrir okkar og ef við gerum það sem við gerum vel þá eigum við möguleika á að blanda okkur í toppbaráttu,“ sagði Sandra, sem er sátt við leikmannahóp liðsins.

„Þessir yngri leikmenn sem hafa verið að fá mínútur og hlutverk eru klárari núna en í fyrra. Mér fannst við taka eitt skref upp í fyrra frá því árið á undan og þeir sem voru í minni hlutverkum í fyrra eru tilbúnir í stærri hlutverk,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert