Oft verið spáð falli

Kristrún Ýr Holm og stöllur ætla sér stærri hluti en …
Kristrún Ýr Holm og stöllur ætla sér stærri hluti en spáin segir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við ætlum okkur að vera ofar en þetta,“ sagði Kristrún Ýr Holm fyrirliði Keflavíkur um spá fyrirliða, forráðamanna og þjálfara Bestu deildarinnar í fótbolta. Samkvæmt spánni endar Keflavík í níunda sæti og fellur.

Keflavík sækir Breiðablik heim í fyrstu umferð deildarinnar á Kópavogsvöll klukkan 18 í kvöld. 

„Þetta er ekkert nýtt. Okkur hefur oft verið spáð falli en alltaf náð að afsanna spána. Við þurfum að vinna leiki og skora mörk til að afsanna þessa spá,“ sagði Kristrún við mbl.is. 

Keflavíkurliðið er nokkuð breytt á milli ára. Ellefu leikmenn eru horfnir á braut og þrír erlendir leikmenn komnir inn.

„Þetta er svolítið öðruvísi lið í ár. Við erum búnar að missa svolítið af leikmönnum en fengið sókndjarfa og góða erlenda leikmenn.

Svo eru margir ungir og spennandi leikmenn sem hafa verið að sýna frábæra takta. Ég er bjartsýn og hef trú á þessu,“ sagði Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert