Annað hvort stöngin út eða stöngin inn

Sigdís Eva Bárðadóttir skorar fallegt fyrsta mark leiksins.
Sigdís Eva Bárðadóttir skorar fallegt fyrsta mark leiksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrsti leikurinn í Bestu og við kláruðum þetta með stæl,“ sagði Sigdís Eva Bárðardóttir leikmaður Víkings í samtali við mbl.is eftir að hún og liðsfélagar hennar báru sigurorð á Stjörnunni í 1. umferð Bestu deildarinnar, 2:1.

„Mér fannst við spila vel. Við héldum okkar plani og gerðum það sem við ætluðum að gera og uppskárum sigur,“ bætti við Sigdís við.

Hún skoraði fyrsta mark leiksins með fallegu skoti utan teigs í stöngina og inn, hennar fyrsta mark í efstu deild. Sigdís skoraði ekki ósvipað mark á móti Val í Meistarakeppni KSÍ í síðustu viku.

„Ég gerði það sem ég geri, fór inn og skaut. Á einhvern hátt var þetta svipað og á móti Val en þá var ég nær miðjunni. Þetta var meira úti en þetta var sama uppskriftin. Ég sá að boltinn var að fara í stöngina og það var annað hvort stöngin út eða stöngin inn,“ sagði Sigdís sem er aðeins 17 ára gömul en skoraði 16 mörk í deild og bikar á síðasta tímabili.

Hafdís Bára Höskuldsdóttir skoraði sigurmark Víkings snemma í seinni hálfleik. Eftir það skapaði Stjarnan sér fá færi og Víkingur sigldi sterkum sigri í höfn.

„Við fórum aðeins aftar, þéttum okkur meira og þær komust ekkert í gegn. Það er frábært að vera byrjaðar í Bestu deildinni. Undirbúningstímabilið var hart og erfitt. Við sýndum það í þessum leik að við getum unnið þessi lið,“ sagði Sigdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert